Í gær greindi DV frá enn einni skemmtilegri einkamálaauglýsingu sem birtist í Bændablaðinu. Þar auglýsir kona sem kallar sig Jöklarósin eftir manni til undaneldis.
Sjá einnig: Einkamálaauglýsing Bændablaðsins vekur enn á ný athygli – „Óskar eftir vænum grip til undaneldis“
Kristín Sif og Þór í útvarpsþættinum Ísland vaknar á K100 hringdu í Jöklarósina nú í morgun og forvitnuðust um hvort einhver svör hefðu borist við auglýsingunni:
„Það er komið eitt sem mér líst ágætlega á, en svo er þetta óttaleg vitleysa sem ég er að fá. Menn eru ekki að segja að þeir séu þetta allt saman,“ segir Jöklarósin og vísar til krafnanna sem hún settur fram í auglýsingu sinni.
„Það vilja allir þetta sama á þessum öppum,“ svarar hún hvort hún sé ekkert að prófa stefnumótaöpp eins og Tinder og fleiri. „Og ég er milli þrítugs og fertugs, gömul sál og finnst gaman að rita fallega og tala við fólk á léttu nótunum, og mér finnst þetta alltaf fara út í vitleysu. Ég segi bara strax að ég sé að leita að manni til að eldast með og eignast börn með, það er ekki seinna vænna og ég nenni ekki að tala svona dónatal. Það er aðalatriðið, ég vil fara að fjölga mér.“
Í auglýsingunni óskar Jöklarósin eftir manni sem þarf að uppfylla þessa kosti: „Þarf að vera ljúfur og góður, hugulsamur, heiðarlegur, heill á geði, léttur og kátur, einlægur, sýna frumkvæði við og við, fjárhagslega sjálfstæður, laghentur og natinn. Ekki væri verra að viðkomandi væri í hærra lagi, sterklega byggður, bæri sig vel og helst með fallega heiðblá augu.“
Aðspurð hvort þessi eini álitlegi sem sent hefur henni tölvupóst sé með alla kostina segir hún: „Hann virðist vera heill á geði, ég á náttúrulega eftir að hitta hann. Hann sagðist ekki vera mjög laghentur. Maður getur alltaf beðið einhvern að redda því. Ef menn eru ekki með eitt þá eru þeir ekki með annað heldur. Mér finnst í lagi að biðja um svolítið mikið þegar maður er orðinn svona gamall.“
Þá segja Kristín Sif og Þór að Jöklarósin sé með smá kröfulista. „Þetta er smá listi hjá þér, þetta eru smá kröfur.“
„Já og þó maður segi helst með falleg blá augu, hver vill ekki horfa framan í Leonardo diCaprio, hann er með þessi stingandi augu. Ef einhver er með græn augu“, „þá gæti það sloppið,“ skýtur Þór inn í,“ef hann er skemmtilegur þá sleppa grænu augum,“ bætir Kristín Sif við.
„Já skemmtilegur og góður og svo þetta með að vera fjárhagslega sjálfstæður, maður vill nú ekki enda með einhvern pokakall. Ég vil helst sleppa því,“ segir hún aðspurð með að einhver kall með Bónuspoka flytji inn á hana.
„Ég er rosalega góð og skemmtileg og dugleg sjálf, það þarf ekkert að kasta mér úr rúminu.“
Þeir karlmenn sem telja sig uppfylla ofangreinda kosti geta sent Jöklarósinni tölvupóst á netfangið joklarosin@gmail.com.