Af þeim sem þátt tóku í árlegri fermingarkönnun ELKO nefndu margir hljómflutningstæki sem eftirminnilegustu fermingargjöfina eða um fimmtungur svarenda. Þá minntist fólk einnig armbandsúra, svefnpoka, skartgripa og ferða bæði innanlands og til útlanda.
Væru þátttakendur könnunarinnar að fermast í ár þá væru snjallúr fermingargjöf ársins 2024. Fast á hæla þeirra koma svo iPhone snjallsímar og þriðja sætinu deila sjónvarpstæki og góð heyrnartól. Þegar svör fólks eru greind um hvað væri efst á óskalista þess ef það væri að fermast í dag nefna flestir, eða um 37%, raftæki. Fjórðungur nefnir utanlandsferðir og litlu færri peningagjafir.
„Okkur finnst afskaplega gaman að kanna á ári hverju hug fólks til bæði ferminga og fermingargjafa og völdum að hafa spurninguna um eftirminnilegustu fermingargjöfina mjög opna í ár. Það var virkilega gaman og áhugavert að fara yfir niðurstöðurnar og fróðlegt að sjá tækniþróunina sem hefur átt sér stað í hinum gömlu klassísku fermingargjöfum,“ segir Arinbjörn Hauksson, forstöðumaður markaðssviðs ELKO.
Arinbjörn segir að þó greina megi ákveðna tækniþróun í fermingargjöfum þá hafi áhugasvið fermingarbarna talsverð áhrif á stærri fermingargjafirnar frá nánustu fjölskyldu. Nú velji margir fartölvur og leikjatölvur í stað borðtölva áður og margir horfi til heilsuúra í stað hefðbundinna armbandsúra. Þá hafi hljómflutningsgræjur þróast yfir í ferðahátalara og heyrnartól og má segja að góð heyrnartól hafi þar vinninginn. „Svo verða snjallsímar stöðugt vinsælli til gjafa ásamt sjónvörpum. Myndavélar hafa einnig lengi notið vinsælda og sjáum við í dag ákveðna endurkomu í filmumyndavélum sem sýnir að við erum mögulega komin í einhverskonar hring í þeim efnum. Skyndimyndavélar og Polaroid-myndavélar hafa til dæmis verið vinsæl viðbót í hinum ýmsu veislum, hvort sem um er að ræða fermingar eða brúðkaup.“
Könnun ELKO leiðir í ljós að heitir brauðréttir er klassík sem flestir stóla á í veislum. En þar á eftir koma pinnamatur og brauðtertur. Í opinni spurningu um hvað annað fólk langaði í voru flatkökur með hangikjöti oftast nefndar, ásamt súpu og brauði.
Tæpur helmingur telur að of mikið sé lagt í fermingarveislur nú um stundir og telja 88,5 prósent svarenda ekki þörf á nammibar og þrír fjórðu töldu hvorki þörf á svokölluðum myndakassa eða sérmerktum servíettum í fermingarveisluna.
Stóra spurningin sem brennur á mörgum er varðandi hvaða upphæðir fólk miðar við til fermingargjafa, nefndu 38,8% 11–15 þúsund krónur og 36,7% 7-10 þúsund krónur. 14,8% sögðust miða við 16-20 þúsund og 6,2% sögðust halda sig undir sex þúsund krónum. Aðrir völdu hærri upphæðir, en gera má ráð fyrir því að upphæðin tengist þá fjölskyldutengslum, án þess þó að það hafi verið rannsakað sérstaklega.
Árleg fermingarkönnun ELKO fór fram dagana 6. til 17. mars sl. og byggja niðurstöður hennar á um 2.500 svörum við margvíslegum spurningum um fermingar og veisluhöld þeim tengd. Af þeim sem þátt tóku höfðu 95,7% fermst, 93,8% í kirkju og 1,9% borgaralega. Þátttakendur voru á breiðu aldursbili og þátttaka nokkuð jöfn meðal fólks á fullorðinsaldri. Stærsti hópurinn var 36-50 ára, eða 36% og 27,5% á aldrinum 51-64 ára. Tæpur fimmtungur var á bilinu 18-45 ára og 14,2% yfir 61 ári, en yngri en 18 ára bara 3,1% þátttakenda.