fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Hatrammi skilnaðurinn harðnar – Yfirgengileg meðlagskrafa afhjúpuð og meintur friðill neitar

Fókus
Fimmtudaginn 22. júní 2023 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekki nóg fyrir okkur að fylgjast með stjörnunum í Hollywood á þeim starfsvettvangi sem þau hafa kosið sér. Nei svo sannarlega ekki. Með því að sækjast í frægðina hafa þau gerst opinberar manneskjur og þá er úti um einkalífið, ef svo má komast að orði. Vissulega fer þetta í taugarnar á mörgum stjörnum, sem reyna hvað þær geta til að halda sínu einkalífi út af fyrir sig, en fjölmiðlar eltast við það sem almenningur hefur áhuga á, og þýðir oft lítið að reyna að fela sig fyrir árvökulum blaðamönnum sem gjarnan eiga í litlum vandræðum með að fá jafnvel foreldra frægra til að tala aðeins af sér, enda fátt sem fólk elskar meira en slúður nema þá kannski tækifærið að fá að slúðra sjálfur. Aðlaðandi persónueinkenni? Mögulega ekki. En svona er lífið á upplýsingaöldinni þar sem allir eru með nefið ofan í málefnum annarra, á meðan þvottafjallið safnast upp og áskriftin af ræktinni er í tilgangsleysi skuldfærð af reikningum á meðan íþróttaskór safna ryki.

Er svo fátt meira spennandi í þeim efnum heldur en ástarlíf stjarnanna, og þá helst þegar ástin breytist í hatrammar deilur. Nú er það stórleikarinn Kevin Costner sem stendur í ströngu og þarf að þola það að fjölmiðlar, jafnvel æsifréttamiðill frá Íslandi, andi ofan í hálsmál hans.

Vill sjöfalt það sem henni ber samkvæmt kaupmála

Líklega vita flestir að Kevin stendur nú í skilnaði. Þetta er ekki hans fyrsti skilnaður svo hann er hokinn af reynslu og gekk inn í hjúskap sinn við Christine Baumgartner með bæði augun opin og gerði ítarlegan kaupmála til að gæta hagsmuna sinna, ef til skilnaðar kæmi. Christine hefur líklega skrifað undir sannfærð um að aldrei myndi reyna á þennan löggjörning þar sem ástin myndi vara að eilífu. En svo varð ekki og nú berst Christine um með kjafti og klóm til að fá kaupmálanum hnekkt. Til dæmis átti hún samkvæmt þeim samningi að flytja út af heimili hennar og Costner um leið og hún sótti um skilnað. En hún hélt nú ekki og situr sem fastast til að reyna að þvinga Kevin að samningaborðinu.

Sjá einnig: Hatrammur skilnaður í Hollywood – Eiginkonan hústökukona í tveggja milljarða lúxushöll og sökuð um fjárkúgun

Nú hafa fjölmiðlar greint frá því hvaða kröfu Christine er að gera. En hún mun vera að fara fram á meðlagsgreiðslur upp á tæpar 38 milljónir á mánuði vegna barna þeirra þriggja. Börnin eru á aldrinum 13-16 ára. Samkvæmt gögnum málsins mun Christine hafa gengið svo langt að halda því fram að þetta væri gífurlega sanngjörn krafa þar sem hún nægði ekki til að tryggja þeim sömu lífsgæði og þau eru vön.

Til viðbótar við þetta meðlag vill Christine að Kevin borgi skólagjöld barnanna og líka kostnað vegna frístundar sem og heilbrigðiskostnað.

Þetta er töluvert meira en hún á að fá samkvæmt kaupmálanum, en þar segir að hún fái aðeins um 5,3 milljónir á mánuði í meðlag. Það sem Christine fer fram á er sjöföld sú fjárhæð.

Meintur friðill neitar sök

Ekki er þetta eina skilnaðardramað sem er í gangi, en Kevin mun hafa sakað verðandi fyrrverandi eiginkonu sína um að vera honum ótrú. Svo segir sagan að hann hafi vikið sér að leigjanda sínum og sakað hann um að hafa átt náið samneyti með Christine. Leigjandinn, Daniel Starr, sagði þó í samtali við TMZ að þau séu bara góðir vinir og hafi aldrei sofið saman. Daniel hafði leigt gestahús af Kevin, en flutti skyndilega út áður en leigusamningurinn rann út. Töldu margir augljóst að það hlyti að tengjast meintu framhjáhaldi.

Christine hefur einnig neitað þessum sögusögnum og skaut fast til baka á sinn verðandi fyrrverandi og sakaði hann um tillitsleysi. Hann hafi ákveðið að segja börnum þeirra frá skilnaðinum í gegnum fundaforritið Zoom í stuttu 10 mínútna samtali. Sem sé nú ekki til eftirbreytni.

Telja margir ljóst að þessi deila muni enda fyrir dómstólum þar sem tekist verður á um téðan kaupmála, en sagan segir að þar megi finna ákvæði sem Kevin hafi engan áhuga á að fjölmiðlar og almenningur fái veður af. Því verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram