Pistlahöfundurinn og stefnumótasérfræðingurinn Jana Hockings gætir þess að fræða einhleypa um boð og bönn sem fylgja því að vera í ástarleit. Í nýjasta pistli sínum rekur hún hvernig sé hægt að sigra sambandsslitin eins og meistari.
Hún segir að hún hafi lent í því á síðasta ári að henni var sagt upp, eða dömpað eins og það er orðað á lélegri ísl-ensku. Hún og maðurinn sem hún var að hitta hafi rifist heiftarlega og hafi hún talið að um hefðbundið rifrildi væri að ræða þar til hann tilkynnti henni að hann vildi aldrei heyra frá henni framar. Síðan hafi hann hætt að svara símtölum frá henni heldur sent henni niðurlægjandi skilaboð þar sem hann ítrekaði það að hann vildi ekki fyrir neina muni tala við hana aftur.
„Ég fann fyrir kvíðanum aukast. Ég hélt við værum að eiga heimskulegt rifrildi. Við áttum alltaf heimskuleg rifrildi. Var það ekki tilgangurinn – svo við gætum sæst aftur og stundað besta kynlíf lífs okkar? Hann gat ekki verið þetta reiður? Hvers vegna var hann að láta eins og hann hataði mig?“
Þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem Jönu var „dömpað“ og svo sem ekki við öðru að búast þegar maður er að stunda stefnumótalífið og á erfitt með að finna þann eina rétta. Jana vissi því að hún hefði nokkrar leiðir í gegnum þetta. Hún gæti grenjað og grátbeðið hann um að taka við sér aftur, en slíkt endi sjaldnast vel. Hún gæti farið að birta þorsta gildrur á Instagram og vonast til að hann sæi myndirnar og kæmi þá hlaupandi til baka. Svo gæti hún prófað eitthvað nýtt. Fundið heilbrigða leið til að takast á við sambandsslitin. Jana valdi þriðja kostinn.
Hún bókaði sér tíma hjá sálfræðing og ákvað að gera upp sambandið hjá honum frekar en að drekkja sorgum sínum í hvítvíni. Þetta hafi gert kraftaverk fyrir hana. Á innan við mánuði hafði hennar fyrrverandi samband og vildi ólmur næla í hana aftur. Jana hafði þarna samt séð að sambandið var eitrað og gat sagt nei takk.
„Loksins var ég að taka skynsamar ákvarðanir hvað ástarlíf mitt varðar.“
Jana telur því ljóst að þarna hafi hún fundið góða leið til að „sigra“ sambandsslitin og halda sjálfsvirðingunni. Hún fer yfir nokkur atriði sem séu mikilvæg í þessu samhengi.
Jana segir það best að fara ekki strax í að blokka fyrrverandi eða henda þeim út af samfélagsmiðlum. „Við skulum vera hreinskilin, þú vilt bara gera það til að fá viðbrögð. Nei, þú ætlar að hljóðlega og mjúklega að fela þau. Ef þú sérð þau ekki hugsar þú ekki um þau. Þannig geturðu í það minnsta komist yfir fyrstu stig ástarsorgarinnar.“
Að halda sér uppteknum sé markmiðið. Þetta geti maður gert með því að henda sér út í vinnu og eltast við stöðuhækkun eða álíka. Yfirvinnan sé vinur þinn á þessum tímum og um að gera að henda sér í verkefnin af fullum þunga. Eins eigi maður að reyna að fylla dagatalið sitt af skemmtilegum eða nauðsynlegum hlutum, frekar en að sitja heima og gráta. „Svo segðu já við því að fara út að ganga með vini, farðu í bókaklúbb, fótboltaklúbb eða skráðu þig í listkennslu.“
Hvað sem fái þig til að greiða hárið og koma þér út úr húsi. Það eigi eftir að koma á óvart þegar þú ert svo farinn að hugsa meira um áhugamálin heldur en hvað fyrrverandi gæti verið að gera.
Jana segir að það sé ekki nauðsynlegt að fara í öfgafulla megrun eða ólíka til að reyna að freista fyrrverandi á Instagram. Þú ættir hins vegar að fara í ræktina fyrir þig, til að fá góðu boðefnin sem hreyfing gefur þér. Eins ættirðu að skella þér í hársnyrtingu og jafnvel kaupa ný föt. Allt sem gefi þér sjálfsöryggið til baka sem þú tapaðir kannski við það að upplifa höfnun.
Jana segir að þegar áfengi er haft við hönd losi það um hömlur og geti leitt til þess að fólk hafi samband við sinn fyrrverandi. Það sé ekkert sjarmerandi við það að hálf snökta einhver skilaboð inn á talhólfið hjá aðilanum sem braut í þér hjartað.
Óhjákvæmilega gætirðu lent í því að hitta fyrrverandi á förnum vegi. Þá sé mikilvægt að sýna honum að hann hafi ekki lengur áhrif á þig. Ekki vera leiðinlegt eða snubbótt, eða spennt. Bara yfirveguð og slök. Kurteis en afslöppuð. Það eigi eftir að gera fyrrverandi brjál.
Að lokum segir Jana:
„Þar hafið þið það. Fimm skrefa áætlun mín til að sigra sambandsslit. Áður en þið vitið af mun fyrrverandi koma hlaupandi til baka, og ef ekki þá er þér alveg sama því þú ert búin að leggja á þig vinnuna og hefur komist yfir þetta. Áfram nú veginn og blómstrið.“