Athafnakonan og glamúrfyrirsætan Ásdís Rán Gunnarsdóttir er alvarlega að íhuga að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands samkvæmt heimildum DV.
Það myndi eflaust hrista vel upp í kosningunum enda er Ásdís Rán ólík öðrum frambjóðendum. Hún myndi hugsanlega sækja fylgi sitt til yngri kynslóðarinnar og ýmissa hópa sem væru til að sjá Ísdrottninguna á Bessastöðum.
Ásdís Rán er vel þekkt, bæði hér á landi og erlendis, og hefur getið sér gott orð sem fyrirsæta, athafnakona og frumkvöðull.
Henni er margt til lista lagt. Hún hefur verið þyrluflugmaður í rúmlega áratug, skrifað bók, rekið fjölda fyrirtækja og er veraldavön.
Það verður spennandi að fylgjast með ef hún býður sig fram, hún yrði hiklaust glæsilegur fulltrúi á Bessastöðum.
Í samtali við DV vildi Ásdís Rán ekki staðfesta neitt en sagðist liggja undir glæsilegum og rándýrum feld.
Ásdís Rán sló á létta strengi í byrjun árs um að hún væri að horfa til Bessastaða og myndi vilja tvo rottweiler hunda þangað. En er ekki gjarnan sagt að öllu gríni fylgi alvara?
Sjá einnig: Ísdrottningin horfir til Bessastaða og er með sýn fyrir embættið – Þetta myndi hún gera sem forseti