Íslandsvinkonan og leikkonan Gal Gadot eignaðist fjórðu dóttur sína í gær.
„Fallega stelpan mín, velkomin,“ skrifaði hún á Instagram við mynd af sér þar sem hún heldur á nýfæddri dótturinni. „Meðgangan var ekki auðveld og við komumst í gegnum hana.“
View this post on Instagram
Gadot og eiginmaður hennar, Jaron Varsano, giftu sig árið 2008 og áttu fyrir þrjár dætur, tveggja, sex og tólf ára. Gadot hélt meðgöngunni leyndri, en hún segir að nýfædda dóttirin hafi fært þeim mikið ljós og standi hún því vel undir nafninu sem henni hefur verið gefið, Ori, sem þýðir ljós á hebresku.
„Hjörtu okkar eru full af þakklæti. Velkomin í hús stelpnanna, pabbi er líka frekar svalur.“
Ísraelska leikkonan kom hingað til lands í apríl 2023 við tökur á stórmynd Netflix, Heart of Stone, sem á þeim tíma var stærsta erlenda kvikmyndaverkefnið í Reykjavík.
Sjá einnig: Harpa springur í stórmynd Netflix – Sjáðu stikluna!
Gadot er þó þekktust fyrir hlutverk sitt sem Ofurkonan (e. Wonder Woman) í ofurhetjuheimi DC, en hún hefur leikið hlutverkið í sex kvikmyndum frá 2016 til 2023. Þriðja kvikmyndin með Wonder Woman í aðalhlutverki er í bígerð.