Hljómsveitin Sálin hans Jóns míns fagnar 35 ára afmæli í ár. Sveitin hélt fyrstu tónleika sína í Bíókjallaranum við Lækjargötu 10. mars 1988 og telst sá dagur stofndagur sveitarinnar. Sálin var gífurlega vinsæl og starfaði allt til 20. október 2018 þegar sveitin hélt þrenna lokatónleika í Eldborgarsal Hörpu.
Aðdáendur hafa vonast eftir að sveitin héldi afmælistónleika á árinu,en ljóst er að svo verður ekki enda árið senn á enda. Í viðtali á RÚV 2o. október 2018 sagði Guðmundur Jónsson, gítarleikari sveitarinnar, aðspurður um möguleikann á endurkomu:
„Ekki að svo stöddu, nei. Þetta er ekki gert í einhverju „bríeríi“, þetta er búið að meldast lengi. Þessi hljómsveit var stofnuð til þriggja mánaða en er búin að duga í 30 ár. Og við ákváðum bara að segja þetta gott. Og í staðinn fyrir að „feida“ út ætlum við að taka þetta með glans og fá sem flesta með okkur í endasprettinn.“
Aðdáendur geta þó tekið gleði sína því í tilefni af afmælis mun Alda Music gefa út á næstunni veglega útgáfu undir heitinu „Tíminn og við“. Um er að ræða þrjár hljómplötur sem geyma 32 sérvalin lög sveitarinnar, ýmist á svörtum eða lituðum vínyl. Upplagið er takmarkað, en áhugasamir geta keypt sér eintak hér.