Camila er gift leikaranum Matthew McConaughey. Þau byrjuðu saman árið 2006 og gengu í það heilaga árið 2012. Þau eiga saman þrjú börn.
Móðir Matthew, Mary Kathlene McCabe, er kölluð Kay.
Í hlaðvarpinu Southern Living‘s Biscuits & Jam greinir Camila frá stirðum samskiptum þeirra fyrstu árin eftir að hún og Matthew byrjuðu saman.
„Hún gerði alls konar hluti þegar við byrjuðum saman. Hún var virkilega að reyna á þolrif mín, alveg virkilega,“ segir hún.
„Hún kallaði mig nöfnum fyrrverandi kærastna Matthew. Hún talaði við mig á spænsku með mjög lélegum hreim. Hún var að gera lítið úr mér, hún gerði alls konar hluti.“
Camila lýsir atburðarásinni sem varð til þess að Kay samþykkti hana loksins sem hluta af fjölskyldunni.
Fyrirsætan flaug tengdamóður sína til Istanbúl, en þar var hún að sinna fyrirsætuverkefni. Ýmislegt gekk á og eftir stormasamt kvöld ákvað Camila að þegja ekki lengur.
„Ég lét hana heyra það og við rifumst fram og til baka,“ segir hún.
„Hún horfði á mig og sagði: „Ókei, núna ertu hluti af fjölskyldunni.“ Það var það sem hún vildi, að ég myndi berjast á móti.“
Matthew lokaði á móður sína í átta ár, þar til árið 2020, eftir að hún lak síendurtekið samskiptum þeirra til fjölmiðla.
„Ég var að tala við hana og skyndilega var það samtal í fjölmiðlum þremur dögum seinna,“ sagði hann í útvarpsþætti Howard Stern árið 2020.