Birkir Vagn Ómarsson, íþróttafræðingur og einkaþjálfari segist ekki sjá eftir að hafa boðið upp á líkamsræktartíma þegar Covid faraldurinn stóð sem hæst.
Birkir, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, fékk símtöl frá lögreglu og endaði í fjölmiðlum þegar faraldurinn stóð sem hæst. Hann segir daginn sem fréttir birtust ekki hafa verið skemmtilegan, en hann sjái ekki eftir neinu.
„Ég bauð upp á tíma utandyra og í litlum lokuðum hópum og sé ekkert eftir því. Ég veit að margir í minni stöðu hefðu viljað gera það sama á þessum tíma, en það var mikill hiti í umræðunni. Dagurinn sem þetta kom í fréttunum var ekkert skemmtilegur, en fólk skráði sig í þjálfunina og ég fékk mikið af skilaboðum frá fólki sem hrósaði mér fyrir að þora að gera þetta. Ég var bara í þeirri stöðu að vera með tvö börn og geta ekki verið tekjulaus endalaust. Þeir sem unnu hjá hinu opinbera á þessum tíma fannst mér oft ekki alveg skilja stöðu þeirra sem fengu engin laun ef þeir mættu ekki í vinnuna. Ég auglýsti þetta í lokuðum hópi, en það var einhver sem ákvað að taka skjáskot og senda á blaðamann Vísis. Þegar blaðamaðurinn hringdi átti ég alls ekki von á því og var bara kominn í viðtal án þess að geta undirbúið mig neitt. Ég svaraði bara spurningunum, en púlsinn var líklega um 180. Þessi dagur var ekki skemmtilegur, en ég hélt bara áfram. En svo gerðist það skömmu síðar að lögreglan hringdi í mig af því að ég var með æfingar í bílakjallara og spurði mig hvort ég ætlaði ekki að hætta þessu. En ég sagði bara nei og ræddi við lögregluna líklega í 40 mínútur. Kærastan mín var við hliðina á mér og þegar hún spurði hver hefði verið í símanum sagði ég: „Þetta var lögreglan að hóta að koma að handtaka mig niðri í bílakjallara. Ég sagði þeim að þeir mættu alveg koma að handtaka mig, en það væri æfing á morgun!“ En svo gerðist ekki neitt, enda held ég að starfsmenn lögreglunnar hafi ekki viljað vera að vesenast í fólki sem var bara að gera það besta úr stöðunni,“ segir Birkir og heldur áfram:
„Þetta var skrýtinn tími, en þegar rykið er sest hefur komið í ljós að það sem virtist virka einna best gegn Covid var að lifa heilsusamlegu lífi. Ég held að það sjái margir þennan tíma í aðeins öðru ljósi núna en þegar þetta var allt saman í hámarki. En sem betur fer er þetta búið og kemur vonandi ekki aftur.“
Birkir, sem er menntaður íþróttafræðingur og einkaþjálfari hefur undanfarin ár boðið upp á svokallaða MGT þjálfun sem hefur notið mikilla vinsælda, þar sem fólk æfir saman í hópum:
„Ég var í fótbolta þegar ég var yngri og ég fann að mig vantaði alltaf hópeflið eftir að ég hætti í boltanum. Það var ekki nóg að vera bara með heyrnartól einn í „gymminu“. Þannig að ég fór í bootcamp og varð strax ástfanginn af því. Það var auðvitað mikil harka á æfingunum hjá þeim og enginn afsláttur gefinn, en stemningin í hópnum var alveg frábær. Ég fór smám saman að þjálfa hjá þeim sem einkaþjálfari, en eftir að námið mitt í íþróttafræðinni var búið varð ég að finna mér fulla vinnu og þá var líka botninn aðeins dottinn úr „bootcampinu“ í Elliðaárdalnum. Eftir að hafa unnið um tíma hjá World Class ákvað ég að bjóða upp á þjálfun fyrir 15 manna hópa og það gekk mjög vel. Smám saman þróaði ég æfingakerfið mitt, MGT, sem er sambland af alls kyns æfingum, en mikil áhersla á ákefð og keyrslu. Ég legg líka mikið upp úr fjölbreytni og að breyta til. Það er aldrei sama æfingin og það er fólk sem hefur mætt til mín í 7 ár og hefur aldrei tekið nákvæmlega sömu æfinguna,“ segir Birkir, sem segist leggja mikið upp úr félagslega þættinum.
„Það hafa orðið til ástarsambönd í gegnum þjálfunina hjá mér og það eru allavega komin tvö börn í heiminn sem eru bein afleiðing af því að fólk hefur kynnst í þjálfuninni hjá mér. Félagslegi þátturinn er mjög mikilvægur og bætir alveg nýrri vídd í æfingarnar. Annað sem gerist líka þegar fólk æfir saman í hópum er að það fer að veita hvoru öðru aðhald fyrir utan tímana. Fólk fer að bera saman bækur sínar um svefn, næringu og annað sem snýr að heilsu og á endanum færðu miklu meira út úr æfingunum en ef þú ert bara einn í líkamsræktarsalnum.“
Í þættinum ræða Sölvi og Birkir Vagn um allt sem snýr að heilsu og sjálfur segir Birkir fátt jafnast á við að fara í sjósund.
„Sjórinn gerir svo margt fyrir mig. Það er eitthvað við að finna fyrir náttúrunni og vera í Atlantshafinu sem er erfitt að útskýra. Þó að það sé frábært að fara í kalda potta jafnast það ekki á við sjósundið. Það er þetta afl sem er í sjónum sem er einhvern vegin óútskýranlegt. Ég fer allan ársins hring alveg sama hvað sjórinn er kaldur. Reglan mín er að fara aldrei upp úr á meðan ég er í kuldasjokkinu, heldur ná alltaf andanum rólegum og fljóta aðeins á bakinu. Líka yfir háveturinn. Það er ágætis regla að vera jafnmargar mínútur í sjónum eins og gráðurnar á hitastigi sjávar. Það er eins og með annað að maður æfir þetta hægt og rólega upp, en það kemur einhver algjör slökun yfir mann þegar maður nær að fara í sjóinn og slaka á í kuldanum.“
Hægt er að nálgast viðtalið við Birki og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is