fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Grefur eftir gulli á Grænlandi – „Ég þarf alltaf að hafa tilgang“

Fókus
Laugardaginn 12. október 2024 09:00

Eldur Ólafsson Mynd/Baldur Kristjánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Texti: Svava Jónsdóttir

Jarðfræðingurinn Eldur Ólafsson, forstjóri námufyrirtækisins Amaroq Minerals, ólst upp á bænum Torfastöðum þar sem foreldrar hans ráku meðferðarheimili. Jarðfræðin og leyndardómar hennar úti í hinum stóra heimi togaði í Eld sem ungur kynntist faginu meðal annars í Kína en Grænland á hug hans allan. Amaroq Minerals borar eftir auðlindum á Grænlandi og síðar á þessu ári er reiknað með að fyrsta gullstöngin verði líti dagsins ljós úr gullvinnslu fyrirtækisins í  Nalunaq-námunni. Þá er fyrirtækið með fleiri járn í eldinum því leit að kopar á svæðinu lofar góðu.

Segja má að Eldur hafi tekið ástfóstri við Grænland í kjölfar verkefnisins. Hann hefur dvalið þar löngum stundum og leggur mikla áherslu á viðskipti við heimabyggð og vera í góðum samskiptum við Grænlendinga. Þannig vinnur fyrirtækið að ýmsum samfélagslegum verkefnum þar í landi samhliða námuvinnslunni.

 Sex systkini í kaupbæti hverju sinni

Eldur Ólafsson ólst upp á bænum Torfastöðum í Bláskógabyggð en foreldrar hans, sem báðir eru af höfuðborgarsvæðinu, höfðu flutt þangað árið 1982 og fæddist hann þremur árum síðar. Hann á tvö eldri systkini sem bæði hafa skarað fram úr á sínum sviðum.

„Fannar, sem er elstur, er líklega þekktastur fyrir árangur í körfubolta og svo er hann líka í alls konar viðskiptum í dag; hótelrekstri og ferðaþjónustu. Systir mín er Björt sem var ráðherra umhverfismála og er núna meðal annars í fasteignaverkefnum,“ segir Eldur.

„Pabbi hafði verið í sveit á sumrin á Steinum undir Eyjafjöllum og hafði alltaf dreymt um að verða bóndi. Móðir mín tengdist unglingameðferðarheimilum ríksins sem Kristján, afi minn, stofnaði. Það má alveg segja að eftir að Breiðavík lokaði árið 1979 hafi meðferðarheimilið Torfastaðir orðið til. Foreldrar mínir ráku þar fjárbú og hestabú og meðferðarheimili fyrir unglinga til ársins 2005. Það má segja að ég hafi á hverjum tíma átt sex önnur „systkini“,“ segir Eldur en á heimilinu, meðferðarheimilinu, bjuggu sex unglingar í tvö til þrjú ár að jafnaði; þrír strákar og þrjár stúlkur.

„Þetta voru krakkar sem urðu utanvelta i samfélaginu, sum áttu við einhvern hegðunarvanda að stríða, höfðu lent í einhvers konar ofbeldi, höfðu ekki fengið ást og atlæti eða bara pössuðu ekki alveg inn í mynstur þjóðfélagsins. Þessir um það bil 200 krakkar sem voru á Torfastöðum urðu fóstursystkini okkar. Þetta var ekkert auðvelt og hafði skiljanlega áhrif á mann en árangurinn varð mikill. Mamma var með skóla á staðnum fyrir þessa sex krakka sem höfðu jafnvel ekki verið í skóla í tvö til þrjú ár en næstum því allir kláruðu síðan samræmdu prófin og náðu þeim og voru þá tilbúnir til að velja sér hvaða nám sem þau vildu eftir að hafa verið hjá okkur.“

Samningnum var rift

Ungur átti Eldur sér þann draum að reka meðferðarheimilið sjálfur með tíð og tíma.  Þrátt fyrir að eðalmálmar og auðlindir eigi hug hann allan nú um stundir þá segist hann enn vonast til þess að geta komið að að meðferðarvinnu fyrir börn með einhverjum hætti í framtíðinni.

„Foreldrar mínir voru með þjónustusamning við ríkið en skyndilega og óvænt var honum sagt upp meðal annars vegna þess að ríkið ákvað að greiða þeim ekki fyrir kennslu. Samningnum var rift eftir áratuga starf þrátt fyrir góðan árangur og í dag er ekkert meðferðarheimili eftir. Þarna áttaði ég mig á hvernig það er að hafa ekki frelsi undan ægivaldi ríkisins. Draumur minn breyttist og ég vildi gera eitthvað þar sem ég gæti haft áhrif og tekið þátt í samfélaginu í einkageiranum. Ég skal alveg viðurkenna að það sat í mér að það sé hægt að kippa svona undan fólki. Þegar fólk er hugsjónafólk getur það verið erfitt fyrir fólk eins og foreldra mína sem og alla hlutaðeigandi þegar svona starfsemi er stöðvuð.“

Var latur í námi til að byrja með

Eldur flutti til Reykjavíkur 16 ára gamall til að fara í Menntaskólann við Sund og öll menntaskólaárin vann hann á Torfastöðum um helgar og á sumrin.

Félagsfræðibraut varð fyrir valinu í byrjun en svo breytti hann um stefnu.

„Ég byrjaði á félagsfræðibraut en svo var ég spurður hvort ég ætlaði að velja auðveldu leiðina, félagsfræðibraut, og ég skipti strax og fór á náttúrufræðibraut og fókuseraði á þau fög. Ég var samt latur í námi,“ segir Eldur með áherslu.

Ástæðan var ekki síst sú að Eldur fetaði í fótspor Fannars bróður síns og ætlaði að verða atvinnumaður í körfubolta. Það var hann á góðri leið með þrátt fyrir að glíma við fæðingagalla sem nefnist klumbufótur. Vinstri fótur hans var snúinn við fæðingu og þurfti hann að ganga með spelkur á fætinum fyrstu árin.

„Fóturinn var í raun öfugur og það þurfti að skera alla löppina upp. Það tók alla barnæskuna að rétta fótinn af,“ segir Eldur. Hann spilaði stundum körfubolta í sveitinni en fór ekki að æfa íþróttina af fullum krafti fyrr en hann flutti til höfuðborgarinnar, þá 16 ára gamall, og þá var markið strax sett hátt.

„Ég æfði og æfði og mér gekk nokkuð vel fyrsta árið. Ég spilaði fyrsta árið með Val og var valinn efnilegasti leikmaðurinn og svo fór ég í KR og þar var ég í tvö ár. Á seinna árinu vorum við búnir að vinna allt sem hægt var að vinna og þá var ég byrjaður í meistaraflokki, 18 ára gamall.“

Eldur var valinn í unglingalandsliðið og var farinn að æfa af miklum krafti átta til níu sinnum í viku.

„Ég á það til að verða svolítið manískur. Að endingu fékk ég álagsbrot í ökklann á vinstri fæti“

Þar með var úti með atvinnumennskudrauminn og Eldur þurfti að setja sér önnur markmið.

Eldur Ólafsson. Mynd/Baldur Kristjánsson

Praktískur og pólitískur

Eldur varð stúdent frá MS og skráði sig í jarðfræði við Háskóla Íslands. Hann segir að sér hafi gengið ágætlega í jarðfræði í skólanum enda hafi honum fundist námið áhugavert.

Félagar hans höfðu ekki mikla trú á því að hann myndi endast í þessu námi en það gerði Eldur nú samt. Af þeim þrjátíu sem hófu námið var hann einn af þeim sex sem luku því.

„Mér fannst áhugavert að sjá hvað jarðfræði hefur mikil áhrif á þjóðfélög; hvers vegna ákveðnar auðlindir eru í Afríku en ekki Asíu og af hverju landbúnaðurinn er svona í Kongó en frábrugðinn í Súdan – hvernig landfræðin, jarðfræðin og orkuauðlindir heimsins hafa áhrif.

Í jarðfræðináminu fékk ég tækifæri að læra um jarðhita og það kveikti mikinn áhuga vegna þess að við erum jú jarðhitaþjóð. Lokaritgerð mín var um djúpborun og varpaði ég þar fram hugmyndum sem ég fór með til Geysir Green Energy og í framhaldi hóf ég störf þar. Þrátt fyrir ungan aldur var ég sendur erlendis til að skoða jarðhitaeignir og taka þátt í að ganga frá fjárfestingum út um allan heim. Maður lærði það nokkuð hratt, enda vorum við bara átta þegar við byrjuðum, og það lagði grunninn að því að skoða allar þessar auðlindir.“

Eldur hefur tekið ástfóstri við Grænland. Mynd/Baldur Kristjánsson

Norðurslóðir mikilvægar Kínverjum

Eldur var sendur til Kína til að vinna að verkefnum fyrirtækisins og rakst fljótlega á að það þýðir ekki alltaf að nota sömu tækni í mismunandi löndum.

„Í kjölfarið réðum við heimamenn sem höfðu menntað sig í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og jafnvel farið í mastersnám; þau komu inn og voru yfir tæknimálunum og fjármálunum. Það voru gerðar alls konar áherslubreytingar og þannig fór þetta að ganga mjög vel.

Við stækkuðum frá einni veitu í þrjár til fjórar veitur og á meðan þetta var að gerast var hrunið hérna heima. Í miðju hruninu urðu skiljanlega erfiðleikar með fjármagn en þá lánaði kínverska fyrirtækið Sinopec, sem er eitt stærsta ríkisolíufyrirtæki í Kína, mikið fé til verkefnisins. Það vakti furðu mína á þeim tíma að þeir skyldu ekki bara taka þetta yfir en þá sá maður hvað Ísland og norðurslóðir skiptu þá miklu máli. Þeir höfðu byggt stórt sendiráð á Íslandi og í hvert skipti sem við vorum að skrifa undir eitthvað við Sinopec þá voru þeir mættir til Íslands; þetta var mikilvægara en menn héldu.“

Eldur var hálfþrítugur og á krossgötum úti í Kína. Hann sagði starfi sínu lausu og flutti til Danmerkur þar sem hann fór í fjármálanám og stofnaði fyrirtæki sem sinnti jarðhitaverkefnum í Kína, Afríku og raunar víðar. Og hrunið hafði sín áhrif.

„Ég hef stundum sagt að það skerpi einstaklinginn þegar áföll verða og hrunið var vissulega áfall fyrir okkur öll. En þar mynduðust tækifæri og íslenskt efnahagsumhverfi í dag lítur allt öðruvísi út heldur en það gerði þá, hefur fleiri stoðir og hugsunarhátturinn er breyttur.“

Elsta berg í heimi

Svo kom að því að Eldur horfði til Grænlands, okkar næsta nágrannalands í vestri.

„Þar er elsta berg í heimi og tengist það Norður-Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Labrador og Kanada og jafnvel einu sinni Ástralíu en löndin hafa hreyfst til og þess vegna segi ég „tengist“. Allir þessir málmar og jafnvel olía, gas, vatnsafl og fleira er til staðar. Þetta er að mestu ósnortið land og Kínverjar voru búnir að átta sig á tækifærunum sem það býður upp á.“

Eldur segir að hann hafi byrjað á að gera greiningu á öllu Grænlandi með stærsta námurannsóknarfyrirtæki í heimi; ráðgjafarfyrirtækinu SRK.

„Þar var öllum steinum velt við. Hvað hefur gengið þar upp, hvað ekki? Er betra að einblína á Norður-Grænland eða Suður-Grænland? Hvaða jarðfræði er þarna? Hvar eru flugvellir? Og þegar upp var staðið settum við stefnuna á Suður-Grænland.

Eldur hefur dvalið langdvölum í Qaqortoq í Grænlandi. Mynd/Baldur Kristjánsson

Þegar ég byrjaði á Grænlandi þá var verð á hrávöru í sögulegu lágmarki og þá er ég að tala um olíu, gas og málma. Og fyrirtæki í þessum geira voru yfirskuldsett og vandamálin hrönnuðust upp í þessum geira. Stór fyrirtæki urðu næstum gjaldþrota og á sama tíma vorum við að synda á móti straumnum og að hasla okkur völl. Við gerðum það á okkar forsendum og sögðum að okkar trú væri að heimurinn muni þurfa á málmum að halda.

Við skoðuðum hvernig við gætum myndað tekjuflæði á svæðinu til þess að greiða fyrir leit að fleiri málmum og nú, tíu árum síðar, erum við á lokasprettinum í námunni okkar í Nalunaq og við eigum von á fyrstu gullframleiðslu fyrir árslok. Ég þori að fullyrða að námuverkefni sé eitt það erfiðasta sem þú tekur þér fyrir hendur, enda þarf að byggja alla innviði frá grunni. Og á sama tíma einblínum við á að vinna náið með samfélaginu. Við ráðum heimamenn, þjálfum þá upp til að geta tekið þátt í verkefnunum, aðstoðum fólk til að gerast rafverktakar sem dæmi og við þurfum að skilja umhverfismál til hlítar; ekki bara umhverfismál varðandi það að byggja námu heldur líka hvernig við ætlum að skila námunni.“

Og eins og fyrr segir mun vinnsla í gullnámunni hefjast í lok þessa árs. „Ég vil meina að í Evrópu og þótt víðar væri leitað, allavega á norðurslóðum, séum við með besta jarðfræðiteymið í dag sem er alþjóðlegt teymi og ég er afar stoltur af þessu fólki.“

Eldur er afar stoltur af samstarfsfólki sínu sem hann segir vera í fremstu röð. Mynd/Baldur Kristjánsson

Öflugir fjárfestar

Eldur og Guðrún Helga Kristinsdóttir, eiginkona hans, hafa lagt allt sitt sparifé í Amaroq Minerals og hafa tekið þátt í hverri einustu fjármögnun. Svo var félagið skráð í London árið 2020 og þá var safnað tæpum átta milljörðum króna. „Aftur tókum við þátt, stjórnendurnir, þannig að þetta hafa verið mikil fjárútlát.

Þú þarft auðvitað bæði að sýna á orði en á borði líka að þú standir á bak við verkefni og við höfum aldrei selt hlutabréf í Amaraq hingað til, ég og konan mín, Guðrún Helga, þannig að við höfum alltaf tekið þátt. Félagið hefur verið markaðssett á þeim forsendum að á Grænlandi sé mikill vöxtur og við erum að byggja upp þessa þekkingu til að byggja og búa til námu sem við þurfum.“

Eldur segir að eftir Covid-heimsfaraldurinn hafi menn áttað sig meira á hvað verð á námufélögum voru gríðarlega lág auk þess sem þeir fóru að átta sig á þeim miklu tækifærum sem fylgir slíkum félögum. „Svo skiptir miklu máli þegar um er að ræða skráð félag að gera allt eftir bókinni. Það skiptir til dæmis máli hvernig stjórnarhættir eru og hvernig hlutfall fjárfesta er, svo sem að enginn fjárfestir eigi meira en 5-6%, og þá fær félagið trú og traust erlendra fjárfesta.“

Eldur segir að Amaroq sé stærsti einkafjárfestirinn á Grænlandi. Sjálfur á Eldur um 3% í félaginu.

„Hlutur minn hefur minnkað eftir því sem við höfum fengið meira fjármagn. Og við erum með sterka fjárfesta, meðal annars þjóðarsjóð Danmerkur, þjóðarsjóð Grænlands, lífeyrissjóði og hrávörusjóði. Þetta er stór partur af því að markaðssetja og vinna með félagið út um allan heim alveg eins og að reka námuna.“

Koparinn næst?

Amaraq hefur fundið töluvert magn af kopar á Suður-Grænlandi og segir Eldur að öll ummerki gefi vonir um að þar geti verið 120 kílómetra koparbelti.

„Kopar er sá málmur sem er hvað mikilvægastur í rafvæðingunni í heiminum. Flestar námur í heiminum í dag eru gamlar og er verið að vinna dýpra og dýpra. Það verður sífellt dýrara að vinna í þeim og verra hlutfall af málmi í hverju tonni. Við erum núna að bora á tveimur stöðum, meðal annars í gamalli koparnámu suðvestur af Qaqortoq, sem er stærsti bærinn á Suður-Grænlandi, til þess að sjá hvort hún sé stærri.

Þetta er auðvitað áhættusamt. Við erum að bora kannski á fjórum til fimm stöðum á hverjum tíma. Við höfum oftast fundið málm en oft er þetta ekki nægilega stórt og ekki áhættunnar virði þannig að maður verður að vera snöggur að stoppa verkefni. En ef þú finnur góð verkefni þá geta þau verið margra billjón dollara virði ef af verður. Það er hins vegar ekki hægt að gera ráð fyrir að allt sem er borað gangi eftir. Þess vegna er módelið að vera með tekjuflæði af gullnámunni okkar, vonandi til næstu 20-30 ára, og geta verið að bora fimm til sex svæði á hverju ári og farið svo að byggja hægt og bítandi næstu námu og næstu námu eftir því sem við byggjum upp.“

Ýmis samfélagsleg verkefni

Eldur segir að Grænlendingar séu almennt vingjarnlegt fólk. „Þeir eru svolítið hlédrægir fyrst en um leið og maður kynnist þeim er þetta vingjarnlegt og gott fólk upp til hópa. Út af þeirri breytingu sem hefur orðið úr veiðimannasamfélagi yfir í nútímasamfélag hafa tækifæri til framfara verið færri en vonir stóðu til og því viljum við breyta. Meirihluti starfsfólks okkar eru Grænlendingar og við ætlum á næstu árum að hafa nær eingöngu grænlenska starfsmenn ef það eru nægilega margar hendur til staðar. Við tökum samfélagslega ábyrgð okkar alvarlega og styðjum heimamenn til mennta. Við einblínum á að fjárfesta í heimabyggð – að vera í viðskiptum við heimabyggð þannig að stærstu samningarnir okkar eru við fyrirtæki á svæðinu hvort sem það eru þyrlufyrirtæki eða verktakafyrirtæki. Það er að byggjast upp töluverður metnaður, það er að byggjast upp töluverður auður – þetta er stór fjárfesting sem við erum í – og það hefur verið mjög gleðilegt að sjá hvernig það hefur tekið á sig mynd.

Eldur lætur líka til sín taka á vettvangi en ekki aðeins á skrifstofunni. Mynd/Baldur Kristjánsson

Í námuverkefnum notar maður lítið af leyfinu sínu beint undir starfsemina. Í okkar tilfelli horfum við á stærri mynd og erum að búa til nokkurs konar þjóðgarð. Þar erum við að fá leyfi til þess að byrja að planta skógi og við erum búin að flytja inn sauðnaut sem íbúar svæðisins eru byrjaðir að veiða. Varðandi gróðursetninguna vinnum við með landbúnaðarskóla Grænlands sem er á Suður-Grænlandi og þannig fáum við nemendur til að aðstoða við uppbyggingu svæðisins. Annað dæmi um samfélagslegt verkefni er aðstoð við ungt atvinnulaust fólk sem við styrkjum til að gera upp hús. Fyrsta húsið í Qaqortoq, sem er eitt fallegasta húsið þar, er á byrjunarstigi.“

Þá styrkir Amaroq meðal annars handknattleiksstarfsemi, bátasmíði og kórastarf.

Eldur bendir á að þetta verkefni minni að sumu leyti á starfsemina á Torfastöðum á sínum tíma. „Ég hef hugsað út í hvað ég fékk í æsku og að við getum ýtt undir að gera það sama. Fyrir okkur er mikilvægt að samfélagið vaxi og dafni. Við viljum vera með starfsemi á fleiri stöðum og vera í sátt og samlyndi við Grænlendinga þannig að maður reynir að hugsa um hvernig ferillinn var á Íslandi og hvernig við getum séð fyrir hvernig þróunin verður til þess að búa í haginn fyrir okkur af því að á endanum viljum við geta fengið fleira fólk til að vinna fyrir okkur. Þetta tekur aðallega tíma og fókus hjá fólkinu okkar. Þetta er ekki ofboðslega dýrt en það skiptir miklu máli að byggja upp stolt. Að búa þetta til. Við höfum komist að því að til þess að ganga vel á Grænlandi þá þarf eins mikið af hlutverkunum og hægt er að vera þar.“

Að hafa tilgang

Eldur og eiginkona hans, Guðrún Helga, eiga þrjár dætur sem eru fjórtán, tíu og fimm ára. „Við köllum Guðrúnu Helgu „forstjóra fjölskyldunnar“ en hún sér um allt. Ég er eins og vagnhestur sem hleypur áfram en hún sinnir öllu. Hún er ofboðslega blíð, klár og getumikil. Okkar stærstu sigrar eru dætur okkar þrjár og þær eru hvert einasta sumar með okkur allan júlí á Grænlandi. Þetta er mjög gott líf en við eigum oft öðruvísi líf að því leytinu til að ég er ekki mikið heima. Lífið er þess vegna oft strembið; við erum oft ein á sitthvorum staðnum en lífið er samt mjög gott. Við kvörtum ekkert og það væri fásinna að gera það enda erum við algert forréttindafólk í alla staði.“

Þess má geta að Guðrún Helga, sem er fatahönnuður, hefur meðal annars hannað selskinnsjakka sem hafa verið framleiddir af Great Greenland en Guðrún Helga rekur fatahönnunarfyrirtækið Gudrun Studio.

Guðrún, eiginkona Elds, hefur hannað selskinnsjakka sem framleiddir eru í Grænlandi. Mynd/Baldur Kristjánsson

Eldur hefur sérstaklega mikið verið í útlöndum á þessu ári og þá aðallega á Grænlandi. „Ég tók vaktir í námunni í sumar. Þetta þarf að gera. Ég var á vakt í námunni í maí en þá var ég allar nætur að sprengja og bora og svo svaf ég til hádegis og vann um eftirmiðdaginn vinnuna sem ég var að vinna. Þegar við erum með námuverktaka og erum að reyna að segja markaðnum hvenær við ætlum að vera tilbúnir þá get ég sagt nákvæmlega hvað við erum að gera; það skiptir máli í öllum góðum fyrirtækjum að þekkja alla þætti. Maður þarf að vinna líkamlega vinnu og skilja til dæmis hvað þarf að gera þegar rafall bilar, netið dettur út eða vaktir riðlast.“

Þessa mánuðina er mikið verið að markaðssetja fyrirtækið í Skandinavíu þannig að leið Elds liggur oft til hinna Norðurlandanna auk þess sem hann nefnir London, þar sem félagið er skráð, sem og Bandaríkin og Kanada.

Fjölskyldan er oft um helgar á Torfastöðum eða í sumarbústað foreldra Guðrúnar Helgu í Úthlíð.

Jú, Torfastaðir – bærinn og meðferðarheimilið fyrrverandi þar sem Eldur kynntist sögum fjölda unglinga sem upplifað höfðu ýmislegt sem engir unglingar eiga að upplifa. Hvað hefur hann lært af þessu öllu – að kynnast hinum bitra heimi annarra og byggja upp alþjóðlegt fyrirtæki?

„Það er að hafa tilgang. Ég þarf alltaf að hafa tilgang. Og það þarf ekki að tengjast því að vera forstjóri í fyrirtæki.“

Hjartað slær enn fyrir þá sem minna mega sín og gullleitarmanninn Eld Ólafsson dreymir enn um að koma að því að meðferðarheimilið Torfastaðir í einum eða öðrum búningi geti haldið áfram. „Það er mikilvægt.“ Og hjartað slær líka fyrir verkefnið á Grænlandi. „Draumurinn er að búa til fyrirtæki á Suður-Grænlandi sem getur verið sjálfbært til næstu áratuga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“
Fókus
Í gær

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“