fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Harvey fannst nýfæddur í pappakassa á jólanótt – Eftir 63 ár komst hann að hinum skelfilega sannleika um uppruna sinn

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Fimmtudaginn 29. júní 2023 22:00

Harvey og Cherry

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Harvey Shackell var aðeins nokkurra klukkustunda gamall þegar að hann fannst í pappakassa, vafinn inn í brúnan umbúðapappír fyrir framan hús í Middlesex í Bretlandi. Og það á jólanótt.

Í húsinu bjuggu ung hjón og brá húsmóðurinni, Veru Woods, eðlilega mjög í brún þegar hún rakst á kassa með nýfæddu barni rétt við útidyrahurðina. Vera hringdi strax á lögreglu og var litla drengnum strax komið á sjúkrahús. Hann var fljótur að jafna sig og sendur í fóstur til fjölskyldu, Shackell fjölskyldunni, sem síðar ættleiddi hann. 

Sextán hálfsystkini

Harvey kom nýlega fram í breska þættinum Long Lost Family: Born Without Trace en sá þáttur hjálpar fólki við leit að uppruna sínum sínum og líffræðilegum ættingjum. Höfðu þá rannsakendur þáttarins komist að því, með aðstoð DNA tækninnar, að Harvey hafði átt tvær alsystur og hvorki meira né minna en sextán hálfsystkini, öll í föðurætt. 

Havey, sem nú er 63 ára, er kvæntur og á tvo stjúpbörn en enga líffræðilega ættinga – sem hann vissi af. Hann átti góða æsku hjá ástríkum foreldrum en eftir því sem árin liðu fór Harvey að velta sífellt meira fyrir sér uppruna sínum. 

Hann ákvað því að setja auglýsingu í öll stærstu dagblöð Bretlands en það bar engan árangur. Harvey var orðinn býsna vonlítill þegar honum datt í hug að leita á eina staðinn sem hafði einhver tengsl við frumbernsku hans; húsið sem hann hann fannst við tröppurnar á. 

„Hefði konan sem bjó þarna ekki bjargað mér hefði ég frosið til bana þessa nótt,” sagði Harvey í þættinum. 

En aftur varð Harvey fyrir vonbrigðum því Woods fjölskyldan hafði flutt fyrir löngu og vissu núverandi húsráðendur ekkert um hvað þau hefði orðið. 

Rifinn úr örmum móður sinnar

Forráðamenn Long Lost Family fengu veður af leit Harvey og í þættinum hitti hann eldri systur sína, Cherry, í fyrsta skipti. Gat hvorugt þeirra komið upp orði í byrjun fyrir gráti. 

Rétt áður en systkinin hittust sagði Cheryl að hana hefði alltaf langað að eiga bróður. „Harvey á skilið að fá frið í sálina. Ég held að þetta hljóti að hafa verið honum allt afar erfitt.” 

Harvey og Cherry

Þegar að þau hittust sagði Cherry Harvey að faðir þeirra hafi rifið hann nýfæddan úr örmum öskrandi móður sinnar, sem var viti sínu fjær af sorg, og horfið með hann á braut. Faðir hans kom heim án barnsins og bannaði að nokkru sinni yrði minnst á drenginn framar. 

„Mér þykir þetta svo óskaplega leitt,” sagði Cherry grátandi við bróður sinn í þættinum en Harvey var fljótur að taka utan um hana og segja henni að þetta hefði aldrei verið henni að kenna. „Ég ber engan illan hug til þín eða nokkurs í fjölskyldunni. Það var faðir okkar sem var illmenni, þetta var honum að kenna.” 

Grét eins og barn

Cherry sagði Harvey að móðir þeirra sálug hefði aðeins verið 23 ára þegar hún eignaðist Harvey, sitt þriðja barn með 45 ára eiginmanni sínum, þekktum ofbeldismanni. Sagði Cherry að móðir þeirra hefði verið gríðarlega hrædd við hann og ávallt haldið í þá von að maður hennar hefði farið með barnið á öruggan stað á við sjúkrahús eða munaðarleysingjahæli. 

Harvey sagði að ferlið við leitina hefði verið honum erfitt og þegar hann hefði frétt af því að hann myndi hitta systur sína hefði hann sest niður og grátið eins og barn. 

Cherry sagðist óska þess heitast að móðir þeirra sálug hefði fengið að upplifa þá stund að sjá systkinin hittast. „Hún hefði elskað að vera hérna. Hún var miður sín eftir að hann tók þig í burtu og gat aldrei talað um það, allt þar til hún lést.” 

Eðlilega var Harvey brugðið að heyra um gjörðir föður síns, að hann hefði rifið Harvey nýfæddan úr örmum grátandi móðir sinni af slíkri grimmd. 

Eftir að hafa hitt Cherry sagðist Harvey finna fyrir miklum létti en tilfinningin væri skrítin. „Hún er dásamleg og ég bara trúi ekki hversu lík við erum. Cherry bætti við að Harvey væri yndislegur maður og hefði móðir þeirra verið afar stolt af honum.”

Hin alsystir Harvey afþakkaði að koma fram í þættinum og kýs að halda nafnleynd. 

Vera

Cherry sagði að faðir þeirra systkina hefði átt í fjölda sambanda við annan eins fjölda kvenna og allt í allt feðrað nítján börn. Sum voru sett á munaðarleysingjahæli en önnur voru ættleidd við fæðingu. Síðar í þættinum átti Harvey myndsímtöl við nokkur af hálfsystkinum sínum og voru þau öll himinlifandi yfir að ná sambandi hvert við annað. 

En það var fleira í þættinum sem kom Harvey á óvart því forráðamenn þáttarins höfðu haft upp á Veru Wood, konunni sem fann hann í kassanum, kom honum inn úr kuldanum, vafði hann í teppi og hringdi eftir hjálp. Og bjargaði þar með lífi hans. 

Vera, sem nú er 88 ára gömul. hafði aldrei gleymt jólabarninu á tröppunum og meira að segja komið fram í sjónvarpi árið 1988 þar sem hún kallaði eftir upplýsingum um hvað hefði orðið um drenginn. 

Í þættinum sagði Vera Harvey frá því að hún og maður hennar hefðu reynt að fá upplýsingar um um hvað barnið hefði orðið eftir að sjúkrabíllinn ók með hann í burtu en enginn viljað segja þeim neitt. Hefðu þau hjón ákveðið frá þeirri sekúndu sem þau sáu hann í kassanum að þau vildu aldrei sleppa honum heldur ættleiða. En hvorki sjúkrahús, lögregla né barnaverndaryfirvöld vildu gefa þeim neinar upplýsingar um barnið og var einfaldlega sagt að gleyma þessu. 

Harvey og Vera

Þú varst ískaldur

En Vera gleymdi aldrei litla drengnum og í gegnum árin reyndi hún árangurslaust að leita að jólabarninu. Allt þar til forráðamenn þáttarins höfðu samband við hana. 

Það voru miklir gleðifundir með Harvey og Veru. „Ég hef svo oft hugsað til þín, jafnvel þótt ég vissi ekki einu sinni hvað þú heitir. Þú bjargaðir lífi mínu,” sagði grátklökkur Harvey og faðmaði Veru. 

Vera rifjaði upp þessa örlagaríku stund í þættinum. „Ég opnaði kassann og það var brúnn pappi ofan á einhverju. Ég tók pappann frá og þarna lástu í botninum á þessum þunna pappakassa með aðeins þunnan pappír undir þér og bláa kvenmannspeysu ofan á þér. Og ofan á henni lá meiri pappír. 

Þú varst ekki með húfu, ekki vettlinga, ekki sokka. Ekkert. Þú varst nakinn. Ég tók þig upp úr kassanum, þú varst ískaldur og ég vafði þig í teppi og hringdi á lögregluna.” 

Harvey spurði hvort Vera teldi að hann hefði verið á tröppunum alla nóttina og sagðist Vera vera handviss um það enda hafi hann verið helkaldur í gegn. 

Harvey átti góða æsku.

Get dáið með frið í hjarta

„Mikið hefði ég vilja halda þér,” sagði Vera með tárin í augunum. „Ég hef leitað svo lengi að þér, hugsað svo oft til þín. Litla drengsins míns. Hvar skyldi hann vera núna? Ætli honum líði vel? Fékk hann gott heimili? Hvernig varð hann sem fullorðinn einstaklingur? En mér voru allar dyr lokaðar.” 

Harvey huggaði Veru með að segja henni að hann hefði átt dásamlega æsku hjá góðum foreldrum. 

Og Vera gaf Harvey ljósmynd sem hún tók þennan dag með hann í fanginu. En henni vilja þau halda út af fyrir sig. 

„Nú get ég dáið með frið í hjarta, vitandi að þú áttir góða æsku og ert hamingjusamur,” sagði Vera í lokin og faðmaði að sér Harvey. 

Systkinin hafa ákveðið að hittast og ná að kynnast á næstu dögum og vikum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram