Leikkonan Emma Watson, sem öðlaðist heimsfrægð í hlutverki Hermoine Granger í Harry Potter-sagnabálkinum, hefur ekki sést á hvíta tjaldinu í fimm ár eða síðan hún fór með hlutverk í kvikmyndinni Little Women árið 2018.
Watson hefur látið til sín taka varðandi ýmis pólitísk og samfélagsleg málefni síðan og hélt meðal annars ræðu á þingi Sameinuðu þjóðanna um öryggi kvenna fyrir ekki svo löngu.
Í viðtali við Financial Times greinir Watson frá því að ástæða fjarverunnar sé að hún sé orðinn þreytt á kvikmyndaiðnaðinum og hafi liðið eins og hún væri föst í einhverskonar búri.
„Það sem mér fannst erfiðast var að stíga fram opinberlega og reyna að selja eitthvað sem ég hafði enga stjórn á hvernig leit út. Það var erfitt að vera andlit og talskona einhvers sem ég átti lítinn sem engan þátt að skapa,“ sagði Watson.
„Það var mjög pirrandi að vera dregin til ábyrgðar fyrir eitthvað sem ég gat ekki svarað fyrir. Ég fór að átta mig á því að mig langaði til að standa fyrir framan hluti þar sem að ef einhver gagnrýndi mig þá gat ég sagt „já, ég klúðraði þessu en það var mín ákvörðun og ég hefði átt að gera betur“,“ sagði leikkona.
Hún lýsti því þó ekki yfir að ferillinn á hvíta tjaldinu væri kominn á endastöð þannig að aðdáendur hennar eygja enn von.