Brynjar Níelsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fer mikinn í nýjasta pistli sínum á Facebook og fjallar þar um barneignir í víðu samhengi. Tilefnið er frumvarp Hildar Sverrisdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, um að endurgreiðslur vegna tæknifrjóvgana verði hækkaðar til muna en auknum kostnaði verður mætt með því að fella niður niðurgreiðslur Sjúkratrygginga á valkvæðum ófrjósemisaðgerðum, sem iðulega eru í formi svokallaðra herraklippinga.
Brynjar fagnar frumvarpinu en hann greinir frá því að hann hafði undirgengist slíka aðgerð og það sama dag og heimiliskötturinn var geldur. (Rétt er að geta þess að ritstjórn er meðvituð um að fyrirsögn greinarinnar er ekki alveg nákvæm. Eftir því sem best er vitað fékk Brynjar að halda eistunum ólíkt kettinum).
„Þegar við Soffía höfðum eignast tvö börn eftir að hafa stundað kynlíf tvisvar, sem mun vera 100% skor, og bæði vel heppnuð, taldi hún rétt að segja stopp því líkur væru á að það þriðja líktist mér. Varð þá niðurstaðan að annað okkar færi í valkvæða ófrjósemisaðgerð. Þar sem ég var og er landsþekktur femínisti varð úr að ég færi í herraklippingu og vildi svo til að það var sama dag og heimiliskötturinn okkar. Við vorum mjög aumir eftir aðgerðirnar og mjálmuðum báðir sem eftir lifði dags. Þegar kom að því að greiða fyrir aðgerðina var mér tilkynnt að hún væri í boði skattgreiðenda. Verð að viðurkenna að það kom mér verulega á óvart og það hvarflaði að mér hvort það ætti bara við mig á grundvelli almannahagsmuna. En svo var víst ekki,“ skrifar Brynjar.
Á alvarlegri nótum segist Brynjar vel geta ímyndað sér sársauka þeirra sem ekki geti eignast börn nema með aðstoð.
„Við Soffía erum ekki sammála um margt en þó sammála um að eignast börn sé það mikilvægasta í lífinu. Svo eignast maður ekki barnabarn nema að eignast barn fyrst. Ég get því vel ímyndað mér vanlíðan þeirra sem geta ekki átt börn nema með aðstoð tækninnar. Skattfé verður ekki mikið betur varið en í slíka aðstoð. Ástæða er til þess að hrósa Hildi Sverrisdóttur sérstaklega, sem hefur að mati okkar Soffíu staðið sig afskaplega vel á þinginu, er bráðvelgefin, fylgin sér og umfram allt kjörkuð.“
Hér má lesa pistil Brynjars í heild sinni