Hljómsveitin Skítamórall mun halda tónleika á Sviðinu Selfossi föstudag, laugardag og sunnudag núna um helgina.
Á Facebook-síðu með nafninu Skítamórall má sjá færslu þar sem búið er að merkja stórum stöfum „Aflýst“ yfir auglýsingu um tónleikana. Hér er þó maðkur í mysunni því síðan og færslan er ekki á vegum sveitarinnar eða eiganda Sviðsins.
„Að gefnu tilefni ! Í ljósi þess að andlega veikur einstaklingur fer nú mikinn á kostuðum þræði á Facebook með þau skilaboð að tónleikum Skítamórals um helgina sé frestað er rétt að taka fram að það er EKKI RÉTT,“ segir Þórir Jóhannsson eigandi Sviðsins í færslu sem hann birti í hópi íbúa á Selfossi.
„Unnið er að því að fá Faceboook til að fjarlægja þessa spamfærslu. Móralinn er með tónleika ALLA helgina – fös/lau/sun. Uppselt á laugardag, fáir miðar eftir á föstudag og sunnudag. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!“
Þegar Facebook-síðan er skoðuð má sjá að engum líkar við hana og aðeins eru tvær færslur um að tónleikunum sé aflýst, sem eins og fram kemur að ofan er ekki rétt.