Enn og aftur hefur Harry Bretaprins tekist að vekja athygli, að þessu sinni fyrir talsmáta sem þykir hafa farið nokkuð yfir strikið. Í nýjustu heimildarþáttunum hans – Heart of Invictus, má heyra prinsinn hjóla í fjölskyldu sína, en þættirnir fjalla um íþróttamót sem Harry setti á laggirnar fyrir fólk sem glímir við varanlegar afleiðingar af dvöl sinni í hernum.
Þar heyrist prinsinn ræða um andlát móður sinnar, Díönnu prinsessu og segir hann að enginn í kringum hann hafi veitt honum stuðning í gegnum þann erfiða tíma.
„Eftir að hafa misst móður mína svona ungur, þá var ég ekki meðvitaður um það mikla áfall sem ég bar á bakinu. Þetta var bara aldrei rætt. Ég talaði í raun aldrei um þetta og bældi tilfinningarnar niður eins og flest ungmenni gera. En svo þegar þetta sauð allt upp úr þá tók þetta öll völd. Ég hugsaði: Hvað er eiginlega að gerast hér? Ég er byrjaður að finna fyrir tilfinningum í staðinn fyrir að vera dofinn. Það erfiðasta var að það var enginn til staðar til að leiðbeina mér í gegnum þetta. Ég hafði ekkert stuðningsnet, ekkert kerfi og engar ráðleggingar frá sérfróðum til að hjálpa mér að sjá hvað væri í gangi. Því miður, eins og fyrir okkur flest, þá íhugar maður ekki sálfræðimeðferð fyrr en maður finnur sig í fósturstellingunni á gólfinu og áttar sig þá á því að það hefði verið mun betra að takast á við þetta fyrr.“
Harry lýsir því sem svo að eftir að móðir hans lést hafi hann orðið kaldur: „Ég var tilfinningalaus. Ég gat ekki grátið og ég fann ekkert. Ég vissi það samt ekki þá, það var ekki fyrr en síðar, 28 ára þegar atburðir áttu sér stað sem hleyptu fyrstu loftbólunum upp á yfirborðið.“
Hann heyrist svo ítrekað blóta í þáttunum, sem prinsar eru nú ekki þekktir fyrir að gera. Hann gagnrýnir eins fjölmiðla í Bretlandi fyrir að hafa ekkert fjallað um þá fjölmörgu einstaklinga sem buðu skaða í stríðinu í Afganistan. Hann hafi verið í hernum á þeim tíma og séð hrottalega hluti, svo sem fallna félaga sem lágu í bútum. Harry segir að hann hafi fengið leyfi til að fara til Afganistan svo lengi sem því yrðið haldið leyndu. Fjölmiðlar hafi lofað öllu fögru en eftir rúmlega tvo mánuði misstu þeir þolinmæðina og miðillinn Drudge birti frétt um „stríðshetjuna Harry“.
„Þegar ég settist upp í flugvélina á leiðinni heim var ég reiður yfir því sem hafði komið fyrir þessa drengi og ég var reiður yfir því að fjölmiðlar virtu þetta að vettugi. Á þessum tíma sá ég skýrt hvað þurfti að gera. Ég var þarna í 10 vikur, en enginn vissi það nema breskir fjölmiðlar sem lofuðu að halda sér saman svo lengi sem þeir fengju svo aðgang að mér. Svo á leiðinni heim var ég reiður. En það reyndist þó mikilvægt fyrir alla í kringum mig og þeirra öryggi að ég var sendur heim.“
Þarna hafi Harry áttað sig á því að það væri köllun hans í lífinu að aðstoða hermenn sem glíma nú við fötlun sökum meiðsla sem þeir hlutu í hernum.
Þættirnir og prinsinn hafa þó fengið yfir sig töluverða gagnrýni. Þykir mörgum að prinsinn sé þarna að nota fatlaða hermenn til að vekja athygli á sjálfum sér og þar að auki hafi hann blandað málefnum fjölskyldu sinnar inn í þættina, sem komi þessu íþróttamóti ekkert við. Þarna hafi prinsinn bara fundið enn eitt vettvanginn til að barma sér yfir því hversu erfitt það er að vera prins.
Að vanda hafa breskir miðlar tætt þættina í sig það sem af er degi. The Sun hefur til dæmis birt umfangsmikla greiningu á meintum rangfærslum prinsins. Til dæmis hafi hann sjálfur sagt árið 2017 að það hafi verið bróðir hans, Vilhjálmur Bretaprins, sem hvatti hann til að leita til sálfræðings. Við sama tilefni sagði Harry sérstaklega að Vilhjálmur hefði verið ómetanlegur stuðningur.
„Hann sagði ítrekað að þetta væri ekki í lagi, þetta væri ekki eðlilegt og að ég þyrfti að tala við einhvern og það væri í góðu lagi,“ sagði Harry í viðtali árið 2017. Eins hafi það komið fram að Harry hafi sjálfur neitað aðstoð sem honum bauðst.