Lyf á borð við Ozempic og Wegovy hafa verið mikið á milli tannanna á fólki að undanförnu og það ekki að ástæðulausu. Um er að ræða þyngdarstjórnunarlyf sem upphaflega voru þróuð fyrir þá sem þjást af sykursýki en hafa gagnast öðrum í baráttu við aukakílóin.
Sjá einnig: Hætti á Ozempic og er núna að kljást við hvimleitt vandamál
Morgan, 55 ára, var gestur í spjallþætti Jimmy Fallon í vikunni og fékk hrós frá þáttastjórnandanum fyrir útlit sitt.
„Þú lítur vel út vinur, hvernig heldurðu þér í formi þessa dagana?“ spurði Fallon.
„Sko, það er Ozempic,“ sagði Morgan. „Ég hef lært að borða yfir mig á Ozempic, ég hef þyngst um átján kíló.“
„Ég hef aldrei heyrt um neinn sem hefur þyngst svona,“ sagði þá Fallon.
Á vef Lyfju kemur fram eftirfarandi um áhrif lyfsins:
„Ozempic inniheldur virka efnið semaglútíð. Semaglútíð er sykursýkislyf og tilheyrir flokki glúkagonlík-peptíð-1 (GLP-1) hliðstæðna. Lyfið líkir eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 sem er losað úr þörmum eftir máltíðir og hefur margvísleg áhrif á stjórnun glúkósa og matarlyst […] Einnig hefur lyfið þau áhrif að minniháttar seinkun verður á magatæmingu fyrst eftir máltið og þú finnur fyrir seddutilfinningu, minna hungri og minnkar löngun í fituríkan mat. Þetta getur hjálpað þér við að borða minna og draga úr líkamsþyngd.“
Leikarinn virðist hafa fundið leið framhjá þessari seddutilfinningu en hann grínaðist aftur með það síðar í þættinum að hann hafi „borðað yfir sig á Ozempic“ eða eins og hann sagði: „I out-ate Ozempic.“
Sjá einnig: Brátt geturðu gleymt Ozempic – Ný og byltingarkennd lyf sögð vera handan við hornið