Söngkonan Madonna er þekkt fyrir að ögra og hingað til hafa aðdáendur hennar mátt búast við hverju sem er á tónleikum hennar. Það gerði þó ekki einn gestur á tónleikaferðalagi Madonnu sem nefndist Celebration. Honum var gróflega misboðið og hefur nú kært söngkonuna fyrir að hafa þvingað hann, án nokkurrar viðvörunar, til að horfa á klám á sviðinu.
Í stefnu málsins segir tónleikagesturinn, Justen Lipeles, að söngkonan hafa sýnt „klám án viðvörunar“ á tónleikum sínum og að hann því „þvingaður til að horfa á berbrjóstakonur leika kynlífsathafnir“ á sviðinu á tónleikum söngkonunnar í Los Angeles í mars.
Justen segist hafa keypt fjóra miða sem hafi kostað sitt. Þar stóð aðeins hvar og hvenær tónleikarnir væru haldnir, en enginn fyrirvari gerður um að gestir mættu búast við nekt og kynferðislegum undirtónum. Tónleikarnir áttu að hefjast klukkan 20:30 en söngkonan kom þó ekki á svið fyrr um klukkan 22:00. Gestir hafi ekki verið upplýstir um þessa seinkun.
„Hitinn í tónleikahöllinni, Kia Forum, var óþægilega mikill að kröfu Madonnu sem bannaði fólki að kveikja á loftkælingunni“
Justen segir að hann hafi byrjað að svitna mikið út af hitanum og fundið fyrir líkamlegum óþægindum. Þegar gestir tónleikanna kvörtuðu yfir hitanum sagði Madonna þeim bara að afklæðast.
„Þar að auki, í gegnum meirihluta tónleikanna, var augljóst að söngkonan var að þykjast syngja,“ segir í stefnu en þar segir ennfremur: „Á meðan á tónleikunum stóð var stefnandi þvingaður til að horfa á berbrjósta konur leika kynlífsathafnir. Stefnanda leið eins og hann væri að horfa á upptöku klámmyndar.“
Justen telur sig hafa orðið fyrir tilfinningalegu tjóni og að Madonna hafi svikið tónleikagesti með því að stíga of seint á stokk og með því að gefa ekki upp rétta mynd af því hvað gestir ættu í vændum. Henni hafi mátt vera ljóst að hún gæti valdið fólki tilfinningalegum skaða, enda sé þetta ekki í fyrsta skiptið sem Madonnu er stefnt fyrir að láta tónleikagesti bíða, þó svo þetta sé í fyrsta sinn sem hún er sökuð um klámsýningu.