Það er aldrei friður í kringum hertogaynjuna Meghan Markle, sama hversu oft hún hefur óskað eftir því að fá að lifa lífi sínu í friði.
Augu allra hafa verið á henni í aðdraganda krýningar Karls Bretakonungs, en hertogaynjan hefur ákveðið að vera ekki viðstödd og fagna þess í stað fjögurra ára afmæli sonar síns, Archie prins.
Til að kóróna þetta hefur svo fjölskylda Meghan, faðir hennar, hálfsystir og hálfbróðir, ákveðið að stíga fram í viðtali við 7NEWS Spotlight þar sem þau láta allt góssa.
Faðir Meghan, Thomas Markle, segir að Meghan hafi „drepið mig og svo syrgt mig.“
Hann hafi þó ákveðið að leyfa henni ekki að grafa sig lifandi og spurði: „Er það þess virði að losa sig við föður sinn?“ en hann segist vona það eitt að dóttir hans sættist við hann, enda sé hann orðinn heilsulaus í kjölfar heilablóðfalls fyrir ári síðan og eigi mögulega stutt eftir.
„Ég held að Harry ætti að vera fyrirmynd hérna og leiða okkur saman með einhverjum hætti. Ég held hann geti hjálpað,“ sagði Thomas og vísaði þar til Harry Bretaprins, eiginmanns Meghan.
Meghan hefur ekki talað við föður sinn eða hálfsystkin síðan hún giftist Harry.
Viðtalið hefur enn ekki verið sýnt en fjölmiðlar eru þó þegar farnir að fjalla um það á grundvelli brota sem hafa þegar verið birt.
Thomas segist vilja grafa stríðsöxina áður en það verður of seint.
„Hún elskaði mig. Ég er hetjan hennar. Svo var mér skyndilega fleygt út.“
Thomas segist sár yfir því að Meghan hafi ekkert haft samband við hann er hann fékk heilablóðfallið. Ef þetta hreyfi ekki við henni, hvað geti það þá?
Thomas fjallar einnig um bréf sem Meghan skrifaði honum sem hann lak sjálfur í fjölmiðla. Thomas segir að bréfið hafi verið mjög særandi og grimmt og ljóst sé að Elísabet drottning hafi ekki lesið það áður en hún samþykkti að það yrði sent. Hann segir að í bréfinu hafi verið meira að finna en hann opinberaði á sínum tíma, en hann hafi ákveðið að sleppa sumum hlutum því það sem þar hafi verið sagt hafi verið svo hatursfullt og andstyggilegt. Hann hafi með þessu viljað vernda dóttur sína.
Hálfsystir Meghan, Samantha, er einnig í viðtalinu en hún segir systur sína eitraða [e. toxic]. Hún telur ólíklegt að systir hennar muni tala við hana aftur nema hafa fyrir því góða ástæðu.
„Ég held að hún sé ófær um samkennd, eftirsjá eða skömm. Ég hugsa að hún geti ekki fundið nægar tilfinningar til að biðjast afsökunar“
Samantha segist ekki ætla að tala um hálfsystur sína nema hún fái einhverja tryggingu fyrir því að almannatengslakerfi hertogahjónanna tali ekki um hana á móti.
„Hún væri enn þjónn ef það væri ekki vegna pabba okkar“
Í kynningarefni fyrir viðtalið segir líka að samhliða því verði birtar myndir sem hertogaynjan hafi „aldrei viljað að heimurinn fengi að sjá“ en umræddar myndir eru frá æskuárum Meghan. Eins verður sýnt myndband frá því að Meghan var krýnd heimkomudrottning á balli í gagnfræðisskóla.
WORLD EXCLUSIVE: THIS SUNDAY on @7NewsSpotlight – the photographs Meghan Markle NEVER wanted the world to see. Only on @Channel7 at 8:30pm, Sunday NIGHT pic.twitter.com/Lx3tKJ6UJZ
— Taylor Auerbach (@tauerbach) April 28, 2023