Hertogaynjan Meghan Markle hefur nú skrifað undir samning við umboðsskrifstofuna WME í Hollywood. Hún er þó ekki að byrja að leika aftur heldur ætlar fyrirtækið að hjálpa henni við að byggja upp viðskiptaveldi sem mun þó hafa eitthvað með kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu að gera.
WME mun líka taka að sér Archewell, sem er merki sem Meghan hefur byggt upp sem hefur með sköpun skemmtiefnis (e. content creation) að gera. Í teyminu sem mun sjá um hertogaynjuna verður meðal annars Jill Smaller, sem er umboðsmaður tennisleikkonunnar Serenu Williams, og einnig Ari Emanuel, forstjóri fjölmiðlafyrirtækisins Endeavor.
Þessi tíðindi berast í kjölfar þess að hertogaynjan hefur lítið látið fyrir sér fara í aðdraganda krýningar Karls Bretakonungs. Var Meghan boðið að vera viðstödd ásamt eiginmanni sínu, Harry Bretaprins, en ákvað hún þó að taka ekki boðinu heldur sitja heima í Kaliforníu, þar sem krýningunni lendir saman við afmælisdag sonar hennar, Archie prins. Hjónin hafa eldað grátt silfur við konungsfjölskylduna undanfarin ár, en þau sögðu sig frá konunglegum skyldum sínum til að hefja nýtt líf í Bandaríkjunum og hafa ítrekað opnað sig um neikvæða upplifun sína af lífinu í höllinni.
Harry gaf nýlega út ævisögu sína, Spara, sem olli miklu fjaðrafoki og hafa breskir fjölmiðlar vitnað í heimildarmenn úr höllinni sem segja að konungsfjölskyldan sé mjög ósátt við prinsinn. Mun krýningin vera fyrsti fundur fjölskyldunnar og Harry eftir útgáfu bókarinnar. Hertogahjónin hafa einnig framleitt tvær heimildaþáttaraðir með Netflix, þeirra á meðal Harry & Meghan, þar sem hjónin deildu sögu sinni. Þeir þættir munu líka hafa farið öfugt ofan í konungsfjölskylduna.
Líklega lítur WME á það sem mikinn sigur að hafa fengið þetta verkefni, enda er Meghan almennt álitin meðal áhrifamestu kvenna í heiminum. Hún var efst á lista TIME um áhrifamestu einstaklingana, eins á lista Financial Times yfir áhrifamestu konurnar og áþekkum lista hjá Variety og breska Vogue.