Högni Egilsson, Selma Björnsdóttir, Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson verða listrænir stjórnendur Söngvakeppninnar 2024 segir í fréttatilkynningu frá RÚV. „Þetta er liður í því að auka áhersluna á skapandi þátt keppninnar. Við erum himinlifandi yfir því að fá þetta öfluga listafólk til liðs við okkur,“ segir Rúnar Freyr Gíslason framkvæmdastjóri keppninnar.
Selma Björnsdóttir söng- og leikkona er Eurovision-aðdáendum að góðu kunn. Hún hefur tvisvar keppt fyrir Íslands hönd og á næsta ári verða 25 ár síðan hún lenti í 2. sæti í Jerúsalem með lagið All out of luck. Selma hefur komið víða við síðan og hefur til að mynda leikstýrt stórum sýningum, leikritum og söngleikjum víða um heim.
Högni Egilsson tónskáld og söngvari hefur verið frumkvöðull í íslensku tónlistarlífi síðan hljómsveitin Hjaltalín vakti athygli árið 2007. Síðan þá hefur hann starfað með hljómsveitinni GusGus og flutt verk sín og haldið tónleika víðs vegar um heim. Síðustu misseri hefur hann unnið að tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarp.
Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson leikstjórar eru annar helmingurinn af eigendahópi Skot Productions ehf. Í meira en 20 ár hafa þeir framleitt og leikstýrt ótal verkefnum bæði hérlendis og erlendis, meðal annars verðlaunaauglýsingum, sjónvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum.
Söngvakeppnin fer fram í febrúar og mars og verður með svipuðu sniði og síðustu ár. Tíu lög verða valin til þátttöku og etja kappi í beinni útsendingu þrjú laugardagskvöld. Fyrri undanúrslitin eru 17. febrúar, seinni undanúrslitin 24. febrúar og úrslitakvöldið er 2. mars þar sem framlag Íslands í Eurovision í Malmö í maí verður valið. Í undanúrslitunum keppa fimm lög hvort kvöld þar sem tvö lög komast áfram eftir símakosningu landsmanna. Það verða því fjögur lög sem keppa til úrslita 2. mars að öllu óbreyttu. Framleiðendur keppninnar hafa þó möguleika á að bjóða einu lagi enn þátttöku í úrslitunum. Síðustu ár hefur það verið gert og fimm lög keppt á lokakvöldinu.
Alls bárust 118 lög í keppnina og ráðgefandi valnefnd hefur skilað inn niðurstöðu sinni. Framleiðendur keppninnar taka svo endanlega ákvörðun um hvaða tíu lög taka þátt. Eins og síðustu ár verður nokkrum höfundum boðin bein þátttaka í keppninni. Á næstunni verður haft samband við höfundana og í kjölfarið hefjast upptökur, hugmyndavinna og æfingar á atriðum.
Síðustu tvö ár hefur keppnin verið haldin í kvikmyndaverinu í Gufunesi. Söngvakeppnin 2024 verður á tveimur stöðum. Undanúrslitin fara fram í glæsilegu kvikmyndaveri Truenorth í Fossaleyni og úrslitin verða í Laugardalshöll. „Með þessu móti getum við tekið á móti helmingi fleiri áhorfendum en í Gufunesinu, bæði á svokallað fjölskyldurennsli 1. mars og svo á úrslitakvöldið 2. mars,“ segir Rúnar Freyr og bætir við að hópurinn sé mjög ánægður með að fara aftur í Höllina þar sem úrslitin fóru fram 2016-2020 með góðum árangri.
Þátturinn Lögin í Söngvakeppninni verður sýndur á RÚV laugardagskvöldið 27. janúar, þar sem hulunni verður svipt af lögum og keppendum keppninnar. Í kjölfarið verða öll lögin gefin út á helstu streymisveitum. Kynnar keppninnar verða þeir sömu og í fyrra, þau Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Sigurður Þorri Gunnarsson og Unnsteinn Manuel Stefánsson.