fbpx
Þriðjudagur 28.mars 2023
Fókus

Anna Margrét segir takmörk fyrir hversu langt sé hægt að komast á hnefanum – „Það kom fyrir að bæði mamma og pabbi voru veik á sama tíma en ekkert kerfi kom okkur börnunum til hjálpar“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 29. janúar 2023 09:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Pabbi var yfirleitt alltaf í lagi nema þegar að áföll skullu á, þá blossuðu hans andlegu veikindi upp. 

Hann var líklega með einhverja blöndu af geðhvarfasýki og þunglyndi og hann og mamma þurftu bæði á spítalavist að halda þegar ég var 11 ára,“ segir Anna Margrét Bjarnadóttir, rithöfundur.

Þung áföll

Faðir Önnu Margrétar, Bjarni Rögnvaldsson, glímdi svo árum saman við geðraskanir sem á endanum leiddu til þess að hann tók eigið líf á aðfangadag árið 1999. 

Móðir hennar, Helga Guðnadóttir, fékk heilablóðfall aðeins 24 ára gömul þegar Anna Margrét var aðeins þriggja mánaða og varð öryrki í kjölfarið. 

Tíu árum síðar fékk hún brjóstakrabbamein. Anna Margrét var þá 11 ára. 

Sjálf er Anna Margrét BRCA arfberi og lifir með aukinni hættu á krabbameini, auk þess sem hún hefur misst marga ástvini úr sjúkdómum.

Foreldrar Önnu Margrétar, Helga Guðnadóttir og Bjarni Rögnvaldsson á brúðkaupsdaginn. Brúðkaup þeirra var það fyrsta eftir goslok í Eyjum, 20. júlí 1973.

„Það kom fyrir að bæði mamma og pabbi voru veik á sama tíma og þurftu á spítalavist að halda. Við systkinin fengum mikla ást og stuðning frá ömmum og öfum og frændum og frænkum.

Þessi tími er að mörgu leyti í móðu en ég man ekki eftir að það hafi verið neitt utanaðkomandi kerfi til staðar til hjálpar okkur,  eða börnum og unglingum almennt í þessari stöðu,“  segir Anna Margrét. 

„Þetta er allt öðruvísi í dag, eða það vona ég allavega. Maður er alltaf að vona að hlutirnir breytist til batnaðar en því miður gerist það oft allt of, allt of hægt.“ 

Sumt verður að segja

Fyrr á þessu ári gaf Anna út bókina Tómið eftir sjálfsvíg – Bjargráð til að lifa með sorginni. Í bókinni eru 12 frásagnir fólks sem misst hefur ástvin í sjálfsvígi auk þess að deila eigin reynslu af föðurmissinum. 

Sjá kafla úr bókinni: Faðir Önnu Margrétar tók eigið líf á jólunum – „Ég hafði grafið tilfinningarnar mjög djúpt og í raun aldrei unnið neitt með þær

Vonast hún til að bókin geti reynst gagnleg þeim sem ganga í gegnum missi eftir sjálfsvíg eða skyndilegt lát ástvinar.

Helga var aðeins 24 ára þegar hún fékk heilablóðfall. Anna Margrét var þá aðeins þriggja mánaða og Röggi bróðir hennar fimm ára.

„Það var ótrúlega stórt skref að taka viðtölin, þora að fara inn í eigin tilfinningar og keyra á bókina. Ég hef alltaf hugsað; hvað veit ég svo sem um þetta efni, samt búin að missa tvo nákomna mér sem tóku eigið líf.

Ég var efins, á einhver eftir að vilja lesa þetta og finnast vit í þessu? En það er alltaf von og maður verður að segja sögu sína og nýta reynslu sína öðrum tll hjálpar.“

Fjör i Breiðholtinu

Anna Margrét hefur búið í Maryland í Bandaríkjunum í rúm sex ár ásamt eiginmanni sínum Þorvarði Tjörva Ólafssyni, aðstoðardeildarstjóra hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og börnum þeirra, Magnúsi Erni, Ara Má og Kaiden Ingvari. 

„Ég er fædd í Reykjavík en á ættir að rekja til Vestmannaeyja. Ég var reyndar alltaf frekar svekkt yfir að vera ekki fædd þar og vera því ekki alvöru Vestmanneyingur,“ segir Anna Margrét og hlær. 

„Mamma og pabbi kynntust í Eyjum, fluttu upp á land í ársbyrjun 1977 og ég fæðist í september sama ár.“ 

Anna Margrét á fermingardaginn 1991.

„Ég ólst i Efra-Breiðholti og þykir alltaf óskaplega vænt um Breiðholtið. Ég var í Hólabrekkuskóla alla mína grunnskólagöngu. Það var mikið af krökkum á þessum tíma í Breiðholtinu og stórir árgangar.

Þetta var stórt, líflegt og skemmtilegt umhverfi að alast upp í og ég tók þátt í öllu – dansi, leiklist, ræðumennsku og Skrekk. Stundum bitnaði það á náminu og foreldrar mínir þurfu að biðja mig að róa mig aðeins en pabbi mætti á allar skólaskemmtanir með myndavélina á lofti. 

Þetta var ótrúlega skemmtilegur tími, fullur af sköpun og tónlist og ég eignaðist mikið af góðum vinum á þessum árum.“

Danmörk

Þegar Anna Margrét var sextán ára vildi hún breyta aðeins til og fór í Menntaskólann við Sund.

„Það var ágætt að skipta um umhverfi en ég var líka í leiklistinni þar en ákvað reyndar á síðasta árinu að einbeita mér að náminu og hætti í leiklistinni. 

Ég sé reyndar stundum eftir því en svona er lífið, á þessum tíma ákvað ég að fókusera á akademískt nám.“

Anna Margrét og Tjörvi hafa verið saman frá því á menntaskólaárunum. Þau búa nú í Bandaríkjunum ásamt þremur börnum sínum.

Anna Margrét er gift æskuástinni sinni, Tjörva Ólafssyni. 

„Við kynntumst í menntaskóla, hann var í MR og ég í MS og eftir að skóla lauk vorum við sammála um að okkur langaði að búa erlendis. Við vissum ekki hvar við vildum búa en það var handboltinn hjá Tjörva sem ákvað það fyrir okkur. Við fluttum því til Danmerkur þar sem Tjörvi varð hálfatvinnumaður í handbolta.“

Unga parið bjó í litlum bæ á Jótlandi, féllu fyrir Danmörku og bjuggu þar samtals í sex ár en voru þó reglulega með annan fótinn á Íslandi. 

Anna Margrét tók BA gráðu í dönsku frá Háskóla íslands og bætti við tveimur mastersgráðum í Danmörku. Annars vega í fagurfræði og menningarfræði og hins vegar í kennslufræði erlendra tungumála.

Heilablóðfall 24 ára

Anna Margrét var aðeins þriggja mánaða, og Röggi bróðir hennar fimm ára, þegar að móðir hennar, Helga Guðnadóttir, fékk heilablóðfall, aðeins 24 ára gömul. 

„Pabbi sagði reyndar lán í óláni að þau hefðu verið flutt upp á land þegar þetta gerðist enda styttra í alla læknisþjónustu. Pabba langaði reyndar alltaf að flytja aftur til Eyja en það var ekki hægt vegna þess hve mamma var mikill sjúklingur, það var ekki í boði.“ 

Anna Margrét segir Helgu móður sína hafa verið afar sterka, glaða og duglega. Helga lést 2014.

„Hún lamaðist alveg á vinstri hendi og fékk aldrei fullan mátt í vinstri fót svo að hún haltraði alltaf. Og þegar hún var slæm þurfti hún að nota hjólastól. Hún fékk einnig flogaveiki og ég man slæmum flogaveikisköstum þegar við vorum börn. Síðar fékk hún betri lyf en ég man vel eftir því þegar við bróðir minn vorum að stússast við hringja á sjúkrabíl vegna þess að pabbi var að vinna og við ein heima.“ 

Erfiðleikar en líka hlátur og hlýja

Þetta hlýtur að hafa verið mikið álag á ung börn?

Anna Margrét segir þau systkinin ekki hafa þekkt neitt annað og vissulega hafi þau systkinin gengið í gegnum erfiðleika. 

„En við fengum líka mikla hjálp þegar við vorum lítil frá báðum ömmum og öfum, sem þá voru öll á lífi og við vorum oft mikið hjá þeim. Það var mikill stuðningur af þeim.“

Anna Margrét segir fólk oft spyrja sig hvort ekki hafi verið erfitt að alast upp með móður sem var öryrki og föður sem var andlega veikur. 

„Það gat verið erfitt á stundum. En lífið var líka oft æðislegt, fullt af hlátri, hlýju og húmor. Sem er svo gott veganesti út í lífið,“ bætir Anna Margrét við.

„Þrátt fyrir allt sem foreldrar mínir voru að ganga í gegnum vissi ég alltaf að ég var elskuð og hafði stuðning.“

Þrátt fyrir veikindin var heimilið fullt hlátri og hlýju. Anna Margrét ásamt foreldrum sínum og bróður.

Full baráttuanda

Anna Margrét segir að þrátt fyrir allt hafi mamma hennar alltaf verið jákvæð og full baráttuanda. 

„Það kenndi mér mikið og ég vona að ég hafi erft eða lært þótt ekki sé nema brot af hennar viðhorfi og jákvæðni. Hún kenndi mér að lífið heldur áfram þrátt fyrir áföll og það verði að njóta hversdagslegu hlutanna i lífinu.“

Anna Margrét fór fyrst að átta sig á að eitthvað væri að hjá pabba hennar um 10-11 ára aldurinn. Hún var alltaf mikil pabbastelpa og áttu þau einstakt trúnaðarsamband. 

„Pabbi var lærður húsasmíðameistari, vann mikið og var líka alltaf á fullu í golfi og sundi. Hann hafði alltaf verið mjög virkur, sem hjálpaði honum við að halda góðri andlegri heilsu. 

En á sama tíma og mamma fékk krabbameinið hætti hann að mæta í vinnu og sinna áhugamálum og var þess í stað heima á sloppnum sem mér fannst skrítið. Ég var of ung til að skilja hvað var í raun og veru að.“

Anna Margrét Bjarnadóttir.

Leiðin lá niður eftir krabbann

Síðar frétti Anna Margrét af því að pabbi hennar hefði fengið einhvers konar kast þegar hann var ungur. 

„Hann var þá staddur í sumarbúðum þangað sem hann var sóttur og farið með hann heim. Það var leitað eftir aðstoð fyrir hann og hann jafnaði sig. 

Þetta endurtók sig síðan þegar mamma fékk heilablóðfallið. Ég veit ekki hvað það stóð lengi en það voru einhverjir mánuðir. Hann jafnaði sig og var góður í tíu ár, allt þar til mamma fékk krabbameinið og þurfti að láta fjarlægja bæði brjóst. Þá lá leiðin niður á við en þá var ég farin að átta mig á að eitthvað væri að.”

Anna Margrét er ekki viss um hver langur tími leið þar til faðir henar náði sér á strik en telur það hafa verið um þrjá mánuði. 

„Þá fór hann aftur að vinna, fara í sund og gera flest allt sem hann hafði gert áður.“

Anna Margrét. Mynd/Anna Kristín Scheving

Með fordóma gegn eigin sjúkdómi

Anna Margrét var tvítug og búsett í Danmörku þegar faðir hennar veiktist aftur. 

„Pabbi var þá inn og út af geðdeildum. Honum fannst þetta hræðilegt ástand og var vildi alls ekki vera inni á geðdeild. Hann var sjálfur með mjög mikla fordóma gegn eigin sjúkdómi, og fannst þetta algjörlega ömurleg staða að vera í. 

Hann þoldi ekki læknana, hafnaði allri meðferð, og var alfarið á móti því að vera lagður inn. Enginn lyf virkuðu og hann var þar að auki með ristilvandamál sem háðu honum við að stunda hreyfingu og það pirraði hann afskaplega mikið.“

Eins og fyrr segir var Anna Margrét búsett í Danmörku á þessum árum.

Anna Margrét og Tjörvi með ungana 2009.. Mynd/Tinna Stefánsdottir

Það voru ekki sömu samskiptamöguleikar á árunum fyrir aldamót en hún hélt reglulegu sambandi við föður sinn og móður og aðra fjölskyldumeðlimi í gegnum MSN, sem kalla má fyrsta spjallforritið, svo og í gegnum tölvupóst og bréfaskriftir. 

Haustið 1999 var Anna Margrét að hefja sitt annað ár í háskóla. Þá hafði hún tekið smá hliðarspor og tekið eitt ár í rússneskunámi sem hún hugðist halda áfram í. 

Hafði gert nokkrar tilraunir

„Ég var í skólanum og Tjörvi á fullu í handboltanum en í september þetta ár, 1999, þyrmdi yfir mig. Ég fékk ég þessa yfirþyrmandi tilfinningu að við þyrftum að fara heim. Skólinn sýndi því fullan skilning og Tjörvi líka, sem sagði að ef mér fyndist við þurfa að fara, myndum við að sjálfsögð fara heim.“

Anna Margrét segist hafa verið í eins konar leiðslu þegar hún pakkaði fyrir heimferðina. Og áður en hún vissi voru þau komin til Íslands. 

„Þá áttaði ég mig á hversu veikur pabbi raunverulega var. Það að sjá hann var allt annað en að tala við hann í síma eða fá senda tölvupóst. Hann var miklu veikari en ég hafði gert mér grein fyrir. 

Veikindi pabba blossuðu alltaf upp þegar það voru áföll í fjölskyldunni og það var af nógu að taka. En oftast gat pabbi verið mömmu stoð og stytta í hennar veikindum, og líka okkur systkininum, en það komu líka tímabil sem hann gat það alls ekki.“ 

Smá pása í San Diego þar sem Anna Margrét var stödd á krabbameinsráðstefnu 2018

„Og síðasta árið var spírall niður á við sem hann náði aldrei að spyrna sér upp úr. 

Hann var með miklar sjálfsvígshugsanir og hafði gert nokkrar tilraunir heima til að binda enda á líf sitt þarna um sumarið áður en ég kom heim.“ 

Helga, móðir Önnu Margrétar, var öryrki og með sterk lyf á heimilinu sem faðir hennar reyndi að komast í. 

„Það voru meira að segja fjarlægð bindi af heimilinu. Við systkinin voru flutt að heiman og mamma öryrki en svörin sem við fengum voru alltaf að hann yrði að vera heima.“

Eitthvað óútskýranlegt

Anna Margrét segir stuðning heilbrigðiskerfisins við fjölskylduna hafa verið litinn sem engan. 

„Pabbi var fór öðru hvoru á geðdeild, það voru reyndar samtalsmeðferðir og hin ýmsu lyf en ekkert virkaði. Álagið á mömmu var yfirgengilegt, og reyndar okkur öll. Það fannst enginn leið til að láta honum líða betur.“ 

Anna og Tjörvi í kveðjupartýi sumarið 1998 áður en haldið var á vit ævintýranna í Bjerringbro í Danmörku.

Eins og fyrr segir kom Anna Margrét heim frá Danmörku í september 1999. 

„Ég get ekki útskýrt það en það var eins og einhver eða eitthvað væri að pikka í mig og hvetja til að fara heim.“ 

Stuttu eftir heimkomuna veikist amma Önnu Margrétar, mamma pabba hennar. 

,,Ég sat hjá henni upp á spítala hjá henni og hugsaði að þetta væri ástæðan fyrir að mér var ætlað að koma heim. Og það getur vel verið að það hafi átt sinn þátt, því mér þótti mjög vænt um geta kvatt hana og verið með fjölskyldunni á þessari sorgarstund.“

Amma Önnu Margrétar lést 24. október.  

Arnarholtið endastöð

„Amma var dásamleg og pabbi mjög náinn henni og tók andlát hennar mjög á hann. 

Tveimur mánuðum seinna, upp á dag 24. desember, tókst honum að taka eigið líf.“

„Ég keyrði hann upp á Arnarhold í nóvember, sem þá var geðdeild á Kjalarnesinu. Það var enn eitt úrræðið sem átti að hjálpa honum en hann vildi alls ekki fara og kallaði Arnarholtið ömurlega endastöð þar sem engin læknaðist. 

Ég var að reyna að hvetja hann í heimsóknum, sagði honum að gefa ekki upp vonina og gefa þessu séns.“ 

Anna Margrét

Það er búið að loka Arnarholti núna en það verður seint sagt að það hafi verið huggulegur staður. 

„Mjög kaldranalegur í alla staði,“ segir Anna Margrét. 

„Pabbi hafði kallað Arnarholtið endastöð sem reyndist rétt því hann tók líf sitt í kjallaranum þar á aðfangadag. 

Pabbi var það veikur að ákveðið var að hann yrði á Arnarholti um jólin í stað þess að koma heim.“ 

Aðfangadagur 1999

Anna Margrét og stórfjölskyldan var i sínu hefðbundna jólaboði hjá afa sínum og ömmu þetta aðfangadagskvöld. 

Þau voru að klára hamborgarhrygginn þegar að síminn hringdi og afi hennar fór í annað herbergi að tala. 

„Hann kom inn aftur, sagði ekki neitt, settist við borðið og hélt áfram að borða í smá stund. Þá hefur hann líklega verið að íhuga hvernig hann ætti að segja okkur þetta.“ 

Bók Önnu Margrétar, Tómið eftir sjálfsvíg. Bókakápa mynd/Anna Kristín Scheving

„Fyrst kallaði hann bróður minn inn í herbergi og sagði honum hvað gert hafði, svo kallaði hann á mig og lokaði á eftir sér. Afi vann sem sjúkraliði í mörg ár og var ótrúlega hlý og sterk manneskja. Þarna inni sagði hann að nú yrði ég að vera sterk. 

Hann þurfti ekki að segja meira, ég vissi ég hvað gerst hafði og pabbi væri farinn.“

Bjarni Rögnvaldsson var 46 ára gamall þegar hann lést. 

Get ekki rauð jólakerti

„Afi sagði að nú þyrftum við að segja mömmu þetta sem auðvitað tók þessu mjög illa. 

Ég man hverja mínútu af þessu kvöldi þangað til eftir að við sögðum mömmu. Þá fer allt í móðu. Ég man að það kom prestur en ég man lítið eftir hvað sá sagði. Ég hringdi í Tjörva sem kom strax en við vorum það ung á þessum árum að við borðuðum enn hjá okkar fjölskyldum á aðfangadag.“ 

Tjörvi og Anna – datenight í bakgarðinum, vorið 2020. Krakkarnir elduðu þríréttaða máltíð fyrir foreldrana í byrjun Covid.

Þetta örlagaríka kvöld var síðasta aðfangadagskvöldið sem Anna Margrét og Tjörvi voru aðskilin. 

Anna Margrét man að presturinn vildi að hún og Tjörvi færu til afa hennar, pabba pabba hennar, til að segja honum frá láti sonar síns.

En einhver benti á að það væri furðulegt að senda 22 ára stúlku í slíkt og ætti presturinn að koma með, sem hann og gerði. 

Anna Margrét fór síðan til annarra ættingja þessa jólanótt auk þess að kalla bestu vini sína saman á jóladag.

„Mér fannst afar mikilvægt að tryggja að þau heyrði ekki af látinu annars staðar frá.

Það er margt í móðu en ég man alltaf eftir lyktinni af rauðu jólakertunum. Ég gat ekki komið nálægt svoleiðis kertum í mörg ár, né liljunum sem eru svo oft við jarðarfarir. Lyktirnar vöktu upp of sárar tilfinningar.“ 

Næstu daga datt Anna Margrét í gírinn að hugga aðra og vera sterk fyrir aðra. 

Í kirsuberjablómahafi, sem Washington D.C. er hvað þekktust fyrir

Sá enga aðra leið

Áfallið skall með krafti  á Önnu Margréti í janúar og tóku þau Tjörvi þá ákvörðun að fara í heimsókn til Danmerkur. 

„Við fengum mikinn og góðan stuðning frá vinum okkar þar.“

Annar Margrét þagnar. 

„Ég fæ smá hroll við að rifja þetta upp því ég tala næstum aldrei um þennan tíma.“ 

Anna Margrét útilokar ekki að pabbi hennar hafi verið búin að taka þessa ákvörðun daginn sem hún keyrði hann í Arnarholtið.

Spíralinn var orðinn of djúpur að hann sá enga aðra leið. 

Fjölskyldan heima í Potomac, Maryland, desember 2022. Frá vinstri: Magnús Ernir, Kaiden Ingvar, Anna Margrét, Tjörvi og Ari Már

Grunur um kynferðisofbeldi

„Síðar vaknaði grunur um að hann hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku. En það kom of seint.  Það komu síðar fleiri vísbendingar um að slíkt hefði átt sér stað, en pabbi var farinn.“ 

Anna Margrét segir að í ljós hafi komið að það hafi verið barnaníðingur í Vestmannaeyjum á þeim árum sem pabbi hennar var barn og var það tónlistamaðurinn Bjartmar Guðlaugsson sem opnaði á þá umræðu. 

„Föðurbróðir minn, sem nú er látinn, hringdi einnig í mig á þessum tíma og sagðist halda að pabbi hafi verið einn af þeim sem lentu í honum.

Við vitum þetta ekki fyrir víst en ef svo er, skýrir það ýmislegt enda um að ræða áfall sem aldrei var hægt að vinna úr eða kafa dýpra í. 

Eftir á séð hefði ég viljað að reynt hefði verið að kafa dýpra í þetta. Af hverju krafðist ég ekki að meira yrði gert?“ 

Forseti Íslands bauð Önnu Margréti á Bessastaði þegar bókin kom út vorið 2022 en Elísa Reid, forsetafrú, skrifaði ummæli um bókina sem eru á bókarkápunni

Skrifin heilun

En Anna Margrét segist líka vita að kannski sé hún stundum of hörð við sig. 

„Ég var bara liðlega tvítug þegar ég var í þessum aðstæðum, á allt öðrum stað andlega og ekki með þann þroska sem ég hef í dag. 

Ég sá það best seinna hvað ég hafði til dæmis miklu meiri þroska og lífsreynslu þegar ég var síðar að hjálpa mömmu í gegnum sitt krabbamein. 

Þá var ég orðin meðvituð um að ég þyrfti að setja mig inn aðstæður og fylgja hlutunum eftir.“

Anna Margrét segir skrif bókarinnar hafi hjálpað sér við að fara aftur inn i allar þessar erfiðu tilfinningar en hún missti móður sína árið 2014.

„Það hefur verið mikil heilun við að skrifa. Það byrjaði með minningargreininni þar sem ég sagði hreinskilnislega að pabbi hefði látist úr andlegum veikindum.“

„Mér fannst mikilvægt að það kæmi fram og ég fékk mikil viðbrögð og fólk var mér þakklátt fyrir að hafa sagt þetta beint út. 

Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, en slík hreinskilni var óvenjuleg árið 1999 en vonandi erum við komin á annan stað í dag.

Eftir að skrifa minningargreinina settist ég niður og skrifaði um þetta kvöld, og mánuðina þar á undan, bara fyrir sjálfa mig og það hjálpaði mér mikið.“

Sorgin er ekki sett upp í hillu

Anna Margrét segir það hafa verið heilun að skrifa bókina. Að taka viðtöl við aðra sem höfðu gengið i gegnum svipaða reynslu. 

„Þetta voru ekki bara viðtöl, við vorum að deila erfiðri reynslu og tilfinningum í djúpum og innilegum samræðum sem mér fannst afar mikilvægt.

Hvert einasta viðtal var ákveðin vegferð í mínu sorgarferli líka. Kannski vonaði ég að ég gæti skrifað mig frá sorginni og sett svo sorgina upp í hillu en auðvitað er það ekki þannig,“ segir Anna Margrét og brosir.  

,,Ég lærði margt við gerð bókarinnar, meðal annars að leyfa tilfinningunum sem ég hafði bælt svo lengi að koma aftur.  Ég kom líka auga á nýja hluti í mínu sorgarferli af völdum missis með því að taka viðtölin.“

Að því kemur að hnefinn gefur sig

Anna Margrét sagðist aldrei hafa verið reið föður sínum. Margir hafi spurt og hafi hún alltaf neitað. 

„Og það var að vissu leyti rétt. En í bókaskriftunum tengdist ég nýjum tilfinningum og fór í fyrsta skipti af einhverri alvöru til sálfræðings, sem spurði mig hreint út hvort ég hefði aldrei reiðst. 

Það var afar djúpt á þeim tilfinningum, ég hafði grafið þær til fjölda ára, en ég varð loksins að viðurkenna að það var brot af reiði til staðar. Og þurfti að fyrirgefa bæði sjálfum mér og honum.“

Annað sem Anna Margrét uppgötvaði í ferlinu var að hún hafði alltaf verð áfram gakk og keyrt áfram á hnefanum. 

„Ég var með fjölskyldu, ung börn og og í tveimur vinnum á sama tíma og ég var að ganga í gegnum þennan hræðilega missi og orðin foreldralaus fyrir fertugt. Ég hélt bara stanslaust áfram á jákvæðninni og ákveðninni en að því kemur að hnefinn gefur sig.“ 

Börn Önnu Margrétar Tjörva lítil og krúttaraleg þegar þau bjuggu í Danmörku.

Stór ákvörðun

Anna Margrét segist hafa lært að það sé allt í lagi að staldra við og veita sjálfum sér mildi og skilning. 

„Það var stór ákvörðun að þora að vera viðkvæm og finna hugrekkið til að fara inn í þessar tilfinningar og skrifa svona rosalega persónulega bók þar sem ég berskjalda tilfinningar mínar.“

Anna Margrét segist oft hafa efast um að hvort hún væri að gera rétt. 

„Eftir að ég missti mömmu úr krabbameini sló það mig líka svo svakalega hversu mikill munur er að missa foreldri annars vegar úr krabbameini og hins vegar af völdum andlegs sjúkdóms. 

Það er svo falleg aðstaða á krabbameinsdeildinni og það er tekið svo vel utan um þig þegar þú ert að ganga í gegnum að missa aðstandenda úr krabbameini. Það er svo faglegt og fallegt.“ 

Anna Margrét

Enginn sorgarstuðningur

Hún segir það hafa vakið upp hjá sér reiði. 

„Af hverju var utanumhaldið um pabbi ekki fallegra og faglegra? Af hverju var ekki sá stuðningur ég fann á krabbameinsdeildinni. 

Það eru úrræði í kerfinu en mesta stuðninginn er oft að finna hjá frjálsum félagasamtökum.” 

Hún segir til dæmis engan sorgarstuðning eftir sjálfsvíg til staðar í kerfinu, enga samræmda ferla og ekkert sem grípi fólk í þessum erfiðu aðstæðum. 

„Það var sammerkt hjá öllum mínum viðmælendum að þeir hefðu viljað hafa einhvern markvissan stuðning. En þú þarft að leita eftir honum sjálfur, þrátt fyrir að vera ekki í neinu standi til þess, og oft þarft þú að borga það úr eigin vasa. 

Ég veit að landlæknisembættið er að vinna að aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum en það vantar sárlega starfsfólk, samræmdar aðgerðaráætlanir en fyrst og fremst fjármagn.“

Anna og Kaiden Ingvar stuttu eftir legnámsaðgerð í þessari viku. Fjórða aðgerðin tengt BRCA, sú fyrsta í Ameríku.

Við verðum að gera betur

Anna Margrét tekur dæmi af einum viðmælanda sinna.

„Það var kona sem kom að eiginmanni sínum sem hafði tekið eigið líf. Hún fékk engan markvissan stuðning. Nokkrum dögum síðar var hún að hlusta á útvarpið og heyrði að rúta hefði farið út af vegi og var öllum farþegum boðið áfallahjálp. 

Hún sat ein heima, nýbúin að upplifa mesta áfall lífs síns en enginn bauð henni áfallahjálp. 

Af hverju er ekki litið á geðheilsumál eins og önnur lýðheilsumál? Af hverju er ekki fjármagn sett í að fjölga starfsfólki, bæta aðstöðu geðdeilda og gera allt sem þarf að gera? 

Við verðum að gera betur,“ segir Anna Margrét Bjarnadóttir, rithöfundur. 

 

Instagram síða Önnu Margrétar: @annabdottir

Ljósmyndir og tilvitnanir úr bókinni má finna hér.

Bók Önnu Margrétar má meðal annars fá hjá Sorgarmiðstöðinni

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Að baki brosinu – Hvað vitum við um eiginkonu einræðisherra Norður-Kóreu, Ri Sol-ju?

Að baki brosinu – Hvað vitum við um eiginkonu einræðisherra Norður-Kóreu, Ri Sol-ju?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gátan um Cindy sem var ofsótt af eltihrelli í sjö ár og dó hræðilegum dauðdaga – En hvað var satt og hverju var logið?

Gátan um Cindy sem var ofsótt af eltihrelli í sjö ár og dó hræðilegum dauðdaga – En hvað var satt og hverju var logið?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gwyneth Paltrow fyrir dóm vegna skíðaslyss – Dómari neitaði óvenjulegri beiðni og lögmaður biðst afsökunar á því að vera rasshaus

Gwyneth Paltrow fyrir dóm vegna skíðaslyss – Dómari neitaði óvenjulegri beiðni og lögmaður biðst afsökunar á því að vera rasshaus
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hljómsveitin er í raun saumaklúbbur sem vatt upp á sig“

„Hljómsveitin er í raun saumaklúbbur sem vatt upp á sig“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gisele Bündchen opnaði sig um skilnaðinn – Tom Brady birti í kjölfarið óræð skilaboð

Gisele Bündchen opnaði sig um skilnaðinn – Tom Brady birti í kjölfarið óræð skilaboð
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kósí stemning við Kvíslartungu

Kósí stemning við Kvíslartungu