Móðirin kemur fram nafnlaus til þess að vernda son sinn. Við ætlum að kalla hann Jónas.
Jónas byrjaði að ýta sér áfram á rassinum, sem smábarn, eftir að hann fattaði að hann gæti hreyft sig sjálfur var hann aldrei kyrr.
„Hann var alltaf glaður, upp um allt og út um allt,“ segir móðir hans og bætir við að hún hafi snemma fengið spurningar á leikskólanum hvort hún héldi að hann væri ofvirkur.
„Ég hélt bara að strákar væru svona.“
Jónas fékk ADHD greiningu á síðasta ári í leikskóla og var rosalega spenntur að byrja í skóla.
Aðspurð hvort hún hafi verið hrædd við skólagöngu Jónasar segir hún: „Nei, hann var svo spenntur að ég og við vorum bara spennt með honum.“
„Ég á mynd af honum fyrir fyrsta skóladaginn í fyrsta bekk og svo fyrsta daginn í öðrum bekk. Það er eins og það sé sitthvort barnið. Hann langaði ekkert í skólann í öðrum bekk. Öll gleði var farin.“
Aðspurð hvað hún eigi við með þessu og hvað hafði gerst á þessum tíma hjá barninu segir hún: „Hann upplifði strax í fyrsta bekk að hann væri fyrir, passaði ekki inn og af því hann gæti ekki setið kyrr þá var hann fyrir.“
Með tímanum komu í ljós námsörðuleikar sem jaðarsettu Jónas enn meira innan skólakerfisins.
„Ég og pabbi hans skildum og það var ekki fallegur skilnaður. Við ákváðum í sameiningu að finna skóla sem átti að henta honum vel og pabbi hans flutti í hverfið sem skólinn var. Jónas flutti svo til pabba síns til þess að fara í þann skóla og til þess að geta eignast vini.“
Til að byrja með gekk auðvitað vel en fljótlega fór Jónas að vera fyrir í skólanum, var mikið settur fram á gang í sófa þar sem hann átti að „hvíla sig“ en mjög fljótlega var hann settur í námsver.
„Í mínum huga var námsver eitthvað sem átti að hjálpa honum en ég er reið út í sjálfa mig í dag að hafa treyst þessu. Hann var bara geymdur þarna og fékk enga kennslu.“
Í áttunda bekk fór Jónas í einkarekinn grunnskóla í Hafnarfirði þar sem hann var afburða klár á tölvur. „Ég spurði hvort skólastjórnendur vildu ekki fá pappíra og gögn um hann og stöðu hans en þeir afþökkuðu það og sögðust vilja kynnast honum frá grunni. Það er falleg hugsun en eftir á sé ég að það var rangt.“
Jónas var fljótur að upplifa sig fyrir og upplifa höfnun. Hann fór í mótþróa og fór að sýna einhverja áhættuhegðun.
Hann var rekinn úr skólanum í tíunda bekk. Eftir það fór allt niður á við og Jónas leitaði í neyslu, í hóp krakka sem samþykktu hann.
Mikið hefur verið í umræðunni hvernig úrræði fyrir börn og unglinga séu á Íslandi. Þegar Jónas var rekinn úr grunnskóla voru þau að bíða eftir MST á vegum barnaverndar. Hann leiddist hratt út í mikla neyslu en ekki má sækja um meðferð á Stuðlum á meðan önnur þjónusta er í gangi eða önnur umsókn í kerfinu.
„Mér var sagt að MST væri dýrasta úrræði sem til væri og upplifði að ég ætti nú bara að vera þakklát fyrir að fá það. Á þeim tíma þurfum við annað.“
„Um leið og MST kláraðist hringdi ég til að sækja um meðferð en þá var það ekki hægt útaf sumarfríi. Ég gat ekki lagt inn beiðni í sex vikna sumarfríi starfsmanna Stuðla.“
Það tekur rosalega á að eiga barn í þessari stöðu. Móðir Jónasar leitaði stundum dögum saman af honum og rifjar upp þegar hún hafði verið vakandi í fimm daga og var úti að leita.
„Maður er ekki góður ökumaður þegar maður hefur verið vakandi í fimm daga. Ég hef kynnst öðrum mömmum stráka í sömu stöðu sem hefur hjálpað mér mikið. Loksins skildi mig einhver, án þess að gefa ráð eða dæma mig. Það er svo dýrmætt,“ segir hún.
„Það er ekkert úrræði á Íslandi sem er eingöngu fyrir drengi. Af hverju má ekki kaupa Háholt? Svör stjórnvalda eru þau að sjúkrabíll er of lengi á leiðinni. Ef eitthvað mjög alvarlegt kemur upp á, má þá ekki kalla út þyrlu? Mæður þessara drengja vilja senda þá á Háholt. Vandamálið er að það er ekki hlustað á foreldra,“ segir Tinna Barkadóttir, hjá Sterk saman.
„Kristrún Frostadóttir var svo djúpt snortin yfir föllnum hermönnum eftir einhverja athöfn úti í heimi að hún ákvað að gefa auka tvo milljarða í vopnakaup“, segir móðir Jónasar og bætir við: „Snerti hana ekkert þegar barn lést í umsjón ríkisins inni á stofnun sem ríkið á og ber ábyrgð á?“ Geir Örn, sem lést á Stuðlum, var vinur Jónasar.
Staðan í dag er sú að Jónas komst inn á Blönduhlíð, sem staðsett er inni á Vogi. „Hann hefur strokið þaðan tvisvar eða þrisvar, til dæmis í útiveru þar sem farið varið með krakkana í Skeifuna. Einnig hefur verið neysla þarna inni.“
Aðspurð hvað tekur við eftir Blönduhlíð segir hún: „Ekkert í raun. Fær að hitta sálfræðing af Vogi og ráðgjafa einu sinni í viku en engin meðferð. Hann féll auðvitað strax og í öllum bæjarleyfum. Hann átti bara að læra af því.“
Að lokum kemur frá Sterk saman: „Við, sem samfélag, erum ekki að gera neitt til að hjálpa þessum týndu börnum. Þau fá sömu skilaboð allstaðar, þau eru fyrir, þau eru í afgangs flokki og ekki þess virði að hjálpa. Horfum okkur nær!“