Á fólk að bursta í sér tennurnar um leið og það vaknar á morgnanna, eða borða morgunmatinn fyrst? Þetta er spurningin sem hefur klofið heimsbyggðina frá því að tannburstinn var fundinn upp.
Nú hefur einn tannlæknir afhjúpað sína afstöðu til ágreiningsins, en Jay Joshi segir fólki að borða fyrst, bursta svo.
„Að bursta tennurnar eftir morgunmatinn er betra fyrir tannheils. Það hjálpar fólki að verjast mögulegum skaða frá sýruríkum mat- og drykkjarvörum.“
Ekki bursta súrar tennur
Tannglerungur er viðkvæmur fyrir sýru. Það er því ákveðin þversögn í því að bursta tennurnar og skola þær svo með súru kaffi eða ávaxtasafa. Ekki nóg með það. Það getur svo gert illt verra að bursta tennurnar rétt fyrir morgunmat. Við það verða tennurnar útsettari en áður fyrir sýru.
Það má heldur ekki bursta tennurnar eftir að fólk kyngir seinustu skeiðinni af morgunkorninu. Það getur valdið enn meiri skaða því glerungur er þá viðkvæmur sökum sýrunnar úr morgunverðinum. Svarið er því borða, bíða, bursta, en Jay Joshi segir engan tannbursta eiga heima í munni fólks fyrr en minnst hálftíma eftir máltíð.
„Með því að bíða að lágmarki í hálftíma gefum við munnvatninu tíma til að hlutleysa sýruna og byggja glerunginn aftur upp, sem dregur úr líkum á skemmdum.“
Svo til að bæta við ofangreint bendir Jay Joshi fólki á að venja sig af því bursta tennurnar í sturtunni þegar það er í tímaþröng. Hitinn og rakinn í sturtunni eru kjöraðstæður til að næra bakteríur í munninum. Tannlæknirinn segir þó að það mikilvægasta fyrir alla er að huga að samkvæmni hvað tannheilsuna varðar. Gæta þess að bursta tennur, nota tannþráð og fara reglulega til tannlæknis. Það sé töluvert mikilvægara heldur en að bursta fyrir eða eftir morgunmat, en hver og einn þurfi að grundvalla rútínu sína á eigin heilsu, mataræði og persónulegum þörfum.
Þetta er í samræmi við það sem áður hefur verið fjallað um þegar tannlæknir varaði fólk við því að bursta tennur strax eftir kaffidrykkju. Fyrir áhugafólk um tannburstun má svo benda á algengustu mistökin við tannburstun og vernd tannanna.