Óskarsverðlaunahafinn Robert De Niro stendur í ströngu þessa daganna Hann er að takast á við fyrrum aðstoðarkonu sína fyrir dómi og hafa harðar ásakanir gengið á víxl. Leikarinn er sakaður um að vera yfirmaður frá helvíti en hann sakar aðstoðarkonuna á móti um þjófnað, þar á meðal um að hafa stolið vildarpunktunum hans. Aðstoðarkonan sagði starfi sínu lausu árið 2019 eftir að hafa aðstoðað leikarann í um 11 ár. Nú heimtar hún rúmlega milljarð frá fyrrum vinnuveitandanum, meðal annars á þeim grundvelli að hann hafi neitað að gefa henni meðmæli.
Nýjustu tíðindin af þinghaldi í málinu koma úr vitnisburði Tiffany Chen, kærustu De Niro. Hún segir að aðstoðarkonan fyrrverandi hafi verið haldin ranghugmyndum um hlutverk sitt í lífi leikarans. Hún hafi ekki litið á sig sem aðstoðarkona heldur sem eiginkonu, og verið almennt vanstillt og biluð.
„Ég held í dag, virkilega, að hún hafi trúað þessu. Hún er klikkuð. Ég held hún viti að hún sé það ekki [gift leikaranum], og orðið reið því hún var að reyna að verða það,“ sagði Tiffany og vísaði til þess að Chase hafi ætlað sér að giftast leikaranum og tekið því illa þegar þau áform gengu ekki upp. Aðstoðarkonan hafi verið með leikarann á heilanum og haft ranghugmyndir um samband þeirra.
„Hún er andstyggileg, óörugg og ráðrík stelpa,“ hélt Tiffany áfram og lýkti Chase við frægt skrímsli, Dr Jekyl og Mr. Hyde. Tiffany og Chase hafi samið illa og gekk ósættið svo langt að Tiffany gaf leikaranum úrslitakosti. Aðstoðarkonan, eða hún. Aldrei hafi neitt rómantískt verið milli De Niro og aðstoðarkonunnar og eina rómantíkin sem aðstoðarkonan hafði fundið í þessu starfssambandi hafi verið við greiðslukort leikarans.
Eins og gjarnan er með réttarhöld þar sem Hollywood-stjörnur koma við sögu eru ásakanirnar í máli þessu ævintýralegar. Leikarinn er sakaður um að hafa stuðlað að kvenfjandsamlegu vinnuumhverfi, svo sem með því að fela Chase það sem eitt sinn þóttu kvennaverk, svo sem þvott, redda honum áfengum drykkjum, hneppa fyrir hann skyrtum, klóra honum á bakið og svona mætti áfram telja. Þetta telur Chase niðurlægjandi framkomu sem hafi gert lítið úr hæfni hennar. Fékk hún greiddar um 42 milljónir á ári fyrir störf sín sem gerir um 3,5 milljónir á mánuði. Hún þurfti að vera til taks dag sem dimma nátt og vekur sérstaklega athygli á tveimur tilvikum þar sem leikarinn hafði samband við hana utan almenns vinnutíma. Annað skiptið var um miðja nótt, en þá hafði leikarinn dottið og þurfti að fara á sjúkrahús, og hitt tilfellið varðaði símtal frá leikaranum sem vildi að Chase keypti rútumiða fyrir son sinn, en einmitt þá var Chase stödd í jarðarför ömmu sinnar og De Niro var meðvitaður um það.
De Niro segir á móti að Chase hafi freklega misnotað stöðu sína. Hún hafi dregið að sér fé til að fjármagna munaðarfullan lífsstíl. Hún hafi farið í rándýrar utanlandsferðir, á flottustu veitingastaðina og keypt sér flottustu hönnunarvörurnar – allt á kostnað De Niro. Þar að auki hefði hún verið löt og varið vinnutíma í að slæpast og hámhorfa á Netflix. Hún hafi eins dregið að sér heilu milljónirnar í formi vildarpunkta hjá flugfélagi. De Niro hefur kallað hana freka og vanþakkláta krakkaskömm og hellti sér yfir hana í dómsal með slíku forsi að dómari málsins gaf honum illt auga.