Fjölmiðlar vestanhafs virðast telja niður í þann dag sem hjónin Jennifer Lopez og Ben Afflect tilkynna um skilnað sinn, en sögusagnir herma að hjónabandið hangi nú á bláþræði.
Affleck mætti án eiginkonunnar í útskriftarveislu dóttur sinnar Violet og virtist dapur að sjá að sögn Page Six. Affleck á Violet sem er 18 ára og dótturina Seraphina, 15 ára, og soninn Samuel, 12 ára, með leikkonunni Jennifer Garner. Þau skildu árið 2018 eftir 13 ára hjónaband.
Það sem vakti meiri athygli en útskrift dótturinnar var að Jennifer Lopez var hvergi að sjá, en heimildarmenn segja þau Affleck hafa búið á sitt hvoru heimilinu undanfarnar vikur og að þau ætli að binda enda á hjónabandið eftir að hafa ekki getað látið hlutina ganga upp. Sést hefur til Affleck án giftingarhringsins.
„Ef það væri leið til að skilja á grundvelli tímabundinnar geðveiki, þá myndi hann gera það,“ sagði heimildamaður Page Six. „Ben líður eins og síðustu tvö ár hafi bara verið fantasía og hann hafi nú áttað sig á hlutunum og skilur að það er bara engin leið að hjónabandið muni virka.“
Hjónin hófu ástarsamband sitt að nýju árið 2021 og giftu sig í Las Vegas árið 2022.
Lopez mætti einsömul á Met Gala fyrr í þessum mánuði og jafnframt á rauða dregilinn við frumsýningu nýjustu myndar hennar, Atlas, sem horfa má á á Netflix. Bannaði hún allar spurningar um hjónaband hennar á frumsýningu myndarinnar. Affleck mun vera fluttur út af heimili þeirra, 60 milljón dala setri í Bel Air, sem þau voru tvö ár að finna og gera að draumaheimilinu. Lopez býr þar nú ein ásamt börnum sínum, meðan Affleck býr í leiguhúsnæði steinsnar frá fyrri eiginkonu sinni og börnum þeirra.
Hjónin hittust í síðustu viku, í fyrsta sinn í 47 daga, á skólaleikriti Seraphinu, dóttur Affleck. Þar mætti Lopez ásamt dóttur sinni Emmu, en hún og Seraphina eru miklar vinkonur.