Þannig er mál með vexti að með í för var þriggja ára sonur Mary sem var svangur og pirraður þar sem hann sat í innkaupakerrunni. Mary var með smávegis nesti meðferðis sem sonur hennar, Jack, vildi ekki sjá.
Hann benti hins vegar á jógúrt sem hann sá í kælinum og ákvað Mary að ná í tvær slíkar dósir og gefa honum og láta starfsmanninn svo skanna tómar umbúðirnar á kassanum. Bjóst hún við því að þetta væri ekkert mál og enginn myndi gera athugasemd við þetta.
En annað kom á daginn og segir Mary að kassastarfsmaðurinn hafi brugðist ókvæða við þegar hún kom á kassann. Hún segir að starfsmaðurinn hafi gefið henni illt auga þegar hún sagði að sonur hennar væri búinn að fá sér úr dósunum.
Segir Mary að starfsmaðurinn hafi tekið dósirnar og fleygt þeim í ruslið þó enn væri jógúrt í þeim.
„Ég sagði við hana: „Fyrirgefðu, en hann var ekki búinn með þær. Ég vildi bara rétta þér þær svo þú gætir skannað þær.“ Segir hún að starfsmaðurinn hafi teygt sig í ruslið og náð í dósirnar.
Mary segist hafa verið kurteis, beðið starfsmanninn afsökunar á misskilningnum en það hafi ekki verið nóg fyrir hann.
„Hún [starfsmaðurinn] lýsti því að henni fyndist ekki rétt af fólki að leyfa börnunum sínum að borða mat í versluninni sem ekki er búið að greiða fyrir.“
Mary segist ekki hafa verið sátt við þessi orð starfsmannsins og látið hann vita af því. „Ég sagði við hana að það væri sennilega ekki hennar starf að lýsa skoðun sinni á því sem ég geri.“
Myndband Mary vakti gríðarlega athygli á TikTok og er komið með rúmlega milljón áhorf. Í athugasemdum undir myndbandinu virðist fólk þó skiptast í fylkingar.
„Ég starfa sjálf á kassa og get alveg viðurkennt að ég þoli ekki þegar mér eru réttar klístrugar umbúðir af mat sem búið er að borða,“ sagði einn.
„Það er 100% hlutverk starfsmannsins að hann láti vita að þú mátt EKKI borða eða drekka eitthvað sem ekki er búið að borga fyrir,“ sagði annar.
Aðrir komu Mary til varnar og sögðust sjálfir gera þetta ítrekað ef börnin sýna pirring vegna svengdar úti í búð.