fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Fókus

Bókaspjall: Fyrsti skammturinn úr jólabókaflóðinu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 5. nóvember 2023 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar bókmenntaspekingar taka sig til og fjalla um nokkrar bækur í einu er það oftast til að sýna þræði og líkindi milli þeirra. En bækurnar sem ég myndaði hér á borðstofuborðinu heima, af vanefnum hvað varðar tækjabúnað og færni, eiga það umfram allt sameiginlegt að þetta eru einfaldlega þær bækur jólabókaflóðsins sem ég lesið nú þegar. Þær eru býsna ólíkar og eiga þó vissulega sameiginlega snertifleti.

Bókaútgáfa er afar viðamikil og fjölbreytt hér á landi þó að bóksala hafa dregist saman á seinni árum. Bækur koma út allan ársins hring en á haustin er þunginn í útgáfunni svo mikill að jólabókaflóðið stendur undir nafni sem aldrei fyrr.

Fyrsta „jólabókin“ sem ég las þetta haustið var skáldsagan Kletturinn eftir hinn geðþekka höfund Sverri Norland. Mikið hefur verið fjallað um verkið í fjölmiðlum en hér er á ferðinni saga sem mér finnst í senn hugljúf og harmþrungin. Hugljúf vegna þeirrar hlýju og nærgætni sem einkennir persónulýsingar höfundar og harmþungin vegna samviskubitsins og leyndarmálsins sem aðalpersónan burðast með.

Sagan er auk þess stútfull af áhugaverðum siðferðislegum pælingum og er stúdía á vináttusambönd karlmanna í nútímanum. Ennfremur er hér birt áhugaverð sýn á ungan nútímakarlmann sem er atvinnulaus húsfaðir, giftur framakonu, og þær sálarflækjur sem fylgja því hlutskipti.

Stórar sögur í stuttu máli

Næst las ég Herörina, glimrandi fínt smásagnasafn eftir einn fremsta höfund þjóðarinnar, Ólaf Gunnarsson. Ólafur sagði í viðtali við DV um það leyti sem bókin kom út að hann verði að láta persónur sínar lenda í einhverju dramatísku svo hann nenni að skrifa um þær. Ólafur er þekktur fyrir viðburðaríkar harmsögur þar sem breyskar persónur taka örlagaríkar ákvarðanir sem hafa skelfilegar afleiðingar.

Flestar bækur Ólafs eru þykkar skáldsögur en nýjasta bókin hans er stutt smásagnasafn. Þó að sögurnar séu stuttar vantar ekkert upp á dramað og Ólafur er svo sannarlega slyngur við að koma miklum örlögum og sterkum tilfinningum til skila í stuttu máli.

Slaufaðir menn

Bækurnar Skuggar eftir Sölva Tryggvason og Högni eftir Auði Jónsdóttur eru eins ólík verk og hugsast getur en þó er fyrirferðarmikið hugtak sem tengir þær saman, slaufun.

Þrjár konur kærðu Sölva fyrir ofbeldi en rannsókn allra málanna var felld niður. Orðrómur um meint ofbeldi Sölva hlóðst upp í netstorm vorið 2021 sem leiddi til þess að hann sá sig knúinn til að flýja land. Það flækti síðan umræðuna um mál hans að hann var fyrir misskilning ranglega sakaður um glæp sem annar maður framdi. Þó að umræður um meinta sekt eða sakleysi Sölva fari nú fremur lágt þá eru þær enn mjög polaríseraðar, sumir telja hann vera þolanda falskra ásakana á meðan aðrir líta á hann sem ofbeldismann sem hafi ekki gengist við misgjörðum sínum.

Sem nærri má um geta vísar Sölvi þessum ásökunum á bug í bók sinni en það er engin ástæða til að taka afstöðu til þeirra til að geta notið lestursins. Friðþægingin er ekki fyrirferðarmikil og uppgjörið er laust við heift og biturð. Textinn er læsilegur og veitir áhugaverða innsýn í hugarástand hins slaufaða. Sölvi fjallar á hreinskilnislegan hátt um hömluleysi sitt og stjórnleysi í lífi sínu sem átti sinn þátt í þessum atburðum. Einnig er að finna í bókinni áhugaverða kafla um sjálfsvinnu og geðrækt.

Högni er býsna margslungið og djúpt skáldverk, eins og vænta má af hendi Auðar Jónsdóttur. Sagan lýsir ekki slaufun í dæmigerðum Metoo-anda en kveikjan að þeirri fordæmingu sem aðalpersónan verður fyrir er afar óheppilegt myndskeið sem fer á flug er sýnir árekstur hans við börn í strætisvagni.

Höfundur leggur ekki dóm á framferði persónunnar en þó þykir mér oft skína í gegn gagnrýni á þá múgæsingu sem stundum verður vart við á samfélagsmiðlum þegar einhver samborgari þykir hafa farið yfir strikið, og margir leggja þá óvandað til málanna án þess að þekkja til þeirra. Ljóst er þó að Högni stríðir við samskiptavanhæfni sem veldur árekstrum við samborgaranna. En hver segir að það sé sanngjarnt að fólki sé slaufað fyrir að vera klaufalegt í mannlegum samskiptum?

Í síðari hluta bókarinnar er lýst æskuárum Högna og sá hluti verksins varpar skýrara ljósi á persónuna um leið og veitt er innsýn í „slaufunarmenningu“ fortíðarinnar, nánar tiltekið á níunda áratug síðustu aldar, þegar alnæmisógnin reið yfir samfélagið.

Sigmundur fer á kostum

Frásögn Sigmundar Ernis Rúnarssonar fjölmiðlamanns af litríkum ferli sínum flæðir býsna vel. Bókin heitir Í stríði og friði fréttamennskunnar. Höfundur fer fram og aftur í tíma á lipurlegan hátt, segir okkur bráðskemmtilegar sögur af uppákomum í fjölmiðlaheiminum og stjórnmálum. Það er frá mörgu að segja enda starfaði Sigmundur á ýmsum prentmiðlum á níunda áratugnum, var á Stöð 2 frá upphafi er ofurbjartsýnir frumherjar ýttu henni úr vör, átti eftirminnilegan feril á RÚV, var frumherji á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og loks ritstjóri Fréttablaðsins á lokahluta líftíma þess. Sem blaðamanni á vinsælum netmiðli – en netmiðlar eru helstu textafréttaveitur samtímans – þykir mér skemmtilegast að fá innsýn í líf og störf á prentmiðlum á níunda áratugnum, Vísi, DV, Helgarpóstinum og Tímanum. Sigmundur Ernir kann margar skemmilegar sögur frá þeim tíma sem og öðrum tímabilum á litríkum ferli sínum.

Sigmundur Ernir áritar bók sína í útgáfuhófi.

Næst á dagskrá eru spennusögur, Sæluríkið eftir Arnald Indriðason, Hvíta logn eftir Ragnar Jónasson og Borg hinna dauðu eftir Stefán Mána.

Einnig er ég spenntur fyrir tveimur smásagnasöfnum, Aksturslag innfæddra eftir Þórdísi Gísladóttur og Sara og Dagný og ég eftir Ísak Regal.

Hver veit nema ég klári þann litla bunka fyrir mánaðamótin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Framboð Viktors gilt
Fókus
Í gær

,,Þetta var komið gott eftir líflátshótanir”

,,Þetta var komið gott eftir líflátshótanir”
Fókus
Í gær

Helgi Seljan og pabbabrandarinn sem endaði á prenti

Helgi Seljan og pabbabrandarinn sem endaði á prenti
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Um tíma átti ég erfitt með að kaupa mér maskara því ég eyddi svo miklum pening í maníu“

„Um tíma átti ég erfitt með að kaupa mér maskara því ég eyddi svo miklum pening í maníu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Móeiður og Hörður héldu glæsilegt barnaafmæli í anda Kardashian-fjölskyldunnar

Móeiður og Hörður héldu glæsilegt barnaafmæli í anda Kardashian-fjölskyldunnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Elizabeth Hurley afhjúpar leyndarmálið að unglegu útliti

Elizabeth Hurley afhjúpar leyndarmálið að unglegu útliti
Fókus
Fyrir 3 dögum

Velta fyrir sér tekjum Gústa B eftir að hann pungaði út milljónum í sumargjöf

Velta fyrir sér tekjum Gústa B eftir að hann pungaði út milljónum í sumargjöf
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Maður fer all inn á brókinni fyrir vinkonu sína“

Vikan á Instagram – „Maður fer all inn á brókinni fyrir vinkonu sína“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Guðrún byrjaði með manni í fangelsi og varð ólétt eftir hann – „Ég vissi ekki fyrir hvað hann sat inni“

Guðrún byrjaði með manni í fangelsi og varð ólétt eftir hann – „Ég vissi ekki fyrir hvað hann sat inni“