Stundum er betra að hugsa áður en maður talar. Þessu fékk kona nokkur að kynnast þegar hún keppti í þættinum Hver vill verða milljónamæringur, á ögurstund.
Vassiliki Yiannoulis var keppandi bandarísku þáttanna árið 2004. Henni tókst leikandi létt að komast í gegnum fyrstu sex spurningarnar og kvöldið leit vel út hjá henni. Þá var hún spurð um þekktan morgunverðarrétt sem seldur var á veitingastaðakeðjunni vinsælu Denny’s en rétturinn dró nafn sitt frá hugtaki sem notað er í íþróttum.
Möguleikarnir hennar voru:
a. Slam dunk
b. Touchdown
c. Knockout
d. Grand slam
Vassiliki hikaði ekki og valdi fyrsta valmöguleikann og tilkynnti að þetta væri hennar lokasvar, en hún hafði varla sleppt orðinu þegar hún áttaði sig á mistökum sínum. Hún hafði meint seinasta valkostinn – Grand slam.
Hún reyndi að leiðrétta sig, en það var of seint.
Í sömu þáttum árið 1999, þegar vinningarnir voru enn hærri, vakti það athygli þegar tölfræði sérfræðingurnn Toby Moore lenti í vandræðum eftir að hafa svarað 13 spurningum rétt í röð. Hann hafði unnið sér inn 34 milljónir en átti möguleikann á að tvöfalda vinninginn ef hann gæti svarað næstu spurningu sem fjallaði um vinsæla spilaleikinn Pokemon. Var Toby beðinn um að svara því til hver valmöguleikanna væri ekki Pokémon-skrímsli.
Möguleikarnir voru eftirfarandi:
a. Jigglypuff
b. Frodo
c. Squirtle
d. Pikachu
Toby notaði eitt af hjálpartólum sem keppendum bauðst, 50:50 þar sem valmöguleikum var fækkað niður í tvo. Eftir stóðu Jigglypuff og Frodo.
Toby hugsaði sig um nokkrar mínútur og ákvað svo að taka ekki áhættuna heldur láta sér nægja það sem hann hafði þegar unnið sér inn, frekar en að eiga á hættu að tapa því.
Áhorfendur heima göptu og áttu ekki orð, enda Jigglypuff meðal þekktari Pokémon-skrímsla og Frodo persóna úr Hringadróttinssögu.
Svona er lífið hverfult.