fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Solla Stirða þakkar Íslandi fyrir að hafa sloppið við barnastjörnuvandamálin

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 4. nóvember 2023 11:00

Chloe er virkilega þakklát fyrir tímann sinn á Íslandi og heimsækir landið á hverju sumri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin bandaríska Chloe Lang, sem lék Sollu stirðu í barnaþáttunum um Latabæ, ber Íslandi góða söguna í nýju viðtali við breska blaðið Express. Lang er áhrifavaldur á samfélagsmiðlum í dag með milljónir fylgjenda.

Lang lék Sollu í þriðju og fjórðu seríu af Latabæ, sem sýndar voru árin 2013 og 2014. Sem barn lék hún í fleiri sjónvarpsþáttum og kvikmyndum en í dag er hún áhrifavaldur á Instagram, TikTok og Youtube þar sem hún leyfir fólki að fylgjast með daglegu lífi sínu.

Hin 21 árs Lang segir að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun fyrir fjölskyldu hennar að fara með hana til Íslands. Þættirnir voru framleiddir af Nickelodeon og síðar Warner Bros en teknir upp á Íslandi. Framleiðslan var risastór og hver þáttur kostaði í kringum eina milljón dollara.

Lang var tíu ára þegar hún var valin til að verða næsta Solla stirða og því fluttu hún og móðir hennar til Íslands.

„Ég get ekki þakkað fjölskyldu minni nóg. Aðeins ég og mamma mín fluttum en pabbi varð eftir af því að ég á systkini,“ segir Lang. „Þetta var erfið ákvörðun fyrir mömmu mína á þessum tíma. En ég var svo ung, ég vildi endilega fara. Mér fannst þetta svo spennandi.“

Heimsækir Ísland á hverju sumri

Hún segir að ákvörðunin hafi verið mjög góð. Hún hafi elskað Ísland og elskað að vera hluti af gerð þáttanna.

„Ég er enn þá í sambandi við svo marga. Við erum eins og fjölskylda. Ég reyni að heimsækja Ísland á hverju sumri til að heimsækja alla sem ég þekki en líka af því að það er svo fallegt. Ég fæ ekki nóg af því,“ segir Lang.

Lang nefnir einnig Magnús Scheving, stofnanda Latabæjar, og segir að hann hafi skapað frábæra umgjörð fyrir leikara og sviðsfólk.

„Hann var mjög hvetjandi. Latibær var hans barn, hans sköpun og hann hafði mjög sterkar skoðanir á hlutunum og hafði ástríðu fyrir framkvæmd þeirra,“ segir Lang. „Að vera í kringum þetta á hverjum degi, þessari orku sem hann setti í allar sínar hugmyndir, búningana, sviðsmyndina, hönnunina, munina. Allt var eiginlega lygilegt.“

Ekki í venjulegum skóla

Lang gekk ekki í íslenskan skóla á þessum árum heldur lærði hún hjá kennara sem kom í upptökuverið og kenndi á milli taka.

Magnús Scheving og Chloe Lang á settinu.

„Ég man að leikararnir studdu mig í náminu og tóku stundum þátt. Ég bjó til eldfjall í náttúrufræði og allir komu og fögnuðu þegar það gaus,“ segir hún.

Þrátt fyrir óvenjulega skólagöngu þessi ár átti hún ekki í miklum vandræðum með að byrja aftur í hefðbundnum skóla þegar hún sneri aftur heim til Bandaríkjanna.

„Krakkarnir kölluðu mig kvikmyndastjörnuna og stelpuna úr Latabæ en ég sagði þeim að ég væri bara venjuleg stelpa. Ég er eins og þið,“ segir Lang. „Og þannig var komið fram við mig eftir það. Ég átti mjög venjulega skólagöngu í gagnfræðaskóla og framhaldsskóla og ég er mjög þakklát fyrir það.“

Slapp við vandamál barnastjarna

Lang segist einnig mjög þakklát fyrir að hafa ekki lent í hörmungum eins og margar barnastjörnur hafa lýst. Svo sem baráttu við fíkni og geðsjúkdóma tilkomna með mikilli frægð á ungum aldri. Hún þakkar Íslandi það.

Sjá einnig:

Solla stirða gerir það gott sem áhrifavaldur

„Ég hef hugsað um þetta, hversu heppin ég var að þættirnir voru teknir upp á Íslandi. Flestir voru Íslendingar nema nokkur okkar. Ég held að ef þættirnir hefðu verið teknir upp í Los Angeles eða annars staðar í Bandaríkjunum hefði þetta ekki verið eins,“ segir Lang.

„Ég er svo þakklát þegar ég lít til baka á þessa reynslu að hún hafi verið svona góð. Þetta var erfið vinna, ég þurfti að vinna mikið en ég elskaði það. Og það var komið fram við mig eins og prinsessu. Ég var heppin að umhverfið var mjög gott og fólkið var mun eldra en ég. Ég var eini krakkinn á settinu og ég held að aðrir hafi verið mjög meðvitaðir um að koma vel fram við mig, þannig að ég fékk mikinn stuðning.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram