Rapparinn og samfélagsmiðlastjarnan Claire Eileen Qi Hope, betur þekkt sem Lil Tay, er látin samkvæmt tilkynningu sem birtist á Instagram-síðu hennar í gær. Ekki er öruggt hversu gömul hún var, en flestir greina frá því að hún hafi verið 14 ára og fædd árið 2009, en samkvæmt föður hennar fæddist hún þó í júlí árið 2007 og var því orðin 16 ára.
Sagði í tilkynningu:
„Það er með þungum hug sem við deilum þeim hryllilegum tíðindum um hörmulegt og óvænt andlát okkar ástkæru Claire. Við eigum ekki réttu orðin til að tjá þennan óbærilega missi og ólýsanlegan sársaukann. Þessar aðstæður voru með öllu óvæntar og við erum öll í áfalli. Andlát bróður hennar bætir svo enn á þessa óhugsandi sorg. Á þessum sorgartíma biðjum við um næði á meðan við tökumst á við þennan yfirþyrmandi missi þar sem aðstæður í kringum andlát Claire og bróður hennar eru enn til rannsóknar. Claire mun að eilífu eiga sér stað í hjarta okkar og skilur hún eftir sig skarð sem aldrei verður hægt að fylla og allir sem þekktu og elskuðu hennar munu finna fyrir.“
Lil Tay birti seinast færslu á Instagram í júní árið 2018 en hún sló í gegn aðeins 9 ára gömul og varð þekkt fyrir að vera kjaftfor rappari sem montaði sig af lúxusbifreiðum sínum og sagðist drottna yfir Los Angeles. Aðrir vinsælir rapparar voru fljótir að grípa tækifærið til að fá svona unga ákveðna stjörnu með sér í lið og vann hún meðal annars með Chief Keef og XXXTentacion sem hún sagði hafa gengið sér í föðurstað.
Hún hvarf svo af Internetinu fyrir fimm árum síðar eftir að hún varð skyndilega miðpunkturinn í harðri forsjárdeilu foreldra sinna. Í júní 2018 var öllum færslum eytt af Instagram-síðu hennar og ný færsla birt þar sem stóð – Bjargið mér. Síðar birtust ásakanir í garð föður hennar um ofbeldi, en faðir hennar var sakaður um að hafa neytt hana til að snúa aftur til Kanada svo hann gæti hagnast af frægð hennar. Talsmaður hennar á þeim tíma – Harry Tsang – sagði síðar að Instagram-síðu hennar hafi verið rænt af hökkurum og ásakanirnar með öllu tilhæfulausar.
Lil Tay sagði síðar í viðtali við Daily Beast að hún væri í slæmum aðstæðum og vildi ekki tjá sig um þær. Faðir hennar hafi lagt fram kröfur fyrir dómstólum til að neyða hana og móður hennar til að snúa aftur til Kanada og haldið því fram að dóttir hans væri í hættu. Rétt er að taka fram að móðir hennar var með henni í viðtalinu
„Hann var að hóta okkur handtöku – að mamma yrði handtekinn ef við kæmum ekki til baka. Ég hef ekki séð hann í nokkur ár. Hann hitti mig ekki í svo langan tíma og það er augljóst að núna hefur hann bara komið til baka því hann vill peninga.“
Nú hefur því verið velt upp hvort að eitthvað áþekkt sé nú á ferðinni og Lil Tay í raun ekki dáin.
Aðili sem kveðst vera fyrrverandi umboðsmaður stjörnunnar ungu setur spurningarmerki við meint andlát hennar.
„Eitt sem vekur upp spurningar – hver birti þessa yfirlýsingu og hvers vegna er hún ekki undirrituð af neinum úr fjölskyldu hennar,“ velti þessi aðili, sem kýs að koma fram í skjóli nafnleyndar, fyrir sér við US Sun. „Hvers vegna er þetta ekki undirritað af t.d. móður Tay eða föður, eða frá formlegum talsmanni? Hvers vegna er ekkert annað með þessu?“
Þetta væri einkum furðulegt í ljósi þess að samhliða hafi verið tilkynnt að bróðir Tay væri látinn. „Ég ætti að vera að syrgja núna en ég hef bara svo margir spurningar.“
Harry Tsang fyrrum talsmaður Tay segist enn eiga í samskiptum við fólk sem stendur stjörnunni nærri. Honum hafi ekki tekist að fá andlátið staðfest.
„Ég hef verið í samskiptum við einstaklinga sem hafa náin tengsl við fjölskylduna. Þar sem aðstæður eru mjög flóknar er ég nú staddur á þeim stað að geta hvorki staðfest yfirlýsingu fjölskyldunnar, né neitað henni.“
Fjölmiðlar hafa leitað eftir staðfestingu hjá föður Tay, Chris Hope, en hann vildi ekki staðfesta hvort að dóttir hans væri látin. Eins hefur lögreglan engar upplýsingar um þessa meintu rannsókn sem á að vera í gangi á andláti hennar, hvorki lögreglan í Vancouver þar sem faðir stjörnunnar býr, eða lögreglan í Los Angeles þar sem móðir hennar býr.
Lil Tay byrjaði fyrst að birta færslur og myndbönd á Instagram og YouTube árið 2017 og árið 2018 hafði hún vakið gífurlega athygli og fór það ekki framhjá umboðsmönnum sem töldu sig geta gert hana enn stærri. Þegar þeir reyndu þó að hafa samband við hana fengu þeir svör frá bróður hennar, Jason Tian, sem þá var 16 ára. Tay var nefnilega aðeins 9 ára og mátti ekki vera á YouTube samkvæmt reglum miðilsins.
Jason sem er hálfbróðir Tay mun hafa verið með Internetið á heilanum og ætlað sér þar stóra hluti. Hins vegar hafi honum ekki verið vel tekið og sá hann því nýtt tækifæri í ungri systur sinni. Jason var heilinn á bak við frægðina. Hann sagði Tay hvað hún ætti að segja og hvernig, en litlu stúlkunni dreymdi um að vera leikkona og vildi ólm standa sig vel.
Móðir þeirra var svo fasteignasali sem kom sér vel, en hún leyfði þeim að taka upp myndböndin í glæsilegum eignum sem hún hafði til sölumeðferðar. Allt gekk upp. Lil Tay var ekki lengur 9 ára stúlkan Claire, heldur vörumerki, vörumerki sem var hægt að meta til fjár. Jason réði samt öllu. Þau flökkuðu á milli umboðsmanna, fengu vegleg boð um samstarfssamninga og auglýsingatekjur, en Jason þverneitaði. Einn aðili sem vann með fjölskyldunni á þessum tíma sagði það hafa verið óskynsamlega ákvörðun að leyfa 16 ára unglingi sem var með frægðina á heilanum, taka allar ákvarðanir. Unglingi sem á sama tíma vissi ekkert um skemmtanabransann. Eftir aðeins um þriggja mánaða ofurfrægð hvarf Lil Tay svo af sjónarsviðinu.
Samkvæmt umfjöllun The Cut má rekja það til þess að faðir Tay frétti af frægð hennar. Chris Hope býr í Kanada, en þar bjó dóttir hans þar til móðir hennar tók hana með sér til Bandaríkjanna. Foreldrarnir voru með sameiginlega forsjá en móðirin, Angela, hafði lögheimilið. Eftir að Tay vakti fyrst athygli á Internetinu vildi Angela fylgja þessu eftir og flytja með dóttur þeirra til Bandaríkjanna til að gera hana að stjörnu. Hún óskaði eftir samþykki Chris fyrir ferðalaginu og sagðist aðeins ætla að dvelja í Los Angeles í nokkra daga. Chris samþykkti en aldrei komu mæðgurnar aftur heim.
Hann leitaði því til dómstóla og krafðist þess að Angelu yrði gert skylt að snúa til baka með dóttur þeirra og að samfélagsmiðlum hennar yrði lokað.
Tay var þó ekki kát með að skilja frægðina eftir. Chris samþykkti að hún færi til baka ef hún fengi sér atvinnuleyfi, ef hún fengi sér fastan umboðsmann og að hluti tekna hennar yrði settur til hliðar fyrir framtíð hennar. Á meðan var Jason ekki ánægður með að vera ýtt til hliðar og móðir þeirra ekki svo kát með að hafa ekki fulla stjórn á aðstæðum. Því fór svo að forsjármál var höfðað þar sem Chris og Angela tókust á. Á meðan þyrfti Tay að vera í heimakennslu þar sem hún var of fræg til að ganga í venjulegan skóla. Jason reyndi að hefna sín með því að birta falskar ásakanir í garð Chris á samfélagsmiðlum sem varð til þess að Chris og vinnustaður hans urðu fyrir grófu netníði og einelti.
Svo fór á endanum að Chris fékk fullt forræði en þá hafði hann skipt um skoðun og taldi best fyrir dóttur sína og hennar framtíð, að hún kæmi ekki nálægt samfélagsmiðlum fyrr en hún verður 18 ára. Angela er enn að berjast fyrir forsjá og umgengni en mun ekki hafa haft erindi sem erfiði.
Því telja margir að dánartilkynningin sé í raun útspil frá bróður Tay og jafnvel móður líka. Þetta sé tilraun til að koma Tay aftur á kortið og halda áfram þar sem frá var horfið. Í ljósi þess að Chris vill ekkert tjá sig um meint andlát dóttur sinnar hefur þessi kenning fengið byr undir báða vængi, enda ekki í fyrsta sinn sem ósannindum er hent fram á Instagram-síðu hennar. Eins hefur aðili sem segist vera Jason verið að tjá sig á samfélagsmiðlum og segir dánartilkynninguna koma frá foreldrum þeirra sem séu að reyna að hafa þau að féþúfu. Tay hafi verið beitt ofbeldi en þau séu að vinna í því að fá hana lýsta sjálfráða svo þau geti losnað undan foreldrum sínum, á sama tíma segist hann ætla að koma með frekari upplýsingar og jafnvel fara í beina útsendingu til að sanna á sér deili – ef fleiri en 25 þúsund netverjar gerast fylgjendur hans. Netverjum hefur þótt þetta grunsamlegt og benda til þess að Jason sé með eitthvað upp í erminni og ætli sér sem áður stóra hluti með litlu systur sína.
Því verður bið á því að hægt sé að fullyrða að Lil Tay sé dáin og margt sem bendir til þess að hún sé enn, líkt og þegar hún var 9 ára, fórnarlamb aðstæðna, deilna foreldra og drauma annarra og frægð.