Allt milli himins og jarðar hefur veitt höfundum dægurlaga innblástur. Sumt hefur verið gott en annað verra. Hörmulegir atburðir þar sem fólk særist eða lætur jafnvel lífið hafa oft orðið kveikjan að þekktum dægurlögum sem notið hafa vinsælda og virðingar. Hér verða aðeins fáein þeirra tekin sem dæmi en þessi listi er langt fá því að vera tæmandi. Lögin eru flokkuð eftir titli, flytjanda og frumútgáfuári.
Í janúar 1979 bjó hin 16 ára gamla Brenda Spencer í San Diego í Bandaríkjunum, hinumegin við götuna frá barnaskóla. Hún bjó við fátækt og vanrækslu á heimili föður síns. Hann hafði þó náð að skrapa saman nægilega miklu fé til að gefa henni hálf-sjálfvirkan rifil í jólagjöf.
Hún talaði um að gera eitthvað stórt og mikið til að komast í sjónvarpið. Að morgni mánudagsins 29. janúar skaut hún með rifflinum, frá heimili sínu, á börn sem biðu við hlið skólans eftir því að þau yrðu opnuð. Henni tókst að særa átta börn og einn lögregluþjón en skólastjórinn og húsvörðurinn biðu bana þegar þeir reyndu að forða nemendum frá skotunum.
Brenda náði að loka sig inni á heimili sínu í margar klukkustundir. Fréttamaður sem náði sambandi við hana spurði af hverju hún hefði gert þetta. Hún svaraði með eftirfarandi hætti:
„Mér líkar ekki mánudagar (e. I don´t like mondays) og þetta lífgar upp á hann.“
Þessi orð urðu kveikjan að lagi írsku hljómsveitarinnar The Boomtown Rats, I Don´t Like Mondays, sem kom út síðar þetta ár. Bob Geldof, annar höfunda lagsins, sagði þessi orð lýsa algjöru tilgangsleysi og skorti á samhyggð. Það hefði orðið aðalkveikjan að laginu. Síðar lýsti hann eftirsjá yfir því að hafa með laginu gert Brenda Spencer fræga. Lagið náði í fyrsta sæti breska vinsældalistans en náði ekki sömu hæðum í Bandaríkjunum.
Af Spencer er það að segja að hún gafst að lokum upp og var dæmd í lífstíðarfangelsi með möguleika á reynslulausn eftir 25 ár. Henni hefur verið neitað um reynslulausn í öll þau skipti sem það hefur verið til umræðu og situr enn í fangelsi.
Þess ber einnig að geta að eftir að Brenda Spencer var færð í varðhald eftir skothríðina uppgötvaðist að hún var með gamlan heilaáverka.
Árið 1986 eignuðust breski tónlistarmaðurinn Eric Clapton og ítalska fyrirsætan Loredana Del Santo son sem var nefndur Conor. Clapton var reyndar á þessum tíma giftur annarri konu, Patti Boyd, sem hafði áður verið gift vini og kollega hans, George Harrison.
Þann 20. mars 1991 dvöldu Conor og móðir hans í íbúð á 53. hæð fjölbýlishúss á Manhattan í New York borg sem var í eigu vinar hennar. Conor féll út um opinn svefnherbergisglugga og beið bana.
Foreldrar hans voru skiljanlega frávita af sorg. Clapton einangraði sig og vann ekkert við tónlist sína um tíma. Það fór þó smám saman að breytast. Hann tók að sér að semja tónlist fyrir kvikmyndina Rush. Hann sagði við textahöfundinn Will Jennings að hann vildi semja lag um drenginn sinn og bað Jennings um að semja hluta textans. Jennings kunni illa við að semja texta um eitthvað sem var svo persónulegt fyrir Clapton sem náði þó að sannfæra textahöfundinn um að taka þátt.
Afraksturinn varð lagið Tears in Heaven.
Lagið var fyrst gefið út á plötunni með tónlistinni úr Rush 1991 en Clapton gaf það í byrjun næsta árs út á smáskífu og síðar sama ár var það meðal laga á órafmagnaðri plötu hans (Unplugged). Tears in Heaven naut vinsælda um allan heim. Það náði m.a. á topp 10 vinsældalista í 12 Evrópulöndum og í Bandaríkjunum var lagið mest selda smáskífa Clapton og hlaut þrenn Grammy verðlaun, meðal annars sem besta lagið.
Clapton sagði í viðtölum að lagið hefði hjálpað sér að takast á við dauða Conor og halda áfram með lífið. Í laginu veltir Clapton m.a. fyrir sér hvernig það væri ef hann og Conor myndu hittast í himnaríki en syngur í lokin að hann verði að vera sterkur og halda áfram. Eftir slysið var Eric Clapton duglegur að vekja athygli á því að það væri lífsnauðsynlegt fyrir foreldra lítilla barna að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að þau færu sér ekki að voða við glugga eða stiga.
Það var langt liðið á jóladag árið 1986 þegar breska tankskipið Syneta var langt komið á siglingu sinni frá Liverpool á Englandi til Vestmannaeyja. Ákvörðun var hins vegar tekin um að sigla þess í stað til Eskifjarðar. Í upprifjun RÚV frá 2016 segir að þar hafi skipið átt að taka á móti loðnulýsi og sigla með það til Hollands og síðan Frakklands.
Ekki fór hins vegar betur en svo að skipið strandaði við hamraeynna Skrúð í minni Fáskrúðsfjarðar. Skipstjórinn sendi þá út neyðarkall en gaf upp ranga staðsetningu en áhöfnin taldi skipið hafa strandað við Seley við Reyðarfjörð. Björgunarsvetir og skip á svæðinu voru ræst út skömmu eftir miðnætti. Klukkan 00:50 uppgötvaðist að skipið hefði strandað við Skrúð en ekki Seley. Síðustu samskiptin við áhöfn Syneta áttu sér stað rétt fyrir klukkan 01:00.
Fiskiskip á svæðinu og varðskipið Týr hópuðust að Syneta. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, komst ekki á staðinn fyrr en um klukkan 04:00. Veður á svæðinu var snælduvitlaust og mikill straumur, öldurót og éljagangur. Það gekk ekkert að komast nógu nálægt Syneta til að mögulegt væri að bjarga skipverjum og létust þeir því allir. Klukkan 02:40 fannst fyrsta líkið. Alls voru 12 menn frá Bretlandi og Grænhöfðaeyjum í áhöfn Syneta. Af þeim fundust 9 lík en 2 þeirra sukku aftur í sjóinn þegar verið var að draga þau um borð. Vot gröf beið því 5 áhafnarmeðlima.
Bubbi Morthens samdi ljóð um örlög skipverjanna út frá þeirra sjónarhorni og nefndi það einfaldlega Syneta. Í ljóðinu segja skipverjar frá strandinu og dauða sínum. Hann flutti svo ljóðið við bandaríska lagið Deportee eftir Martin Hoffman og Woody Guthrie og gaf afraksturinn fyrst út á plötunni Sögur af landi árið 1990.
Deportee varð einnig til eftir mannskætt hópslys. Það kom fyrst út 1948 og fjallar um flugslys sem varð í Kaliforníu. Í slysinu létust 32 en 28 af þeim voru frá Mexíkó og hafði verið vísað úr landi í Bandaríkjunum.
Strand Syneta hefur enn mikil áhrif á þá sem komu að því og urðu vitni að því sem gekk á. Þegar Bubbi ræddi við DV árið 2017 um slysið og ljóðið sagði hann atburðinn hafa snortið sig mjög og hann væri enn að fá bréf frá fólki sem var á staðnum.
Þegar Jeremy Wade Delle, frá Texas í Bandaríkjunum, komst á unglingsárin átti hann oft erfitt með tilfinningar sínar eins og svo mörg á þessum aldri. Foreldrar hans skildu og hann átti erfitt með að aðlagast því. Kærastan hans hætti með honum sem gerði illt verra. Hann reyndi og hótaði oftar en einu sinni að fremja sjálfsvíg. Jeremy var sendur til meðferðar á geðspítala en síðar kom í ljós að starfsemi spítalans var verulega ábótavant. Ásakanir voru uppi um m.a. kynferðisofbeldi og að öryggisreglum væri ekki fylgt. Spítalanum var á endanum lokað 2018.
Jeremy Wade Delle mætti ekki alltaf vel í skóla en í byrjun árs 1991, þegar hann var 15 ára, var hann nemi á því skólastigi sem í Bandaríkjunum heitir High School. Hann hafði nýlega hafið nám við skóla í Richardson í Texas. Að morgni 8. janúar 1991 mætti hann of seint í enskutíma og kennarinn sagði honum, í samræmi við starfsreglur skólans, að ná í þar til gerðan miða á skrifstofuna.
Jeremy fór hins vegar í skápinn sinn og náði í skammbyssu og gekk því næst aftur inn í kennslustofuna og skaut sjálfan sig til bana fyrir framan kennarann og 30 samnemendur.
Ljóst var fyrir atvikið að Jeremy ætti erfitt og stjórnendur skólans voru að sögn að reyna að sjá til þess að hann fengi hjálp. Eftir lát Jeremy sögðust margir skólafélagar hans sjá eftir því að hafa ekki reynt að kynnast honum. Jeremy hafði aðeins verið nemandi við skólann í tvo mánuði og ekki eignast vini.
Eddie Vedder, söngvari hljómsveitarinnar Pearl Jam, las stutta frétt um atvikið í dagblaði. Fréttin veitti honum innblástur til að semja texta sem bassaleikari hljómsveitarinnar Jeff Ament samdi lag við. Lagið fékk heitið Jeremy og kom fyrst út um einu og hálfu ári eftir dauða drengsins. Vedder sagðist vilja gera meira en litla dagblaðsfrétt úr lífi drengs eins og Jeremy. Hann ætti að fá að lifa lengur en ekki gleymast eftir að minnst hefði verið stuttlega á hann í dagblaðinu.
Lagið fjallar þó ekki eingöngu um Jeremy Wade Delle heldur fjallar það einnig um dreng að nafni Brian, sem Vedder þekkti persónulega, sem framdi skotárás í skóla í San Diego í Kaliforníu.
Jeremy varð ekki beinlínis stórsmellur en varð þó ein af best seldu smáskífum Pearl Jam og náði ofarlega á marga vinsældalista. Sérstaka athygli vakti myndbandið við lagið þar sem drengur að nafni Trevor Wilson fór með hlutverk Jeremy Wade Delle en í myndbandinu má sjá túlkun á þjáningarfullu lífi þessa óhamingjusama 15 ára drengs.
Árið 1993 höfðu átök geisað á Norður-Írlandi í um aldarfjórðung með ógrynni sprengju- og skotárása. Í sem stystu og einföldustu máli má segja að átökin hafi snúist um framtíðarstöðu Norður-Írlands, hvort það ætti að sameinast Lýðveldinu Írlandi eða vera áfram hluti af Bretlandi.
Árásir voru framdar á báða bóga en þegar komið var fram á tíunda áratuginn voru vopnaðir hópar þeirra sem vildu koma Norður-Írlandi undan breskum yfirráðum farnir að fremja tíðari árásir á Englandi til að breiða átökin í auknum mæli þangað.
Ein af þessum árásum var framin 20. mars 1993 í bænum Warrington, sem er rúma 30 kílómetra austan við borgina Liverpool, í norðurhluta Englands. Tvær sprengjur voru sprengdar í ruslatunnum í sömu götunni, með einnar mínútu og 90 metra millibili. Alls slösuðust 56 manns en tveir drengir biðu bana, hinn þriggja ára gamli Jonathan Ball og Tim Parry, sem var 12 ára og lést af völdum áverka sinna fimm dögum síðar.
Árásin vakti mikla reiði í Bretlandi sérstaklega í ljósi þess að aðeins börn létu lífið og veitti Dolores O´Riordan, söngkonu írsku hljómsveitarinnar The Cranberries, innblástur til að semja lag sem fékk titilinn Zombie.
Lagið er óvenju kröftugt af lögum hljómsveitarinnar að vera. Í því syngur O´Riordan m.a. um dauða barns og segir að hún sé ekki svona og ekki hennar fjölskylda. Það gerði söngkonan til að leggja áherslu á að hún og raunar fleiri Írar styddu ekki svona ofbeldisaðgerðir í nafni sameinaðs Írlands.
Zombie þótti tjá vel þá miklu átakaþreytu sem komin var upp eftir allan þennan tíma og hversu miklu taki átökin höfðu náð á hugum íbúa Norður Írlands, Lýðveldisins Írlands og Bretlands.
Lagið kom fyrst út 1994 en hljómsveitin hafði spilað það oft á tónleikum. Það var umdeilt og reynt var að koma í veg fyrir útgáfu þess en það fékkst loks útgefið og vakti gríðarlega athygli um allan heim og hljómsveitin varð enn þekktari en áður. Gagnrýnendur lofuðu lagið og sögðu það eitt af stærstu lögum þessa tímabils rokksögunnar. Það voru ekki öll ánægð með ádeilu O´Riordan í textanum en hún sagðist ekki geta sætt sig við að börn létu lífið í nafni pólitískra markmiða.
Sérstaklega þótti myndbandið við lagið kröftugt þar sem m.a. mátti sjá myndir frá Norður-Írlandi og gullmálaða O´Riordan sem minnti á krossfestan Krist. Lagið náði á topp vinsældalista í átta löndum, þar á meðal Íslandi.
Þrjátíu árum síðar lifir Zombie enn mjög góðu lífi ekki síst fyrir tilstilli YouTube þar sem myndbandið við lagið hefur fengið, þegar þessi orð eru rituð, 1,3 milljarða áhorfa.