Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, KHF, var haldin í tíunda sinn um helgina 16. og 17. Mars. Hátíðin var eins og endranær í Bíó Paradís og fór aðsóknin framar vonum, enda öflugt ungt kvikmyndagerðafólk með stuttmyndir sínar á hátíðinni, vongóð um að hreppa verðlaun fyrir sína mynd. Öll umsjón og vinna við hátíðina er í höndum nemenda Fjölbrautaskólans við Ármúla undir leiðsögn kennara, eins og segir í fréttatilkynningu.
Eitt af aðalmarkmiðum hátíðarinnar er að gera nemendum í framhaldsskólum landsins kleift að koma kvikmyndaverkum sínum á framfæri og kynnast öðrum með sömu áhugamál.
Tækifærin sem skapast upp úr hátíðinni eru ófá og því vonumst við til þess að gera hátíðina sýnilegri og skapa henni jafnframt fastan sess í félagslífi íslenskra ungmenna.
Eftirfarandi hlutu verðlaun á hátíðinni í ár:
Besta stuttmyndin – Guðni eftir Óliver Tuma Auðunsson
Besta handrit – Guðni eftir Óliver Tuma Auðunsson
Besti leikur – Salka Björnsdóttir fyrir Kjallarinn
Besta myndataka – Jun Gunnar Lee Egilsson og Reynir Snær Skarphéðinsson fyrir Að elta kanínu
Besta tæknilega útfærslan – Jun Gunnar Lee Egilsson fyrir Að elta kanínu
Hildarverðlaunin fyrir bestu tónlist – Árni Björn Þórisson fyrir Að elta kanínu
Áhorfendaverðlaun fyrir laugardaginn 16. Mars – Hamskipti eftir Patrek Thor
Áhorfendaverðlaunin fyrir sunnudaginn 17. Mars Fína lífið eftir Axel Sturlu Grétarsson og Hauk Má Birgisson
Verðlaunin fyrir bestu myndina eru ekki af verri endanum, en þau eru sumarnámskeið (e. scholarship) hjá New York Film Academy ásamt sérstökum ráðgjafaverðlaunum frá Kvikmyndaskóla Íslands og Ice Docs kvikmyndahátíðinni.
Meðal verðlauna í öðrum flokkum má nefna græjuúttekt frá Kukl fyrir 100.000 kr. fyrir bestu myndatökuna og tíma í hljóðupptöku og ráðgjöf hjá Upptekið stúdíó fyrir bestu tónlistina.
Dómnefndin var skipuð einvala liði úr íslenskum kvikmyndaiðnaði; Atli Óskar Fjalarsson leikari og kvikmyndagerðarmaður, Telma Huld Jóhannesdóttir leikkona og kvikmyndagerðarkona og Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri.
Fastur liður á hátíðinni er svo heiðursgestirnir og að þessu sinni voru heiðraðir leikstjórarnir Ásdís Thoroddsen og Dagur Kári Pétursson.
Ýmislegt annað er á hátíðinni eins og skemmtiatriði, kynningar á kvikmyndaskólum hér og erlendis ásamt öðru efni tengt kvikmyndagerð.
Þetta árið var líka boðið upp á sérstakan dagskrárlið þar sem framhaldsskólanemar frá Færeyjum og Grænlandi heimsóttu hátíðina og sýndu myndir sínar en í maí næstkomandi verður haldin kvikmyndahátíð framhaldsskóla í Nuuk í Grænlandi í fyrsta skipti.