Brent Hinds fyrrum gítarleikari og söngvari bandarísku þungarokkshljómsveitarinnar Mastodon lést í gær í mótórhjólaslysi 51 árs að aldri. Sveitin hefur getið sér gott orð í þungarokki en náði inn í meginstraum tónlistarinnar en sveitin hefur hlotið þó nokkrar tilnefningar til Grammy verðlauna en hlotið þau einu sinni. Sveitin spilaði á tónleikum á Íslandi þrisvar sinnum, tvisvar árið 2003 og einu sinni árið 2015.
Sveitin er frá Atlanta í Georgíu og var stofnuð árið 2000 og er enn að en Hindes hætti í sveitinni fyrr á þessu ári að sögn vegna óreglu og ágreinings við aðra hljómsveitarmeðlimi en hann úthúðaði þeim á samfélagsmiðlum og í samtölum við fjölmiðla.
Tónlist Mastodon er lýst með þessum hætti á íslensku útgáfu Wikipedia:
„Stíll sveitarinnar einkennist af þungum og oft á tíðum teknískum gítarleik, flóknum og jazz-skotnum trommuleik, drynjandi bassa og rifnum söng. Áhrif eru m.a. frá framsæknu rokki, þrassi, metalcore, stóner-rokki, pönki og rokki.“
Sveitin náði að slá í gegn og tónlist hennar náði oft ofarlega á vinsældarlista. Mastodon hefur verið tilnefnd 6 sinnum til Grammy-verðlaunanna en hlotið þau einu sinni, árið 2018 fyrir lagið Sultan´s Curse.
Mastodon spilaði á tveimur tónleikum á Íslandi árið 2003, annars vegar á Grand Rokk og hins vegar Gauki á Stöng. Sveitin kom aftur til landsins árið 2015 og þá var frægð hennar og velgengni orðin töluvert meiri og þá dugði ekki minna til en Vodafone-höllin á Hlíðarenda til að halda tónleika.
Eins og áður segir hætti Brent Hindes í sveitinni fyrr á þessu ári en á Facebook-síðu sveitarinnar er fráfall hans harmað mjög:
„Hjörtu okkar eru brostin og við erum í áfalli. Við erum enn að reyna að meðtaka fráfall þessa mikla sköpunarafls sem við deildum með svo mörgum sigrum og áföngum og sömdum tónlist sem hefur snert hjörtu svo margra.“