Fá dómsmál hafa vakið jafn mikla athygli og meiðyrðamál sem leikarinn Johnny Depp höfðaði gegn fyrrverandi eiginkonu sinni, leikkonunni Amber Heard. Sýnt var frá réttarhöldunum í beinni útsendingu og heimurinn skiptist í fylkingar. Málið snerist um það hvort fullyrðingar Amber um að hún hefði þolað heimilisofbeldi í hjónabandi þeirra, væru sannar eða meiðyrði. Fór svo að lokum að leikarinn hafði betur og voru dæmdar umtalsverðar bætur. Þeirri mynd var varpað upp í dómsal að það hafi í raun verið Depp sem var þolandi ofbeldis í hjónabandinu og að fyrrverandi eiginkona hans væri aðeins að hefna sín.
Stuðningsmenn Amber hafa þó bent á að málflutningur leikarans minni um margt á aðferð sem gjarnan er beitt í ofbeldismálum, þ.e. að neita sök, ráðast að persónu þolanda, mála sig sem fórnarlambið og þolandann sem geranda. Hafi leikarinn beitt þeirri aðferð þá gekk það prýðilega hjá honum og Amber hefur átt erfitt uppdráttar síðan og í raun ákveðið að segja skilið við sviðsljósið og einbeita sér að uppeldi dóttur sinnar.
En æstir aðdáendur leikarans ætla ekki að láta kyrrt liggja og nýta enn hvert tækifæri til að hjóla í leikkonuna. Nú þegar framhaldsmyndin um Aquaman er að koma í kvikmyndahús, en þar leikur Amber Heard lítið hlutverk, þótti stuðningsmönnum Depp vera tilefni til að hjóla aftur í Amber. Þeir leituðu því til dómstóla og fengu þar að kaupa sér aðgang að þeim gögnum sem höfðu verið lögð fram í réttarhöldunum frægu.
Hluta gagnanna hefur svo verið lekið á netið. Meðal annnars minnisblað frá sálfræðitíma sem Amber Heard fór í á meðan hún lék í Aquaman. Þar mátti finna minnispunkta um hvað Amber ræddi við sálfræðing sinn.
„Jason sagði að hann vildi að ég yrði rekin. Jason er fullur – seinn í tökur. Klæðir sig eins og Johnny. Er meira að segja með alla hringana,“ sagði meðal annars í minnispunktunum. Leikkonan taldi Mamoa vera að vinna gegn sér og væri viljandi að kvelja hana með því að klæða sig eins og hennar fyrrverandi.
Talsmaður Momoa hefur neitað að tjá sig um minnisblaðið en talsmaður DC segir ekkert hæft í fullyrðingunum. Jason hafi hagað sér eins og fagmaður á tökustað. Heimildarmaður Variety tók í sama streng.
„Jason lagði hart að sér, honum finnst gott að fá sér einstaka bjór eins og flestum en hann mætir ekki fullur í tökur. Hann var ekki að klæða sig eins og Johnny Depp. Jason klæðir sig alltaf í svona bóhemskum stíl.“
Hlutverk Amber í framhaldsmyndinni um Aquaman spilað hlutverk í réttarhöldunum umtöluðu, en Amber tók fram að hún hafi stöðugt þurft að berjast fyrir því að halda hlutverkinu því fyrrverandi eiginmaður hennar vildi að hún yrði rekin og hefði beitt sér fyrir því. Til að verjast því leiddi Johnny fram vitni sem báru að Amber hafi vissulega horfst í augu við að missa hlutverkið en það hafi ekki verið út af skilnaði hennar, heldur sökum þess að hún og Mamoa áttu illa saman sem skilað sér í ósannfærandi ástarsambandi á stóra skjánum.
Nú segja erlendir miðlar að lögmaður Amber hafi fengið bréf frá framleiðanda myndarinnar og leikstjóra þar sem skýrt var tekið fram að þar sem enginn neisti væri milli leikkonunnar og Aquaman yrði henni ekki boðið að taka þátt í framhaldsmyndinni. Á þeim tíma hafi Amber verið að slá sér upp með auðkýfingnum Elon Musk og hafi hann stigið inn í aðstæður til að tryggja henni hlutverkið. Elon mun hafa fengið lögmanni sínum að senda harðort bréf á framleiðendur þar sem þeim var hótað því að fyrirtækið yrði tekið af lífi ef Amber fengi ekki hlutverkið. Framleiðendur létu undan þessum þrýstingi, Amber var ráðin en þó var hlutverk hennar mun minna en upphaflega stóð til. Þeir sem hafa séð stiklu fyrir myndina geta sé að henni bregður aðeins þar fyrir í örskammastund en í myndinni mun hún prýða skjáinn í aðeins 10 mínútur í heildina.
Amber sagði einnig við sálfræðing sinn að leikstjóri myndarinnar, James Wan, hafi komið illa fram við hana. „Ég má ekki deila neinu um Aquaman, hann lætur þetta hljóma eins og þetta sé mér að kenna. Ég sagði – fyrirgefðu – en enginn mátti taka sjálfur með mér á tökustað út af fjölmiðlabanni.“
Heimildarmenn munu þó ekki vera sammála þessari túlkun Amber á framkomu leikstjórans.
„James er þekktur fyrir að koma fram við tökulið sitt og leikarahóp af virðingu. Hann beitir sér fyrir jákvæðu umhverfi þar sem fólk vinnur saman og Aquaman-myndirnar voru engin undantekning.“