Yesmine Olsson, eigandi veitingastaðarins Funky Bhangra, matreiðslubókahöfundur og dansari með meiru varð fimmtug 4. júlí. Yesmine fagnaði stórafmælinu og bauð vinum og vandamönnum á alvöru hlöðuball á sveitabæ tengdaforeldra sinna nálægt Hellu.
Fjöldi tónlistarmanna landsins er í vinahópi Yesmine og var mikið um söng og tónlist í afmælinu. Eiginmaður Yesmine er tónlistarmaðurinn Arngrímur Fannar Haraldsson, Addi Fannar í Skítamórall, og sáu hann og nokkrir félaga hans í hljómsveitinni um að fá gesti á dansgólfið. Ljósmyndarinn Mummi Lú festi stórafmælið á filmu.
Boðið var upp á veitingar frá veitingastað Yesmine, en staðurinn er í Pósthús Mathöll í miðbæ Reykjavíkur. Sólin var með veislubarninu í liði og bauð upp á brakandi blíðu, gestir skemmtu sér konungalega fram á nótt með samveru, söng og dansi.