Hefur þú opnað jógúrtdollu og séð vatn fljóta ofan á því? Líklegast hefur þú gert það og líklegast hefur þú sullað því niður í vaskinn. En það eru mistök.
Karan Rajan, læknir, kennari við Imperial háskólann í Bretlandi og áhrifavaldur, fjallar um þessi algengu mistök á TikTok síðu sinni.
Segir hann að flest fólk haldi að vökvinn sem safnast ofan á jógúrtinu sé þétting vatns. En það er ekki rétt.
Greinir Rajan frá því að í þessum vökva, þessum dularfulla polli, er fullt af næringarefnum sem eru nauðsynleg fyrir líkamann. Það besta sem sé hægt að gera er að blanda vökvanum aftur út í jógúrtina með skeið.
En af hverju skilst þetta frá? Þegar jógúrt er búið til er hið fasta í mjólkinni, skyrið, aðskilið frá mysunni. En eitthvað verður eftir þegar jógúrt er blandað og efnin byrja að skilja sig aftur.
„Þeim mun lengur sem þú lætur jógúrtina þína óhreyfða þeim mun líklegra er að mysa byrji að skilja sig frá, fara upp á yfirborðið og mynda vatnskennda filmu,“ segir Rajan í myndbandinu.
Í þessum vökva séu til að mynda prótein, B12 vítamín, kalk, gerlar og ýmis steinefni. Rajan segist gera sér grein fyrir að það sé til fullt af fólki sem geti ekki hugsað sér að hræra þessu saman. Fyrir það fólk sé best að kaupa gríska jógúrt eða íslenskt skyr, sem er þykkara og rjómakenndara.