Frambjóðandinn Ásdís Rán Gunnarsdóttir segir í samtali við DV að hana gruni að fólk hafi óvart stofnað meðmælalista þegar það ætlaði að skrifa undir meðmæli fyrir hana. Fyrst taldi hún hlekkinn á meðmælasíðu hennar hafa verið rangan í frétt DV um framboð Ásdísar, en þegar betur var gáð var hlekkurinn réttur en einhverjum aðilum hefur tekist að fara á ranga síðu.
Ásdís Rán hefur fengið skilaboð frá nokkrum sem lentu í þessu, tveir aðilar áttuðu sig á þessu og höfðu samband við Þjóðskrá til að láta taka út sinn meðmælalista.
„Mér fannst þetta nú frekar fyndið. Ég hló alveg upphátt þegar ég sá þetta en það var mörgum brugðið yfir því hvað voru komnir margir frambjóðendur allt í einu. Með alls konar atvinnutitla eins og er hægt að sjá á Wikipedia.
Ég er nokkuð viss um að helmingurinn af þessu fólki hafi engan grun um að það sé í framboði núna. Það er kannski ágætt að leiðrétta þennan misskilning, það eru ekki svona margir í framboði. Fólk getur bara stjórnað því hvort það vilji halda áfram að vera í framboði eða taka nafnið sitt út af listanum,“ segir hún.
„Það voru tveir sem höfðu samband við mig í gær sem höfðu samband við Þjóðskrá í gær til að láta eyða út meðmælalistanum.“
Uppfært:
DV ræddi við Öldu Coco sem sagði að hún hafi óvart skráð sig í forsetaframboð og að það væri búið að hlæja mikið af þessu heima hjá henni.