Í bréfi sínu sagði konan:
„Skilaboð á síma kærastans staðfesta að hann stundaði kynlíf með samstarfskonu sem hann segist ekki einu sinni líka vel við.
Ég vissi að eitthvað væri að þegar hann kom heim úr starfsmannafögnuði kvöld eitt. Hann sagði að síminn sinn væri rafmagnslaus en samt vildi hann ekki að ég setti hann í hleðslu.
Þegar hann var sofnaður stakk ég símanum í hleðslu og fann þá ógeðsleg skilaboð á milli hans og samstarfskonu hans. Skilaboðin staðfestu að þau höfðu stundað kynlíf heima hjá henni. Hann staldraði ekki lengi við hjá henni heldur virðist hafa farið heim strax eftir þetta.
Ég spurði hann út í þetta og hann viðurkenndi þetta strax fyrir mér. Hann er búinn að biðja mig afsökunar, hefur grátbeðið mig um fyrirgefningu og segist lofa að þetta gerist aldrei aftur.
Þrátt fyrir það líður mér illa og er hálf óglatt. Við erum búin að vera saman í tvö ár. Ég er 26 ára en hann er 29 ára. Sambandið hefur gengið vel en að undanförnu hefur það verið á þeim stað að við virðumst taka hvort öðru sem sjálfsögðum hlut.
Ég hef hugsað mér að fara frá honum og flytja heim til foreldra minna en ákvað að gera það ekki. Sjálfstraustið mitt er í molum eftir þetta. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki verið nógu góð fyrir hann. Ég elska hann samt og trúði því að við myndum ganga í hjónaband einn daginn. Hann segist vilja vera áfram með mér og viðurkennir að hafa gert mistök. Ég veit bara ekki hvernig ég kemst yfir þetta. Getum við byggt upp þetta traust aftur eða er ég kjáni að bíða bara eftir því að mistökin endurtaki sig síðar?“
Ráðgjafi The Sun, sem fær reglulega bréf um vandamál í samböndum, svarar hugleiðingum konunnar svona.
„Þú ert svo sannarlega nógu góður maki. Fólk heldur fram hjá, jafnvel mökum sem það elskar mjög heitt og innilega og ástæðurnar eru margvíslegar. Eftir svona uppgötvun er ekkert skrýtið að trú þín á kærasta þinn hafi beðið hnekki. Ekki skammast þín. Vinir þínir og fjölskylda munu standa með þér svo talaðu við þau. Þú þarft að vera alveg viss um að þetta gerist ekki aftur. Talaðu við hann og útskýrðu fyrir honum hvers þú ætlast af honum í sambandinu. Biddu hann um að vera hreinskilinn við þig því þú þarft að vita af hverju hann hélt fram hjá þér. Hann þarf að vera tilbúinn að leggja á sig mikla vinnu til að sannfæra þig um að hann sé sá rétti. Útskýrðu fyrir honum að þú eigir erfitt með að treysta honum og þetta hafi grafið undan sambandinu á alvarlegan hátt.“