Hinar bandarísku Carmen Electra og Jenny McCarthy sitja fyrir í nýjustu herferð fyrir baðlínu SKIMS. Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian á SKIMS. „50 hefur aldrei litið svona vel út!“ sagði Kardashian þegar hún sá myndirnar.
Electra og McCarthy eru báðar 51 árs í ár, önnur orðin og hin í nóvember, sem á íslensku kallast að vera á sextugsaldri, sem er auðvitað kjánalegt.
„Ég gæti ekki verið spenntari fyrir að vera hluti af nýjustu auglýsingaherferð SKIMS. Stemningin á tökustað var ótrúleg, sérstaklega að fá að gera þetta með Electra, sem lítur ótrúlega vel út! Okkur leið eins og við værum komnar aftur til tíunda áratugarins,“ segir McCarthy í fréttatilkynningu um myndatökuna.
Vinkonurnar, sem eru þekktar sem söngkonur, leikkonur, fyrirsætur og sjónvarpskonur, eru í fantaformi. Á myndunum má sjá þær þrífa og bóna rauðan sportbíl löðrandi í sápu, svona má segja í stíl við pin-up stúlkur sem vinsælar voru fyrir nokkrum áratugum, en vinkonurnar voru vinsælastar á tíunda áratugnum eða 90´s.