Söngkonan Shakira gerði garðinn frægan þegar hún steig fram á sjónarsviðið með mjaðmir sem ljúga ekki. Ætla má að fleiri líkamshlutar söngkonunnar séu sannsöglir en ekki er hægt að segja það sama um fyrrverandi kærasta hennar, Gerard Piqué.
Shakira og Gerard kynntust fyrst árið 2010 þegar Shakira var að taka upp tónlistarmyndband við lagið Waka Waka sem var þemalag heimsmeistaramótsins í knattspyrnu árið 2010, enda mótið haldið í Suður-Afríku. Fjöldi knattspyrnumanna kom fram í myndbandinu, þar á meðal Garard, sem lék fyrir Spánn.
„Ég var ekki knattspyrnuáhugakona, svo ég vissi ekki hver hann var,“ sagði söngkonan í viðtali á meðan allt lék í lyndi. „Þegar ég sá myndbandið hugsaði ég – Hmm þessi er frekar sætur. Og svo ákvað einhver að kynna okkur.“
Gerard sagði sjálfur í viðtali að hann hefði ákveðið að skrifa til hennar eftir að hann hitti hana fyrst. Hann hefði orðið svo heillaður að hann hafi ákveðið að lið hans yrði að komast í úrslit heimsmeistaramótsins svo hann gæti hitt hana aftur. Spánn endaði svo með að verða heimsmeistari, þau hittust aftur, og stigu formlega fram sem par ári síðar. Þau eignuðust svo tvö börn saman og framtíðin virtist björt.
Gerard lagði takkaskóna á hilluna árið 2018 og fagnaði Shakira þeirri ákvörðun með því að heiðra hann í færslu á Instagram þar sem hún sagði eina bestu minningu sína vera þá að sjá hann sigra heimsmeistarakeppnina.
Árið 2020 opnaði Shakira sig um möguleikann á hjónabandi, en hún sagðist óttast hjónaband og ekki vilja að Gerard liti á sig sem eiginkonu. „Sem elskhuga, kærustu. Það er svolítið eins og hinn forboðni ávöxtur, er það ekki? Ég vil halda honum á tánum. Ég vil að hann haldi að allt sé mögulegt, eftir því hvernig hann hegðar sér.“
Það var svo fyrir ári síðan sem parið tilkynnti að þau hefðu slitið sambúð sinni. Í janúar á þessu ári gaf Shakira svo út nýtt lag þar sem hún virtist skjóta föstum skotum á sinn fyrrverandi. Þar söng hún um að vera of góð fyrir einhvern, að hún hefði átt að henda þeim aðila fyrr út þar sem hann hafi brugðist henni þegar hún þurfti mest á honum að halda. Óskaði hún þessum aðila góðs gengis með nýjum maka, hann hefði skipt út glæsikerru fyrir druslu. Aðeins örfáum vikum síðar var opinberað að Gerard væri tekinn saman við 23 ára háskólanemann Clöru Chiu Marti. Shakira gaf þú út annað lag þar sem hún söng að það væri sárt að sjá fyrrverandi halda lífinu áfram.
Hafa margir talið líklegt að sambandi þeirra Shakiru og Gerards hafi lokið þar sem hann hafi verið henni ótrúr. Fór sú saga að ganga skömmu áður en parið tilkynnti um sambandsslitin en slúðurmiðlar greindu frá því að Gerard hafi verið gripinn glóðvolgur í rúminu með núverandi kærustu sinni á meðan hann og Shakira bjuggu enn saman. Nú hefur þessi kenning fengið byr undir báða vængi eftir að Shakira ræddi við spænsku útgáfu miðilsins People og lýsti því hvernig hún hafi upplifað framkomu Gerards sem svik.
„Hann kom til Barselóna til að hugga mig þegar ég var gagntekin af sorg út af sambandsslitunum,“ sagði Shakira um föður sinn, William Mebarak Chadid. Á þeim tíma hafi Shakira verið að ferma son sinn, en þá hafi faðir hennar dottið og slasað sig alvarlega.
„Allt gerðist á sama tíma. Fjölskyldulíf mitt var að liðast í sundur. Ég komst að því í gegnum fjölmiðla að ég hefði verið svikin á meðan faðir minn lá inn á gjörgæslunni.“
En á þessum tíma hafi fréttamiðlar farið að fjalla um hjúskaparbrot Gerards. Faðir hennar, sem hún elskar meira en allt, hafi verið við dauðans dyr og hún því ekki getað leitað huggunar til hans eins og hún var vön. Sem betur fer fór betur en á horfðist og er faðir hennar á góðum batavegi. Hún segir að það sé ljúfsárt að sjá foreldra sína saman, en þau hafi verið gift svo lengi og hjónabandið traust.
„Þau hafa verið ímynd draumsins sem rættist ekki hjá mér. En ég vona að þau verði fyrirmynd barna minna.“
Shakira hefur enn ekki berum orðum staðfest að Gerard hafi haldið framhjá, en telja flestir það nokkuð ljóst af orðavali hennar sem og lagatextum. Hún hafi sagt í viðtali nýlega við Jimmy Fallon að hún hafi umborið Gerard alltof lengi og hann hafi komið illa fram.
Gerard, sem sömuleiðis hefur ekki staðfest framhjáhaldið, segist sjálfur vera hamingjusamur í dag og hann ætli ekki að biðjast afsökunar á neinu.
„Ég mun halda áfram að gera það sem ég vil. Daginn sem ég dey mun ég lita til baka og vona að ég hafi alltaf gert það sem ég vildi. Ég vill vera trúr sjálfum mér,“ sagði hann í viðtali. Mögulega er það auðveldara fyrir hann að vera trúr sjálfum sér heldur en að vera trúr maka. Eða hvað?