Ófáir hafa skoðanir á bresku konungsfjölskyldunni og eins hafa margir gert það að starfsferli sínum að spá og spekúlera í málefnum krúnunnar. Einn slíkur sérfræðingur, Tessa Dunlop, segir nú í samtali við Us Weekly að prinsinn Harry sé nú kominn í neyðarlega stöðu.
Ekki er langt síðan prinsinn gaf út æviminningar sínar, bókina Spare, þar sem hann lét allt flakka og lét sér í léttu rúmi liggja að hlífa tilfinningum og einkamálum bróður síns og eiginkonu hans, Vilhjálms Bretaprins og Katrínar prinsessu.
Þar að auki hafa Harry og kona hans, Meghan hertogaynja, látið að því liggja að Katrín sé sá meðlimur fjölskyldunnar sem hafði áhyggjur af húðlit sonar Harry og Meghan.
Dunlop segir að nú þegar heimurinn hafi samúð með Katrínu út af baráttu hennar við krabbamein, þá sé Harry kominn með móral.
„Þegar þú fréttir að mágkona þín er með krabbamein, og þú hefur skrifað um hana hluti sem þú getir ekki dregið til baka, þá er það frekar óþægilegur staður til að vera á.“
Hertogahjónin hafi ekki veigrað sér við að gagnrýna konungsfjölskylduna og hlotið fyrir það mikið lof. Nú sé gagnrýnin hins vegar að eldast illa.
„Þau viljandi gagnrýndu konungsveldið og kynntu sjálfa sig sem andstæðu þeirra. Nú þegar konungsveldið er í vanda, þá fer fólk óhjákvæmilega að bera þetta saman. Geta Harry og Meghan virkilega haldið því fram að þau séu góða fólka núna? Þau þurfa í það minnsta að passa tímasetninguna á öllu sem þau gefa frá sþér hér eftir svo það virki ekki eins og þau séu tækifærissinnar.“
Dunlop varar við því að hertogahjónin þurfi nú að hugsa sig um tvisvar áður en þau fara aftur að blaðra um málefni konungsfjölskyldunnar. Sem vekur upp spurningu um hvað hertogahjónin taki sér þá fyrir hendur þar sem gagnrýnin hefur einkennt öll þeirra helstu verkefni síðan þau héldu til Kaliforníu að eltast við ameríska drauminn.
Dunlop segir að heimildir úr nærumhverfi prinsessunnar hermi að henni hafi verið verulega brugðið þegar Spare kom út, og hvaða mynd var dregin upp af henni þar. Hún sé ekki að flýta sér að taka mág sinn í sátt enda jafngildi útgáfa bókarinnar svikum.
Sérfræðingar hafa allt frá því að bókin kom út varað við því að Harry muni sjá eftir framkomu sinni.
Dunlop telur að sá tími sé nú runninn upp.