Tónlist fylgir flestum okkar á góðum stundum sem slæmum, margir eiga sín uppáhalds lög sem hlustað er á þegar gaman er, þegar gráta á, þegar ryksuga á og svo framvegis.
Rannsókn hefur nú leitt í ljós að þegar við náum ákveðnum aldri þá missum við hæfileikann til að uppgötva og kunna að meta nýja tónlist. Auðvitað gerist það að við heyrum nýtt lag í útvarpinu, sjónvarpsþáttum, eða annars staðar, en það að virkilega meðtaka og kunna að meta tónlistina er eitthvað sem kallað er á ensku open-earedness.
Hugtakið vísar til getu okkar og löngunar til að hlusta á og íhuga mismunandi hljóð og tónlistarlegan stíl og það kemur líklega ekki á óvart að ungmenni búa yfir slíkri getu og löngum í ríkum mæli.
Rannsóknir hafa gefið til kynna að uppáhaldslögin okkar örva ánægjuviðbrögð í heila okkar, og þó að þetta geti gerst á hvaða aldri sem er, er líklegra að lög verði uppáhaldslög okkar ef við heyrum þau fyrst á unglingsárum okkar, þegar heilinn er að ganga í gegnum miklar breytingar.
Til að komast að því á hvaða aldri við hættum að hlusta á nýja tónlist spurði streymisþjónustan Deezer þúsund Breta um tónlistarval þeirra og hlustunarvenjur.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að 60 prósent fólks töldu sig vera í tónlistargryfju þar sem það hlustaði á sömu lögin í endurtekningu, en 25 prósent sögðust ekki vera líkleg til að prófa að hlusta á nýja tónlist utan þeirrar tónlistarstefnu sem þau voru hrifnust af.
Með því að nota þessar niðurstöður ákváðu rannsakendur að hámarksaldur til að uppgötva nýja tónlist væri 24 ár, þar sem 75 prósent viðmælenda sögðust hlusta á tíu eða fleiri ný lög á viku.
Vilji þáttakenda til að leita að nýjum lögum og listamönnum fór að minnka eftir 24 ára aldur vegna margvíslegra þátta: 19 prósent fólks fannst of mikið af tónlist að velja úr, 16 prósent töldu störf sín of krefjandi og 11 prósent voru of upptekin við að sjá um ung börn.
Við 31 árs aldur hætti fólk alfarið að uppgötva nýja tónlist, að því er fram kemur í rannsókninni.
Adam Read, tónlistarritstjóri Bretlands og Írlands hjá Deezer, sagði: „Þegar það er svona mikið af snilldartónlist til er auðvelt að finnast úrvalið vera yfirþyrmandi. Þetta leiðir oft til þess að við festumst í „tónlistarlömun“ þegar við komumst yfir þrítugt.“
Niðurstöður Deezer minna á niðurstöður úr rannsókn frá árinu 2015 þar sem skoðuð voru gögn frá bandarískum Spotify notendum og Echo Nest og voru niðurstöðurnar þær að eftir 33 ára aldur var líklegra að fólk myndi aldrei hlusta á nýja tónlist aftur.