fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Drew Ackerman er talinn leiðinlegasti maður í heimi – Hefur grætt milljónir á leiðigjörnu röfli sínu

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 22. apríl 2023 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Drew Ackerman skartar þeim vafasama – en óformlega titli – að vera oft kallaður leiðinlegasti maður í heimi. 

Þessi hálffimmtugi Bandaríkjamaður hefur hins vegar þénað vel á leiðindunum með hlaðvarpi sínu.

Ackerman veit vel af því hversu leiðinlegt hlaðvarp hans er, því það er með vilja gert. 

Sem hljómar furðulega þar sem langflestir kjósa að hlusta á hlaðvarp sér til skemmtunar en Ackerman fullyrðir að um ekkert venjulegt hlaðvarp sé að ræða, hann sé í raun að bjarga mannslífum um heim allan. 

Drew ,,Scooter“ Ackerman

Meðvitundarleysi eftir nokkrar mínútur

Ackerman hóf að senda út hlaðvarp sitt,  Sleep with Me, eða Sofnaðu með mér árið 2013 og hófst frægð hans á Twitter. Nú, áratug síðar, treysta hundruð þúsunda á Ackerman að senda sig á vit draumalandsins með leiðindum sínum. 

Hlaðvarpið Ackermans ku vera það leiðinlegt að fólk sem hlustar á hann er yfirleitt búið að missa alla meðvitund, aðeins örfáar mínútur inn í einhæft og þulbaldalegt röfl hans. 

Talið er að þrjár milljónir manna, um allan heim, treysti á að Ackerman svæfi þá á hverju kvöldi og sem dæmi má nefna að samkvæmt nýlegum tölum frá Ástralíu hlusta rúmlega 150 þúsund þarlendra á hlaðvarpið á hverju kvöldi. 

Þjáðist af svefnleysi frá barnæsku

Hann hefur sagt frá því í viðtölum að sem börn hafi bæði hann og bræður hans, þjáðst af svefnleysi. Hafi hann því byrjað að segja bræðrum sínum langar sögur og ævintýri sem yfirleitt urðu til þess að bræðurnir voru farnir að hrjóta innan tíðar. 

Mörgum árum síðar, þá kominn á fullorðinsár, þjáðist Ackerman enn af svefnleysi sem kvaldi hann mjög. Hann reyndi alls kyns leiðir til að bæta ástandið, án árangurs. 

Hann leitaði meðal annars í fjölda hlaðvarpa en fann ekkert sem gaf honum þá ró sem hann var að leita eftir.

Hann starfaði þá sem bókasafnvörður og á vinnustað hans spjölluðu kollegar hans lágt saman, eðlilega. Fannst honum róandi að eiga í rólegu og lágværu spjalli og datt í hug að kannski væri það rétta leiðin að bjóða upp á eitthvað sambærilegt. 

Vögguvísur um styrktaraðila

Sjálfur lýsir hann frásagnarhefð sinni sem ,,góðri á furðulegan, en ekki óhugnanlegan, hátt.” Hann tekur alltaf fram að hann hafi enga menntun né þekkingu á sálfræði eða svefnvísindum, hann treysti fyrst og fremst á áralanga reynslu sína í að svæfa fólk (úr leiðindum). Hann sé í góðu sambandi við hlustendur sína á samfélagsmiðlum, þar sem hann hefur gríðarlega stóra fylgjendahópa, og taki ábendingum um hvernig unnt sé að verða jafnvel enn leiðinlegri. 

Hann kallar sig ,Scooter í hlaðvarpi sínu og eftir langdreginn inngang þar sem hlustendur eru boðnir velkomnir les hann, hægt og rólega, upp alla styrktaraðila þáttarins en stundum gengur hann lengra.

Þá syngur vinur hans, tónlistarmaðurinn Jonathan Mann, vögguvísu – í nokkrum erindum – sem Mann hefur samið um einhvern heppin styrktaraðila. 

Margverðlaunaður fyrir leiðindin

Að því loknu heldur Ackerman áfram með sundurlausan inngang sinn áður en hann loksins kemur sér að efni þáttarins. Því má við bæta að rödd hann er með eindæmum róandi. 

Eftir sögu kvöldsins, en þær eru yfirleitt einhvers konar ævintýri, samin af honum sjálfum, eða æskuminningar, þakkar hann hann þeim hlustendum sem hafa látið fé af hendi rakna tll þáttarins eða vakið áhuga hans á samfélagsmiðlum. Þakkar hann hverjum og einum með nafni og er listinn oft langur. 

En þá eru reyndar flestir hlustendur sofnaðir enda er hver þáttur 60 til 90 mínútur.

Því má við bæta að ,,leiðinlegasti maður heims” hefur unnið til fjölda verðlauna. Sem dæmi má nefna vann hann  People’s Choice Podcast verðlaunin árið 2016 fyrir besta heilsutengda hlaðvarpið, hlaðvarp hans er næstum undantekningarlaust á topp tíu listum yfir bestum hlaðvörpum að sofna við og er á topp 50 listanum yfir vinsælustu hlaðvörp Bandaríkjanna. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 13 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?