Í gærkvöldi fór fram sérstök forsýning á myndinni Killers of the Flower Moon í einum alglæsilegasta lúxussal landsins Ásberg í Sambíóunum Kringlunni. Hinn goðsagnakenndi Martin Scorsese leikstýrir myndinni og hefur hann fengið í lið með sér tvær af skærustu stjörnum Hollywood til að fara með aðalhlutverkin, Leonardo DiCaprio og Robert De Niro.
Eftirvæntingin var áþreifanleg meðan beðið var eftir að hliðin að Ásberg opnuðu en meðal frumsýningargesta voru mörg þekkt andlit úr íslensku menningar- og atvinnulífi sem öll áttu það sameiginlegt að vera gífurlega spennt fyrir þessari stórmynd sem gagnrýnendur keppast við að kalla „Meistaraverk“.
Meðal þeirra sem létu sig ekki vanta á frumsýninguna voru leikarahjónin Ingvar E. Sigurðsson og Edda Arnljótsdóttir, Ragnar Bragason leikstjóri, bræðurnir Bjössi og Siggi í World Class, DJ Danni Deluxe, parið Ásgeir Kolbeins athafnamaður og Hera Gísladóttir áhrifavaldur, Bíó-kóngurinn Árni Samúelsson ásamt fleira góðu fólki.
Mummi Lú myndaði stemninguna.
Killers of the Flower Moon er sannsöguleg kvikmynd sem segir frá skuggalegu samsæri sem átti sér stað í Oklahoma-fylki í upphafi tuttugustu aldarinnar þegar Osage fólkið var myrt eftir að olía fannst á landi þeirra.
Eftir frumsýninguna í Ásberg í gærkvöldi voru bíógestir allir á einu máli um að hér væri á ferðinni stórkostlegt meistarastykki og að Killers of the Flower Moon komi til með að raða til sín Óskarstilnefningum.
Killers of the Flower Moon kemur í bíó 20. október.