Óttarr Proppé er viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins en hann þarf vart að kynna enda vel munstraður inn í þjóðarsálina. Óttarr er einn af okkar betri listamönnum og hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi um árabil. Meðlimur í hljómsveitum á borð vð Dr. Spock og HAM og hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi síðustu áratugina. Svo má ekki gleyma pólitísku hliðarspori hans þar sem hann slysaðist inn í borgarstjórn og þaðan inn á þing þar sem hann endaði sem formaður Bjartar Framtíðar og hafði stutta viðkomu í heilbrigðisráðuneytinu. Hér er á ferðinni litríkur intróvert sem veit ekki enn hvað hann vill verða þegar hann verður stór en er tilbúinn að stökkva á tækifærin þegar þau banka upp á, þó svo þar með fari hann hressilega út fyrir þægindahringinn sinn.
Óttarr lýsir því hvernig hann ólst upp með annan fótinn í Bandaríkjunum og hinn í Hafnarfirði. Hann segir sjálfur að hann hafi sennilega verið leiðinlegt barn. Meðal annars leyst honum illa á tungumálaþröskuldinn þegar hann var kominn til Bandaríkjanna og frekar en að byrja að tala eitthvað á tungumáli sem var honum ekki eðlislægt þagði hann mánuðum saman þar til hann kunni að tala sér til gangs. Honum leiddist að vera barn og gat hreinlega ekki beðið þess að verða fullorðinn.
„Þetta þögla barn sem brosti aldrei. Að mér er sagt. Ég þagnaði bara og sagði ekki neitt í einhverja mánuði og svo bara einn daginn þá byrjaði ég að tala ensku.“
Þegar hann flutti svo til Íslands á níunda áratug síðustu aldar var það smá menningarsjokk að koma frá brjálaðri amerískri menningu yfir í rólega Ísland sem var rétt að lifna við. Litasjónvarpið var nýmæli og það tók langan tíma fyrir tónlist að koma til landsins. Svo gróf var biðin að margir krakkar höfðu gerst aðdáendur stórsveita bara út frá myndum og viðtölum í tímaritum, án þess að hafa heyrt eitt einasta lag.
Það hjálpaði Óttarri ekki meðal jafnaldra að hann var ári á undan í skóla, sökum þess að hafa óvart verið læs þegar hann flutti til Bandaríkjanna, en þar að auki er hann fæddur í nóvember svo hann var nánast tveimur árum yngri en bekkjarfélagarnir sem þýddi að hann var gjarnan minnstur, en slíkt gaf ekki tilefni til stórverka í íþróttum.
Óttarr er líklega þekktastur fyrir afrek sín á sviði tónlistar en sjálfur segist hann hafa slysast í hljómsveitir þrátt fyrir að hafa ekkert verið sérstaklega góður hljóðfæraleikari, staðreynd sem hafi svo ekki breyst í gegnum árin. Þá séu það gjarnan örlögin að enda sem söngvari. Honum þótti skólagangan ekkert spennandi og leit á hana sem hálfgerða afplánun þar sem hann hreinlega beið þess að fá færi á að gera eitthvað sem hann virkilega hafði áhuga á. Hann er nörd með áhuga á mörgu en hefur ekki enn fundið þá námsgrein sem hann brennur nægilega fyrir til að ganga menntaveginn. Hann er í raun enn að bíða þess að vita hvað hann vill verða þegar hann verður stór.
Hann vissi snemma tvennt – hann vildi vinna við bóksölu og hann vildi vera í hljómsveit. Vor eitt sá hann auglýsingu í DV um að það vantaði starfsmann í erlendu deildina í Eymundsson á Austurstræti. Hann fékk þá vinnu og fann sig þá í þeirri stöðu að þrátt fyrir að vera táningur hafði hann náð báðum markmiðunum í lífinu. Eðlilega sá hann lítinn tilgang í frekari afplánun í menntaskóla svo hann náðaði sjálfan sig.
Samstarf hans og Sigurjóns Kjartansson hófst eins fyrir hálfgerða slysni. Þeir kynntust í gegnum tónlistarsenuna, þar sem allir þekktu alla. Þannig sameinuðu þeir klíku sem kom annars vegar úr pönkbænum Kópavogi og hins vegar suðupottinum í Hafnarfirði.
„Við ákváðum snemma að vera listbræður og ætluðum að gera hryllingsmynd saman. Við byrjuðum á því að skrifa handritið á „Álversmenguðu djöflunum“ sem var strax þýtt á ensku sem The Contaminated Devils.“
Myndin fjallaði um vonda sígauna sem bjuggu í bílakirkjugarði beint á móti álverinu í Hafnarfirði. Myndin var í svokölluðum B-myndastíl og hófust þeir strax handa við að taka myndina upp á súper 8 filmu. Þeir ráku sig þó á að vinir og kunningjar sem áttu að leika í myndinni voru ekkert sérstaklega stundvísir svo upptökur sóttust hægt.
„Þegar það gekk illa að fá þessa vini og kunningja okkar til að mæta í tökur á laugardagsmorgnum fórum við að eyða meira púðri í að semja tónlist við myndina og við erum í raun enn staddir þar.“
Svo í raun má rekja tilvist hljómsveitarinnar HAM til ákveðinnar vangetu þeirra Óttarrs og Sigurjóns til að gera kvikmynd í fullri lengd. Handritið eiga þeir þó enn til sem og um 8 mínútur af upptökum þar sem meðal annars má sjá Jón Gnarr í hlutverk bresks lávarðs sem villist í bílakirkjugarði.
Meðlimir HAM höfðu miklar áhyggjur af því að svíkja lit jaðarmenningarinnar með því að sækja frægðina of hart. Kvikmyndin Sódóma Reykjavík varð þó til þess að allir sem keyptu pylsur á Íslandi vissu um HAM, en þegar þar var komið hafði hljómsveitin verið starfrækt í um fimm ár, og átti að baki misheppnaða útrásar tilraun í Bandaríkjunum. Þeir ákváðu því að hætta á toppnum.
Þeir enduðu þó með að koma aftur saman þegar þýska sveitin Rammstein kom til landsins og hafa ekki lagt í að hætta aftur, enda frekar heillandi að fara úr því að spila fyrir um 80 manns yfir í að spila fyrir fulla Laugardalshöll, eða eins og Óttarr segir – fara frá því að hætta út af skuldum og aumingjaskap í að standa á sviði í Laugardalshöll.
Það var svo eftir hrunið sem Jón Gnarr hringdi í Óttarr og bauð honum að koma á lista hjá Besta flokknum sem átti að vera eins konar brandari eftir hálf litríkt kjörtímabil í Reykjavík þar sem meirihlutinn hreinlega gat ekki hætt að springa og borgarstjórar voru margir. Þessi brandari fékk þó yfirbragð alvöru þegar skoðanakannanir sýndu hreinan meirihluta Besta flokksins og ákváðu þeir því að standa sig í stykkinu. Þannig slysaðist Óttarr í raun inn í borgarstjórn og þaðan lá leiðin á þing með Bjartri Framtíð, en þangað slysaðist Óttar í raun líka. Honum var boðið á lista og óskaði eftir því að vera ekki settur hátt. Fór þó svo að hann hafnaði í öðru sæti á framboðslista og var kosinn á þing.
Óttarr segist stoltur af mörgu á stjórnmálaferlinum. Þá einkum á Alþingi þar sem Björt Framtíð tók þátt í að koma nokkrum mikilvægum málum af stað, svo sem byggingu á nýjum Landspítala sem og stuðning við Borgarlínu. Hann fékk þó algjörlega upp í kok af sýndarmennskunni. Það sé óskrifuð regla á þingi að þurfa alltaf að vera ósammála þeim sem er ekki með þér í liði, alveg sama þótt fólk sé í raun sammála. Hann hafi í raun fengið alveg upp í kok og sé ekki enn búinn að losna við þetta úr kokinu.
„Ég var algjörlega búinn að missa þolinmæðin á þessu endalausa þvargi og alveg hættur að hafa húmor fyrir því þegar menn voru að takast á í pólitíkinni með gífuryrðum og að maður upplifði stundum að tala gegn eigin sannfæringu eða betri vitund- því þú átt bara að vera á móti þar sem þú ert að reyna að líta út fyrir að eiga heiðurinn að einhverju.“
Hann líkir í raun stjórnmálum við hljómsveit. Þetta byggi allt á samstarfi og enginn geti stigið á svið og spilað lag án þess að öll sveitin sé í samhljómi. Á sama tíma séu allir hljómsveitarmeðlimir að reyna að stíga fram fyrir aðra til að sýna sig. Eins hugnaðist honum lítið að þurfa að selja sjálfan sig, enda intróvert og í raun feiminn þó svo að fæstir átti sig á því þar sem hann hefur ítrekað boðið þessu persónueinkenni sínu birginn.
Óttarr er í dag sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneyti þar sem hann er að sinna starfi sem honum þykir afar mikilvægt, með áherslu á málefni barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og börn á flótta. Dr. Spock og HAM lifa enn góðu lífi og HAM eru nú að semja nýja plötu og standa vonir til þess að það muni taka minna en sjö ár. Það gangi þó allt hægar nú þegar meðlimir eru fullorðnir og vinnandi, sem og með fjölskyldur. Eins séu þeir löngu hættir að eltast við að slá í gegn. Eftir stendur að Óttarr er stoltur af því sem hann hefur gert, og komið víða við þó hann sé ekki enn búinn að finna hvað hann vill verða þegar hann verður stór. Hann er eftir sem áður tilbúinn að fylgja flæðinu, og hver veit hvenær hann fær næsta símtal sem breytir stefnunni algjörlega.
Hlusta má á viðtalið við Óttarr og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.
Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.