fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

„Þetta snýst miklu meira um það að gera hlutina rétt.“

Fókus
Mánudaginn 18. mars 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Finnur Ricart Andrason, viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins er þekktur sem einn af sterku röddum ungu kynslóðarinnar sem hafa tekið afgerandi stöðu með náttúru- og loftslagsvernd síðustu árin. Þó Finnur sé aðeins ríflega tvítugur hefur hann nú þegar látið til sín taka á vettvangi umhverfis- og loftslagsmála hérlendis og erlendis. Hann er forseti Ungra Umhverfissinna og hefur, ásamt félögum sínum þar, hrist talsvert upp í íslenskri pólitík með því að vera stöðugt með loftslagsgleraugun uppi og veita stjórnvöldum virkt aðhald. Í þættinum ræða þeir Mummi meðal annars hvað kveikti áhuga Finns á umhverfismálum og af hverju hann vill leggja allt sitt í að berjast fyrir bættum heimi.

Við gerum ekkert af því bara

Finnur fór hraðar í gegnum skólakerfið heldur en gengur og gerist hér á landi. Hann gekk í alþjóðlega skóla í Belgíu og Sviss en þaðan var stefnan svo tekin á Holland þar sem hann nam hnattræn sjálfbærni vísindi, sem er fag sem á margt skylt við umhverfisfræði.

Hann er í dag í hálfu starfi hjá Umhverfisstofnun og hálfu hjá Ungum umhverfissinnum. Hann segir að ef fólki þyki samtökin hans vera með læti eða vesen þá sé ávallt góð ástæða fyrir því.

„Allt sem við gerum er að þjóna einhverjum tilgangi og ef fólki finnst við vera með eitthvað vesen þá er það af einhverri ástæðu. Við gerum ekkert af því bara.“

Samtökin gera í því að vera lausnarmiðuð og finnist fólki þau ganga langt til að vekja athygli á málstaðnum þá er slíkt með vilja gert. Ekki megi gleyma því að það ríkir neyðarástand í loftlagsmálum, þó svo ekki sé fjallað daglega um það í fjölmiðlum.

Finnur segir að vissulega sé hans kynslóð almennt meðvitaðri um umhverfið heldur en eldri kynslóðir, en það leysi ekki þá sem eldri eru undan ábyrgð. Ekki sé hægt að bera því við að unga fólkið reddi málunum, en taka ekkert til í sínum eigin neysluvenjum.

Ekki hægt að varpa ábyrgðinni á einstaklinga

Finnur segir þó mikilvægt í umræðunni um umhverfismál að ekki sé allri ábyrgð varpað á fólkið, einstaklinginn.

„Við sem einstaklingar höfum bara ákveðið mikinn tíma í okkar sólarhring til að afla okkur upplýsinga um hvaða vörur eru raunverulega umhverfisvænar eða ekki. Og svo eru umhverfisvænar vörur stundum dýrari heldur en hefðbundnar vörur. Við höfum mjög þröngan ramma til að láta gott af okkur leiða sem einstaklingar. Það er þess vegna sem að stjórnvaldið er til – það er eitthvað batterí sem við sem einstaklingar veitum umboð til að taka ákvarðanir fyrir okkur í þágu okkar velferðar, heilsu og svo framvegis. Svo þeirra ábyrgð, stjórnvalda er miklu, miklu meiri en einstaklingsábyrgðin því þau bókstaflega vinna við það að taka ákvarðanir sem eiga að vera góðar fyrir samfélagið.“

Þó Finnur beri það með sér að búa yfir miklu jafnaðargeði þá tekur hann fram að það sé sumt sem hreinlega geri hann öskuvondan.

„Það sem gerir mig reiðan er t.d. það að stjórnvöld eru stundum að forgangsraða einkahagsmunum ákveðinna hópa umfram hagsmuni heildarinnar. Það er að segja ákvarðanir eru ekki teknar í þágu almennings sem heildar, eða samfélagsins í heild, heldur í þágu ákveðinna hagsmunahópa og það er slæmt, af því að það er ekki hlutverk stjórnvalda.“

Finnur sér ekki ástæðu til að leyna því að honum verði stundum misboðið þegar tilteknar ákvarðanir eru teknar sem þjóna ekki hagsmunum almennings, kynslóðum framtíðarinnar eða framtíð unga fólksins okkar.

„Þetta er bara eitthvað sem ég skil ekki hvers vegna það er leyfilegt að taka ákvarðanir sem skerða lífsgæði ungs fólks í framtíðinni eða framtíðar kynslóða. Það er eitthvað sem gerir mig virkilega reiðan.“

Fólk mun þjást og deyja

Finnur segir að samtökunum þyki gaman að fá hrós fyrir það sem þau gera, sérstaklega þegar það kemur frá eldri kynslóðunum. Hins vegar sé það sárt þegar hrósinu fylgir yfirlýsing um að unga fólkið sé að vaxa úr grasi til að bjarga mannkyninu frá sjálfu sér, og því þurfi eldra fólkið ekkert að gera.

Það sama eigi við um valdhafa, sem heyra flestir til eldri kynslóða. Valdhafar þurfi að opna augun og átta sig á því að jafnvel þó mannkynið muni að líkindum lifa loftlagsvandann af, þá aukist fórnarkostnaðurinn með hverjum degi þar sem ekki er gripið til róttækra aðgerða.

Þessi fórnarkostnaður er þegar farinn að koma fram og verður meiri. Þó að mannkynið muni koma sér í gegnum loftlagsvandann þá mun því fylgja þjáning.

„Fólk mun þjást, fólk mun deyja og það er hafið,“ segir Finnur sem segir að líklega falli heilu samfélögin, borgir og lönd í valinn.

Hann lítur því á baráttu sína sem skaðaminnkandi aðgerð. Því skaðinn er skeður. Nú standi spurningin eftir hversu mikinn skaða valdhafar heimsins muni sætta sig við.

Ekki það sem við gerum vitlaust, heldur rétt

Ljóst sé að mannkyninu muni fjölga næstu áratugina og það séu allar forsendur fyrir því að jörðin standi undir þessari fjölgun svo lengi sem að fólk breytir neyslumynstri sínu.

„Hvernig við framleiðum matinn okkar, hvernig við framleiðum og nýtum aðra hluti – föt og annað. Hvernig við byggjum hús og hvernig við höldum utan um samfélagið, þetta mun allt þarfnast mikilla breytinga“

Með breyttum neysluvenjum ráði jörðin við fólksfjölgun. En með óbreyttum neysluvenjum eins og þær eru á Vesturlöndum þá sé staðan önnur. Finnur kýs þó sjálfur að horfa á glasið hálf fullt, að horfa til þess að fólki geti fjölgað ef það breytir því hvernig það gengur um umhverfið. Þetta snúist nefnilega ekki um allt sem við erum að gera vitlaust.

„Þetta snýst miklu meira um það að gera hlutina rétt.“

Hlusta má á viðtalið við Finn og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone