Fyrir tveimur árum var fyrirtækið sakað um að selja vörur frá Ali Express sem eigin hönnum en eigandi Metta Sport, Pétur Kiernan, vísaði því alfarið á bug.
Á heimasíðu Metta Sport kemur fram að „Metta er íslenskt lífsstílsmerki sem einsetur sér að bæta daglegt líf fólks með hagkvæmum og vönduðum klæðnaði.“
Lífsstílsmerkið kom eins og stormsveipur á íslenskan markað íþróttaklæðnaðar árið 2021. Margir vinsælir áhrifavaldar hafa auglýst fyrirtækið á samfélagsmiðlum, svo sem leikkonan Kristín Pétursdóttir, Sunneva Einarsdóttir, fjölmiðlakonan Birna María Másdóttir, plötusnúðurinn Dóra Júlía, rappararnir Aron Can og Flóni og World Class-erfinginn Björn Boði. Fyrirtækið opnaði fyrstu verslun sína í janúar á þessu ári.
Nú er fyrirtækið sakað um að kaupa vörur frá fatamerkinu Los Angeles Apparel og merkja síðan flíkurnar með vörumerki Metta Sport.
Viðskiptavinur vakti athygli á þessu í vinsæla Facebook-hópnum Beauty Tips og birti mynd máli sínu til stuðnings.
„Var að komast að því að Metta Sport kaupir fötin sín erlendis frá Los Angeles Apparel, klippir svo miðana af sem eru merktir því fyrirtæki og láta svo merkja flíkurnar hjá Bros. Er þetta almenn vitneskja, eða? Finnst frekar fúlt að vera að kaupa hettupeysur frá þeim á 17 þúsund krónur þegar þau hanna ekki einu sinni peysuna,“ sagði viðskiptavinurinn.
„Þetta er nákvæmlega sama flíkin, ef þú átt einhverja flík úr til dæmis Core collection frá þeim er hægt að sjá restina af miðanum sem þau klipptu af ennþá í henni. Er pínu fúl yfir því að hafa verið að versla rándýrar flíkur þarna þegar það eina sem þau gera er að panta erlendis frá og merkja með sínu lógói.“
Konan, sem kom fram í skjóli nafnleyndar, deildi hlekkjum á aðrar vörur sem hún telur Metta Sport hafa keypt frá Los Angeles Apparel. Eins og hettupeysuna Metta Hoodie (hér má sjá peysuna frá Los Angeles Apparel og hér frá Metta sport). Eða buxurnar Metta Core Straight Leg Sweatpants (linkur á Los Angeles Apparel og linkur á Metta Sport).
DV reyndi að hafa samband við Metta Sport án árangurs og hefur sent fyrirspurn til fyrirtækisins vegna málsins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækið er gagnrýnt og sakað um slíka viðskiptahætti.
Í september 2021 fjallaði DV um ásakanir á hendur Metta Sport ehf., um að fyrirtækið væri að selja vörur frá Ali Express sem eigin hönnun.
Pétur Kiernan, eigandi Metta Sport ehf., þvertók á þeim tíma fyrir að Metta verslaði vörur á Ali Express og sagðist kaupa frá erlendum birgja, sem virðist einnig selja öðrum.
Við færsluna myndaðist umræða um Ali Express-málið og hafði viðskiptavinurinn sem vakti fyrst athygli á málinu þetta að segja:
„Mér finnst þetta sjúklega leiðinlegt þar sem ég hef verið að verja þetta fyrirtæki gegn þessum ásökunum í hvert skipti sem einhver [hefur sagt eitthvað um] það. En ég er eiginlega komin á þann stað að ég ætla ekki að versla þarna lengur. Finnst þetta fáránlegt. Er búin að vera að skoða á Ali Express flíkur og bera þær saman við þær sem ég á nú þegar og þetta er bara nákvæmlega sama flíkin.“