Kryddpían Mel B trúlofaðist unnusta sínum fyrir ári síðan. Hún segir ótrúlegan mun að vera nú í sambandi með manni sem virðir hana, hrósar og hvetur áfram, en áður var hún í áratugalöngu hjónabandi þar sem hún var brotin niður með stöðugri gagnrýni og ofbeldi.
Fyrrverandi eiginmaður hennar er Stephen Belafonte, en þau gengu í hjónaband árið 2017 en skildu að borði og sæng árið 2017. Kryddpían steig í kjölfarið fram og sakaði fyrrverandi mann sinn um að hafa beitt sig heimilisofbeldi. Hún segir nú í viðtali við The Sun að hún sé komin á góðan stað í dag, en heilbrigða sambandið sem hún er nú í sýnir henni svart á hvítu hvað hjónabandið var brenglað.
„Þetta er búin að vera margra ára vinna, en í dag er ég öruggari með mig en nokkru sinni áður og í sambandi með manni sem segist elska mig og segir mér daglega að ég sé falleg.“
Unnustinn, Roy McPhee fór á skeljarnar í október á síðasta ári og er Mel B sannfærð um að hér hafi hún loksins fundið hinn eina rétta. Sérstaklega þegar hún ber sambandið saman við hjónabandið. Roy stundi það að byggja hana upp á meðan Belafonte hafi rifið hana niður.
„Hann sagði: Þú lítur út fyrir að vera gömul kelling; Þú ert feit; Guð hvað þú ert ljót; húðin á höndunum þínum hangir. Alla daga, stöðugt. Að vissu leyti eru athugasemdir sem þessar eins og rigning. Þær væta mann inn að beini, þær skola burt sjálfstraustið, sjálfsvitundina og þegar þú lítur í spegilinn sérðu ekki sterka og hamingjusama konu horfa til baka. Þú sérð spegilmynd þess sem þú hefur verið kölluð – feit, ljót, gömul, einskis virði.“
Mel B segir að þrátt fyrir að hafa verið í sviðsljósinu lengi áður en hún tók saman við fyrrverandi eiginmanninn hafi ekkert undirbúið hana undir andlega ofbeldið sem hann beitti hana. Hún hafi vissulega verið með þykkan skráp eftir að vera á milli tannana á fólki árum saman, en það sé annað þegar gagnrýnin komi þeim aðila sem á að elska þig skilyrðislaust.
„Það er munur þegar þetta er einhver sem þú ert giftur, einhver sem á að elska og virða og varðveita þig, einhver sem þú deilir heimili og lífi með, þegar þessi aðili fer að rakka þig niður þá er það allt allt öðruvísi.“
Mel B hefur allt frá skilnaði sínum sakað sinn fyrrverandi um að beita sig líkamlegu-, andlegu – og kynferðislegu ofbeldi. Belafonte hefur neitað sök og sakað kryddpíuna um lygar.