Myndlistar- og kvikmyndagerðakonan Alda Ægisdóttir vann til verðlauna á Sprettfisknum, stuttmyndakeppni Stockfish, annað árið í röð. Stuttmyndin „Sálufélagar“ hlaut titilinn Tilraunaverk ársins, en árið 2023 hlaut Alda sömu viðurkenningu fyrir „Söguna af bláu stúlkunni.“
Alda er 24 ára og mun útskrifast í vor með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands. „Með verkum mínum skapa ég litríka ævintýraveröld úr efnum eins og textíl, leir, pappamassa, vír, og fleiru. Árið 2022, á fyrsta árinu mínu í Listaháskólanum, fór ég að nota „stop-motion“-miðilinn til að lífga við veröld skúlptúra minna. Nú hef ég búið til tvær „stop-motion“-stuttmyndir, Söguna af bláu stúlkunni og Sálufélaga,“ segir Alda.
Dómnefnd Sprettfisksins segir um Sálufélaga, sem vann í ár:
„Sálufélagar dró okkur inn í heim sem að okkur fannst bæði frumstæður og undarlega kunnuglegur. Við vorum umvafin dásamlegu sjónarspili lita og „lífrænna“ formgerða, heilluð af verunum sem að við hittum fyrir og gáttuð á nánum samskiptum lífsformanna.
Við mættum okkar eigin tilfinningum varðandi sálufélaga, bæði fornum og samtímalegu konsepti og okkur fannst skapandinn framkvæma það sem við ætlumst til af tilrauna-fólki okkar og ná að fullgera eitthvað á brún hengiflugsins.“