Vinsælasta ABBA sýning í heimi Mania: The ABBA Tribute er á leið til Íslands. Sýningin verður haldin 27. september í Eldborg í Hörpu.
Þetta er vinsælasta ABBA sýning í heimi og hefur verið sýnd í yfir 35 löndum síðustu tvo áratugi. Milljónir gesta hafa skemmt sér konunglega á Mania: The ABBA Tribute. Uppselt var á tónleikana í Shaftesbury leikhúsinu í West End 2021 og á alls 80 sýningum um öll Bandaríkin 2022 og 2023.
Mania: The ABBA Tribute skartar hæfileikaríkum flytjendum og tónlistarfólki sem endurskapa síðustu tónleika hinnar goðsagnarkenndu sænsku hljómsveitar ABBA í lifandi flutningi með flottri sviðssetningu, búningum og lýsingu. Á sýningunni verða öll frægustu lög ABBA eins og Mamma Mia, Voulez Vous, Dancing Queen, The Winner Takes It All, SOS, Fernando, Does Your Mother Know, Gimme! Gimme! Gimme!, Waterloo og fleiri.
Í tilkynningu segir að mikið verði um að vera í Hörpu þessa helgi í lok september því kvöldið áður en Mania: The ABBA Tribute stígur á svið í Eldborg í Hörpu mun ein vinsælasta kántrý hljómsveit í Bretlandi í dag Dominic Halpin and the Hurricanes stíga á svið á sama stað og halda tónleikana A Country Night in Nashville. Tónleikarnir koma beint frá The Royal Albert Hall í London og metsölu tónleikaferðalagi í Bretlandi. Kántrýsveitin er einnig á vegum Jamboree Entertainment en fyrirtækið er leiðandi í bresku tónleikahaldi á Íslandi.